21.04.1926
Neðri deild: 59. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1760 í B-deild Alþingistíðinda. (1478)

25. mál, sauðfjárbaðanir

Frsm. 3. minni hl. (Hákon Kristófersson):

Jeg skal lofa að vera ekki langorður um þetta mál, og sennilega gef jeg ekki háttv. frsm. 1. minni hl. (JörB) ástæðu til að rísa upp úr sæti sínu þessa máls vegna.

Eins og sjá má á nál. mínu á þskj. 175, hefi jeg ekki getað orðið meðnefndarmönnum mínum samferða í þessu máli. Jeg hefi tekið ástæður mínar þar fram svo að jeg þarf fátt að segja nú.

Það er alkunna, að skoðanir manna á þessu máli eru nærri því eins skiftar og menn eru margir, eða a. m. k. er óhætt að segja eins og hreppar eða sýslur eru margar hjer á landi. Það er eins í þessu máli og öðrum, að hver og einn þykist vita betur en hinir. Reynsla eins bendir í þveröfuga átt við reynslu annars, ef gera má ráð fyrir, að allir segi eftir því, er hver og einn veit sannast.

Þegar böðunarlögin frá 1914 voru sett, þá var það vitanlega ekki af annari ástæðu en að menn fundu til þess, að skeytingarleysi bænda og annara fjáreigenda var svo mikið, að það þurfti nauðsynlega að setja löggjöf til þess að sporna við þeirri eyðileggingu, sem af því getur stafað að baða ekki, hvort sem fjárkláði er á fjenu eða ekki. Lögin hafa mörgum sinnum verið til umræðu síðan. Og rauði þráðurinn gegnum þær umræður hefir einlægt verið það, að framkvæma þyrfti allsherjar útrýmingarböðun vegna fjárkláðans. Jeg fyrir mitt leyti hefi litið svo á, að með nægilegri tryggingu góðra baðlyfja og framkvæmd á böðunum mundi vera óhætt að slá því föstu, að það mundi duga. Nú sýndi reynslan, að svo varð samt ekki. Þá kom það til athugunar bæði í þinginu og utan þings, hvaða ástæður væru til þess, að árlegt útrýmingarbað kæmi ekki að þeim notum, sem ætla mætti. Jeg held það sje ekki rangt með farið, að sú skoðun varð ofan á hjá æðimörgum, bæði í þinginu og annarsstaðar, að þessi slæmi árangur stafaði af miður góðum baðlyfjum, sem notuð voru til hinna árlegu þrifabaðana. Til þess að koma í veg fyrir, að áframhald yrði á notkun baðlyfja, sem ekki eru nothæf, var horfið að því ráði að koma á fót innlendri baðlyfjagerð, undir því eftirliti, sem álitið var svo tryggilegt, að betri tryggingar í því efni væru ekki líklegar. Með þessu þótti unnið tvent í einu. Í fyrsta lagi von um að fá örugg baðlyf og svo jafnframt að koma baðlyfjagerðinni inn í landið, sem þótti þýðingarmikið atriði. Nú er það alkunnugt, að síðustu árin hefir hin svokallaða Hreinsverksmiðja framleitt þetta baðlyf, sem notað hefir verið á sauðfje í það minsta að miklu leyti nú 2 síðustu árin.

Háttv. frsm. gat þess, að komið hefðu fram óskir úr mörgum sýslum — jeg held hann hafi sagt tíu sýslum, — um að leyfa innflutning á Coopers dufti. Þær óskir eru taldar fram komnar af þeim ástæðum, að menn álíta Hreins baðlyfið miður hæft til böðunar. Mig skortir næga þekkingu til þess að slá því föstu, að þetta sje ósatt. En jeg leyfi mjer að slá hinu föstu, að það er ósannað mál, af þeirri einföldu ástæðu, að hjá mjer og mörgum öðrum hefir þetta baðlyf reynst ágætlega. Mjer er kunnugt um, að einstökum mönnum í ýmsum sveitum hefir reynst það illa, eftir því sem þeir hafa skýrt frá. En það vill svo til, að það mun mega rekja götuna þannig, að hún liggur heim að einhverjum ástæðum, sem koma af óheppilegri meðferð baðlyfsins. Alment mun það ekki hafa verið mönnum kunnugt, að varast þyrfti, að ílátin væru í kulda. Jeg sný því til hv. þm. Mýr. (PÞ), hvort ekki sje rjett með farið, að hann hafi sagt mjer, að svo hafi Hreins baðlyfið reynst í hans hjeraði, að þeir hafi alveg læknað fjárkláða með því.

Hjer er þá ekki nema um tvent að ræða, samsetningu baðlyfsins og notkun þess. Um það fyrra er það að segja, að jeg álít algerlega fráleitt, að mistök eða vanræksla hafi átt sjer stað hjá þeim, sem framleiddu baðlyfið, þar sem líka gott eftirlit var með framleiðslunni. En þá finst mjer þetta hljóta að stafa af mistökum í meðferð baðlyfsins. Hvernig þeim mistökum er háttað, um það vil jeg engu til geta. Þó hygg jeg, að verulegasti þátturinn í þessu sje sá, að athugunar- og ef til vill kæruleysi megi mest um kenna, svo og því, að alment eru menn ekki farnir að skilja nauðsynina fyrir því að baða fjeð rækilega. Jeg vil alls ekki ætla, og hefi enga heimild til þess að segja það, að böðunin hafi verið illa framkvæmd yfirleitt. En að mikil missmíði hafi á þeim verið í einstaka stað, það leyfi jeg mjer að fullyrða.

