08.05.1926
Efri deild: 70. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1771 í B-deild Alþingistíðinda. (1488)

25. mál, sauðfjárbaðanir

Frsm. (Ágúst Helgason):

Það mun vera sjaldgæft, að jafnalmennar kröfur hafi borist þinginu um að breyta lögum eða afnema eins og nú um lögin frá 1924 um sauðfjárbaðanir.

Hið innlenda baðlyf, sem þau lög fyrirskipa að nota eingöngu, hefir reynst miður en til var ætlast. Að vísu eru til menn, sem telja þetta baðlyf nýtilegt, en öllum almenningi hefir reynst það ónýtt, ekki einu sinni getað unnið á færilúsinni, auk heldur á kláðamaurnum. Kláðinn hefir aukist að mun í sumum hjeruðum landsins síðan farið var að nota þetta innlenda baðlyf.

Bændur eru nú orðnir svo vanir sauðfjárböðunum og búnir að fá svo mikla reynslu í að nota ýmsar tegundir baðlyfja, að þeim ætti að vera trúandi til að velja sjer þá baðlyfstegund, sem þeim hefir reynst best, og jeg er í engum vafa um, að það er hollast að láta þá sjálfráða um það.

Hepnist það, að gera innlent baðlyf samkepnisfært að gæðum og verði við erlendar baðlyfjategundir, ætti að sjálfsögðu að nota það. En eins og nú standa sakir, vil jeg mæla fast með því; að bændur verði látnir sjálfráðir um valið, eins og ætlast er til með þessu frv., og vil jeg því eindregið leggja til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.