06.04.1926
Efri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1772 í B-deild Alþingistíðinda. (1494)

92. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Frv. þetta er borið fram eftir tilmælum fjrh., og er tilætlunin með því að koma á samræmi milli laganna um fasteignaskatt til ríkissjóðs og bæjargjalda í Reykjavík.

Í lögum um fasteignaskatt til ríkissjóðs eru þau hús, sem nefnd eru í frumvarpinu, undanþegin fasteignaskatti. Er því tilætlunin með frv. að undanþiggja þau líka skatti til bæjarsjóðs, því að það er aðeins lítilfjörlegur tekjumissir fyrir bæinn. En hinsvegar virðist óeðlilegt, að ríkið borgi bænum fasteignaskatt af sínum húsum, þegar það hefir undanþegið hús bæjarins þessum skatti til ríkissjóðs. Eins og bent er á í greinargerð frv., getur þetta orðið mjög stórt atriði fyrir einstöku byggingar, þegar stórhýsi rísa hjer upp. Þannig yrði það mjög tilfinnanlegt fyrir landsspítalann, og getur beinlínis orðið því til fyrirstöðu, að hjer verði reistar veglegar kirkjur, og væri leitt, ef það gæti orðið því til fyrirstöðu.

Frv. þetta er komið frá nefnd, og sje jeg því ekki ástæðu til, að því verði vísað til nefndar. Leyfi jeg mjer því að leggja til, að það fái að ganga áfram nefndarlaust.