21.04.1926
Neðri deild: 59. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1754 í B-deild Alþingistíðinda. (1476)

25. mál, sauðfjárbaðanir

Frsm. 1. minni hl. (Jörundur Brynjólfsson):

Eins og nál. þau, sem hjer liggja fyrir, bera með sjer, þá hefir landbn. ekki borið gæfu til þess að standa saman um þetta frv., heldur hefir hún klofnað í marga hluta. Þó skal jeg geta þess, að milli 1. og 2. hlutans er ekki svo langt, að sjerstaklega sje orð á gerandi. Við hv. 2. þm. Skagf. (JS) leggjum til, að gerð verði sú breyting á frv., að lögin frá 1924 verði numin úr gildi, en sú breyting gerð á 3. gr. laganna frá 1914, að atvinnumálaráðuneytið löggildi þau baðlyf, er nota á, og ennfremur að heimild verði veitt til þess að nota Coopers duftið. Okkur þykir það hyggilegast að halda þessum lögum með slíkri breytingu, til þess fremur að tryggja, að aðeins góðar baðlyfstegundir verði notaðar. Við styðjum þessa tillögu okkar við óskir og álit margra manna, óskir, sem hafa komið nú í vetur til Alþingis mjög víða að af landinu. Úr tíu sýslum hafa komið þingmálafundargerðir, og fleiri en ein úr sumum, sem óska beint eftir, að Coopers baðlyf verði leyft að nota. Auk þess hafa svo komið óskir úr nokkrum sýslum um það að þingið gerði ráðstafanir til þess, að útrýmingarbað færi fram á næstunni. Við höfum ekki sjeð okkur fært annað en að verða við þessum óskum. Það er öldungis víst, að bændum gengur ekkert annað til með þessum óskum og áskorunum til þingsins en að reyna að tryggja sjer þá bestu baðlyfstegund, sem þeir þekkja til. Og jeg held, að það væri ekki rjett gert að synja þeim, því jeg hygg óskir þeirra hafi við mikil rök að styðjast. Jeg teldi það meira að segja fulla ósanngirni.

Viðvíkjandi því, að við háttv. 2. þm. Skagf. (JS) viljum þó ekki gefa allan innflutning frjálsan á baðlyfi, þá er það sökum þess, að við höfum ekki trú á því, að ekki kunni að verða fluttar inn ýmsar tegundir baðlyfja, sem væru ljelegar, en menn ef til vill keyptu og notuðu. Og það væri illa farið. Við teljum sjálfsagt, að þar til útrýmingarbað fjárkláða fer fram, þá sje reynt að tryggja, að þrifabað fari reglulega fram eins og nú hefir átt sjer stað um nokkurra ára skeið, og jafnframt, að góð baðlyfstegund verði trygð. Og það teljum við, að best sje sjeð fyrir með þessu móti. Jeg skal geta þess, að með algerðu frjálsræði til að flytja inn hvaða baðlyfstegundir sem vera skal, þá er það öldungis víst, að inn verður flutt miklu meira af baðefnum en þörf er fyrir. Þannig var það t. d. áður en þessar skorður voru settar með löggjöfinni 1924, að það voru flutt inn liðug 100 tonn af baðlyfjum. Þetta hefi jeg frá góðum heimildum. En það mun vera í mesta lagi notað árlega eitthvað nær 50 tonnum. Þetta bendir til þess, að verði innflutningur ótakmarkaður, þá verði keypt miklu, meira en, þörf er fyrir. Jeg treysti mjer náttúrlega ekki til að staðhæfa neitt, en trúað gæti jeg því, að þegar væri farið að liggja með sumar baðlyfstegundirnar, gætu þær skemst við geymsluna. Vitanlega yrði þá reynt að selja baðlyfin á næsta ári, og ef ekki gengi, þá á þar næsta ári. Hóflegur aðflutningur er það mikilvægt atriði, að ekki er rjett að ganga algerlega framhjá því. En meiri líkindi eru til, að ekki verði flutt óhóflega inn, ef vissar baðlyfstegundir eru löggiltar. Annars ber okkur 1. minni hl. og 2. minni hl. ekkert á milli nema það, að 2. minni hl. vill gefa innflutninginn alveg frjálsan, en halda ákvæðinu um skyldubaðanir einungis. 2. minni hl. kemst svo að orði í nál. sínu, að þeir þori ekki að nema úr lögum þetta ákvæði um skyldu til þess að baða, að það myndi geta leitt til þess, að óþrif ykjust og kláði útbreiddist. Jeg er þeim sammála um þetta atriði. En jeg er líka hræddur við það, sem þeir þó ekki óttast, að ýmsar ljelegar baðlyfstegundir verði fluttar inn, ef innflutningur verður gefinn frjáls, og það álít jeg illa farið. Jeg vænti þess því, að fyrir varúðar sakir geti háttv. deild fremur fallist á till. okkar háttv. 2. þm. Skagf.

Viðvíkjandi 3. minni hl. nefndarinnar skal jeg vera stuttorður. Hann hefir trú á því, að aðeins með breyttu skipulagi og betra eftirliti megi ná sama árangri með því að hafa þessa baðlyfstegund eina, sem við höfum notað tvö síðustu árin. Jeg skal ekki staðhæfa neitt um það, hvað breytt skipulag á tilbúningi baðefnisins kynni að hafa í för með sjer. En viðvíkjandi eftirlitinu um sauðfjárbaðanir, þá get jeg upplýst hv. 3. minni hl. um það, að þar, sem jeg þekki til, þá hafa baðanir farið fram undir ströngu eftirliti nú á síðustu árum, svo að það verður ekki bætt, en þó hefir mjög mikill misbrestur orðið á árangri. Mjer var sagt dæmi um það, að eftir að búið var að baða tvisvar úr þessu baðefni undir góðu eftirliti, hafi samt komið upp kláði. Jeg get einnig gefið þar upplýsingar, að nú fyrir stuttu var mjer sagt, að kláða hefði orðið vart á nokkrum bæjum í Borgarfirði. Að vísu var ekki búið að baða nema einu sinni. Jeg hefi það fyrir sátt, að svona sje það víða. Alt þetta bendir á það, að einhver mistök eru með þetta baðefni, hvort sem þau eru viðráðanleg eða ekki. Og jeg held, að þingið geti ekki gengið framhjá þessum atriðum, sem nú eru upplýst. Jeg vænti þess vegna, að hv. deild geti fallist á till. okkar hv. 2. þm. Skagf. Jeg held það sje í alla staði heppilegasta till.

Jeg býst svo ekki við að þurfa að fjölyrða um þetta mál meira. Jeg er búinn að segja frá þeim atriðum, sem mjer finst máli skifta; mun því ekki standa upp á ný, nema sjerstakt tilefni gefist.