Hv. frsm. 1. minni hluta (JörB) sagði, að það væri ósk sín og hv. 2. þm. Skagf. (JS) að fá löggildingu á Coopers baðlyfi, og væri það í samræmi við óskir annara. Jeg vænti nú þess, að þessir heiðursmenn taki mjer það ekki illa upp, þó að jeg lýsi því yfir, að jeg held, að trú þeirra á þetta baðlyf sje ekki svo óskeikul, að þeir geti ekki felt sig við að nota annað, því að báðir hafa þeir sagt í mín eyru, að þeir mundu ekki nota það sjálfir til sauðfjárbaðana. Áður en löggjafarvaldið tók málið þannig í sínar hendur að lögleiða ákveðna tegund baðlyfja, var Coopers baðlyf yfirleitt notað hjer á landi. En hvernig fór? Ekki stöðvaðist fjárkláðinn í landinu fyrir því. Þó nú að þetta yrði lögleitt hjer nú, sem jeg álít ekki að löggjafarvaldið geti gert, nema því aðeins að gefa málið alveg laust, þá er jeg dýralækni alveg ósammála um það, að hinar árlegu þrifabaðanir komi ekki að gagni. Ef þær eru vel framkvæmdar, halda þær ekki einungis fjárkláðanum niðri, heldur útrýma þær honum að fullu með tímanum.

Hv. frsm. 1. minni hluta (JörB) tók fram, að reynslan hefði sýnt galla á Hreins baðlyfinu. En jeg vil benda hv. þm. (JörB) á það, að reynslan sýndi mistök á þessu máli áður en þetta baðlyf kom til sögunnar. Jeg skal viðurkenna, að jeg álít Coopers baðlyf mest bráðdrepandi af þeim baðlyfjum, sem notuð hafa verið á seinni árum, en jeg held það sje svo skaðlegt fyrir ullina, að við getum ekki notað það þess vegna; að því ógleymdu, að fari baðlögur ofan í kind í baðþrónni, mundi það vera mjög hættulegt fyrir líf hennar.

Bæði 1. og 2. minni hluti landbn. hafa horfið að því ráði, að unnið verði að framkvæmdum á næstu árum í þá átt að útrýma fjárkláðanum. Nú lít jeg svo á, að heppilegast sje að láta við svo búið standa þangað til, og þess vegna hefi jeg lagt til, að frv. það, sem hjer liggur fyrir, verði felt. Líka mætti vera, að á þessu tímabili leiddi reynslan í ljós, að Alþingi kæmist að þeirri niðurstöðu að fresta útrýmingarböðunum. Þetta eru aðeins getgátur, sem jeg vil ekki fullyrða neitt um, en ekki ómögulegt að reyndust rjettar.

Það leiðir af sjálfu sjer, að almenn útrýmingarböð hafa mikinn kostnað í för með sjer. Auk þess er jeg sannfærður um, að þó að þessi útrýmingarböð fari fram, verður fjárkláðinn áfram í landinu, svo fremi bændur ekki standa saman um að fylgja málinu.

Jeg hefi bent á, að jeg teldi það vitanlega rjett, að strangara eftirlit væri haft með þessum málum framvegis en verið hefir. Mönnum er yfirleitt ekki kunnugt um, að gæta þurfi sjerstakrar varúðar í meðferð baðlyfjanna. Dúnkarnir eru til dæmis látnir standa úti að næturlagi og lítið um þá hirt. En athugaleysi þetta stafar einungis af því, að menn hafa ekki hugmynd um, að neinnar sjerstakrar varúðar þurfi að gæta með það, að baðlyfið kólni ekki.

Hv. frsm. 2. minni hl. (ÁJ) benti á að hann gæti lagt fram vottorð frá mörgum mönnum, sem sönnuðu, að Hreins baðlyf hefði reynst ágætlega, og nýlega talaði jeg við mann, sem hafði haft það í útvegum, og fullyrti hann, að það hefði reyst mjög vel. Jeg verð því að slá því föstu, að hjer sje um gott baðlyf að ræða. Engu að síður dettur mjer ekki í hug að halda því fram, að það sje skrök, að mistök hafi átt sjer stað, en þá er ekki um óheppilegt baðlyf að ræða, heldur um óheppilega meðferð á góðu baðlyfi. En það er hægt að koma í veg fyrir þessi mistök nú, þegar menn þekkja orsakir þeirra.

Jeg kæri mig ekki um að fara frekar út í þetta mál og læt mjer í ljettu rúmi liggja, að hvaða niðurstöðu þingið kemst. Jeg hugsa, ef dæma má eftir venjulegum hringlandaskap, að þessi löggjöf, sem reynst hefir vel hingað til, verði úr gildi numin. En þá álít jeg, að gefa eigi frjálst, hvaða baðlyf eru notuð, en ekki eigi að taka eitt sjerstakt baðlyf út úr og löggilda það.