21.04.1926
Neðri deild: 59. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1765 í B-deild Alþingistíðinda. (1479)

25. mál, sauðfjárbaðanir

Atvinnumálaráðherra (MG):

Það er ekki hægt að segja, að gott sje samkomulagið í hv. landbn. um þetta mál. Jeg skal lýsa því yfir, að jeg mun í þessu máli fylgja hv. þm. N.-M. (AJ og HStef), af því að jeg er samdóma hv. þm. Barð. (HK) um það, að það sje undarlegt, ef þingið taki eitt sjerstakt baðlyf út úr og löggildi það og segi svo, að hægt sje að löggilda önnur í samráði við dýralækni. Þessu eina þinglöggilta baðlyfi er þá gefin svo mikil viðurkenning, að jeg get ekki verið því fylgjandi. Hinsvegar vil jeg taka tillit til hinna mörgu óánægjuradda, sem heyrst hafa út af því að mega ekki nota Coopers duft. Fjöldi manna um alt land hefir notað það í mörg ár og verið hæstánægður með það. Síðan 1924 er mikil óánægja út af þessu, og gerir hún heldur að magnast en minka, og er það ekki nema eðlilegt, þar sem til voru birgðir af Coopers dufti, sem hægt var að nota 1925. Mjer hafa borist kvartanir úr flestöllum sýslum landsins, nema Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslum, yfir að mega ekki nota Coopers duftið. Að þessu athuguðu álít jeg, að rjettast sje að gefa baðlyfjaverslunina frjálsa. Að sönnu ber því ekki að neita, að því kann að vera samfara nokkur hætta á, að einhver þau baðlyf verði keypt, sem ættu ekki að vera notuð, en þó hygg jeg, að bændur sjeu mjög varkárir með að kaupa baðlyf, sem þeir þekkja ekki, af því að til eru margar tegundir, sem eru svo þektar, að þeir þurfa ekki að kaupa óþekt baðlyf.

Að öðru leyti sje jeg ekki, ástæðu til að ræða þetta mál lengur, en aðeins vil jeg taka það fram, að jeg er ósamþykkur hv. þm. Barð. (HK) um, að þrifabaðanir muni uppræta kláða. Hinsvegar veit jeg, að með góðum þrifaböðum má halda honum í skefjum.

Það er erfitt að segja, hvort útrýmingarböð muni koma að tilætluðum notum. En hvað sem því líður, vildi jeg mælast til þess, þeirra vegna, sem eru óánægðir með að geta ekki notað Coopers baðlyf, að þetta frv. gangi fram nú á þessu þingi, Ef á annað borð á að fara að hrófla við baðlyfjalöggjöfinni, er ekki önnur leið fær en sú, að gefa frjálsa baðlyfjaverslunina.