07.05.1926
Neðri deild: 73. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1779 í B-deild Alþingistíðinda. (1507)

92. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Magnús Jónsson:

Jeg held, að það sje fjarri sanni, að það hafi stafað af vangá, að þessi ákvæði, sem frv. þetta felur í sjer, fjellu burt úr frv. um bæjargjöld í Reykjavík, er það var hjer fyrir þingi síðast. Þetta var einmitt talsvert mikið rætt þá. Þá voru feld niður ýms sjerstök gjöld, svo sem sótaragjald, salernahreinsunargjald og sorphreinsunargjald, sem voru áætluð, um 150 þús. kr. En þessi skattur nemur um 160 þús. kr. á ári, eða mjög nærri sömu upphæð. Þannig voru þessi mörgu sjerstöku smágjöld tekin í eitt, og jeg man, að jeg vildi, að það yrði beinlínis tekið upp í bæjargjaldalögin, að þau verk, sem þessi gjöld voru áður greidd fyrir, yrðu eftirleiðis kostuð af bænum. Nú er það augljóst, að ef ríkið vill fara að draga undan eitthvað mikið af sínum fasteignum að því er til fasteignagjalds í bæjarsjóð kemur, þá verður það að vera alveg gagnkvæmt, því vitanlega borgar bærinn fasteignaskatt til ríkisins, einkum af lóðum og löndum. Jeg veit ekki, hve mikið það gjald er. En það er áreiðanlega mikið.

Háttv. frsm. meiri hl. (JAJ) reyndi að sýna, hve fjarri sanni það væri, að þetta gjald væri greitt fyrir unnin verk, með því að benda á það gjald, sem greitt væri af alþingishúsinu og dómkirkjunni. Það er rjett, að þetta gjald er æðihátt, og þannig er það líka af sumum einstakra manna húsum. En það kemur af því, að það ráð hefir verið tekið að jafna gjaldinu niður með tilliti til fasteignamatsverðs húsanna, á líkan hátt og rafmagnstaugar í stór hús eru reiknaðar miklu dýrar en í smáhús, vegna þess að miðað er við verð húsanna. Og þegar þessi gjöld koma í eitt, þá kemur rjett upphæð út. Það dugir því ekki að taka út úr einstök stórhýsi og segja, að gjaldið sje of hátt, enda þótt það mætti fá mann til þess að verka reykháfana í því fyrir lægra verð o. s. frv. Því þá yrðu það aftur litlu húsin, sem ekki fengjust hreinsuð fyrir það verð, sem nú er greitt þeirra vegna. Ef nú verða feld undan þessu gjaldi einhver stórhýsi, þá þýðir það það, að það verður að semja gjaldstiga þennan upp að nýju.

Jeg skil ekki almennilega, hvernig hv. meiri hl. nefndarinnar hefir komist inn á að blanda vatnsskattinum hjer við: jeg hefi altaf litið svo á, að vatnsskatturinn væri fyrir vatnið og að bænum veiti ekki af honum fyrir vatnsleiðsluna. Nú alveg nýlega hefir verið framkvæmd stórkostleg endurbót á vatnsleiðslunni til bæjarins, og hefir af því leitt meðal annars lækkuð brúnatryggingargjöld. En ef hægt væri að komast af með vatnsskattinn einan af opinberum byggingum, þá ætti það að vera hægt hvað snertir önnur hús líka, og sjá allir, hvaða fjarstæða slíkt er. Eins og hv. frsm. minni hl. (JakM) gat um, þá skal jeg ekkert hafa á móti því, að þetta frv. verði afgreitt, ef ekki er farið út fyrir það, sem til var stofnað í byrjun. Upphaflega tilefnið til þess var, að óskað var eftir því vegna dýrrar kirkjubyggingar, sem söfnuður einn hjer í bænum ætlar að koma hjer upp, og er ætlast til, að sú kirkja og aðrar verði undanþegnar þessum skatti, enda er það yfirleitt æskilegt, að slíkar byggingar geti orðið skrautlegar og fagrar, miklu meir en önnur hús, sem meir eru ætluð sem almennar vinnustofur, og sem menn ekki hafa efni á að byggja þannig. Þessi söfnuður kveinkar sjer við að greiða þessi miklu gjöld, en það er of langt gengið að taka margar byggingar undan þessum sköttum. Jeg vildi taka undir ósk hv. frsm. minni hl. (JakM), að málið væri tekið út af dagskrá, því að jeg hjelt, satt að segja, að þetta væri frv. það, sem hv. þm. Barð. (HK) flutti, og bjó mig því ekki út með nein gögn viðvíkjandi þessu máli.