10.04.1926
Neðri deild: 50. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 595 í B-deild Alþingistíðinda. (152)

1. mál, fjárlög 1927

Frsm. (Tryggvi Þórhallsson):

Það er ekki margt, sem jeg hefi að segja af hálfu nefndarinnar. Það hefir ekki komið margt fram í þessum umr., sem gefur tilefni til andsvara.

Það hefir borið margt á góma í kvöld út af fyrirspurnum hv. 2. þm. Reykv. (JBald), og hefði jeg blandað mjer inn í umr. um þær, hefði jeg ekki verið frsm., og tekið undir margt af því, sem hann hefir sagt. en þar sem jeg er frsm., geri jeg það ekki.

Hæstv. fjrh. (JÞ) kom óbeint að íþróttaskólanum, en sjerstaklega snerust þó orð hans að Laugaskólanum og vildi hann þar koma til liðs við hv. þm. Ak. (BL). Það helsta, sem hæstv. fjrh. hafði fram að bera, voru mjög óviðeigandi ummæli í garð skólastjórans. Hann bar á hann þau þyngstu ámæli, sem hægt er að bera fram, að merkir menn í sýslunni þyrðu ekki að trúa honum fyrir unglingum sínum. Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) hefir þegar mótmælt þessu og allir, sem þekkja skólastjórann, mótmæla þessu eindregið. Jeg álít það mjög ósæmilegt að láta svona orð falla úr ráðherrastóli, og hæstv. ráðherra hefir áður vegið í hann knjerunn um einstaka menn. Vil jeg átelja það mjög. Við, sem kunnugir erum Arnóri Sigurjónssyni, mótmælum ummælum hæstv. ráðherra, og ekki aðeins við, heldur sjálf reynslan mótmælir þeim, því að aðsókn skólans hefir verið mjög mikil úr þeim sveitum, þar sem hann er best kunnur.

Jeg veit ekki hvað veldur því, að hæstv. ráðherra fer með þessi ummæli. Jeg get ekki sjeð annað en aðeins ein ástæða sje til þess, og hún er sú, að á síðastliðnu sumri lenti honum saman við Arnór á pólitískum fundi norður í Þingeyjarsýslu og varð mjög illa leikinn; og ef ekki hefðu verið gerðar sjerstakar ráðstafanir til þess að bjarga ráðherranum, hefði hann fengið álíka útreið og verið ráðstafað líkt og Krók-Álfi forðum. En hæstv. ráðherra má ekki nota þinghelgina til þess að hefna sín fyrir útreið þá, sem hann fjekk norður þar. Svo kom hæstv. ráðherra inn á fjármál skólans á Laugum og taldi hann ósambærilegan við Hvítárbakkaskólann, því að hann hefði engan byggingarstyrk fengið. Hann fær nú einmitt byggingarstyrk með till., sem nú hefir verið samþykt. (Fjrh. JÞ: Það er ekki byggingarstyrkur). Jú, það er sama framlagið og til hinna skólanna, og er ekkert við það að athuga að taka lán. Þingeyingar munn áreiðanlega standa undir þessu óskabarni sínu, og jeg leyfi mjer að mótmæla harðlega öllum aðdróttunum gegn þessari stofnun, sem er orðin og verður altaf, vona jeg, þessu merka hjeraði til sóma.

Þá vjek hæstv. ráðherra að því, að jeg hefði sagt, að hv. 2. þm. Skagf. (JS) vildi marka stefnu íhaldsins með afstöðu sinni til mála, sem hann teldi sig andvígan. Jeg sagði, að ef hann vildi marka stefnuna með því að vera á móti þeim málum, er hann nefndi, þá öfundaði jeg hann ekki af því.

Þá lagði hæstv. ráðherra á móti því að setja miðstöð í skólahúsið á Eiðum. Ástæða hans var sú, að hann efaðist um það, sem jeg hafði sagt, að eldsneytissparnaður yrði að því. Jeg tók fram, að það væru ekki mín orð, heldur ummæli húsagerðarmeistara ríkisins, sem jeg vitnaði í, og nefndin hefir fengið skjal, skrifað af dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og undirritað af Guðmundi Sveinbjörnssyni, þar sem þessi ummæli húsagerðarmeistara eru tilfærð, og vil jeg, með leyfi hæstv. forseta. lesa þau upp:

„Í rekstri telur húsameistari miðstöð töluvert ódýrari en ofna.“

Nefndin áleit skylt að fara eftir því, sem húsagerðarmeistari sagði, og ef hæstv. ráðherra efast um þessi ummæli, þá getur hann fengið skjalið. Það ber öll merki stjórnarráðsins.

Jeg hefi aftur á móti ekkert við það að athuga, sem hann sagði um stúdentagarðinn. Mjer þótti vænt um, að hann tók ekki undir ummæli hv. 2. þm. Skagf. um stúdentagarðinn. En viðvíkjandi því, sem hæstv. ráðherra tók fram um skilyrðin fyrir þessari styrkveitingu, þá veit jeg ekki, hvort nefndin fellst á það, því að hún hefir ekki haft fundi síðan, en jeg hefi talað við suma nefndarmennina, og hafa þeir fallist á það fyrir sitt leyti, þó þannig, að þetta væri byrjunarframlag, sem mætti geyma þar til settar verði nánari reglugerðir um þetta atriði og þar til frekari ráðstafanir væru gerðar í samráði við stúdentaráðið og stúdenta, sem leggja fram 2/3 kostnaðar. Hæstv. ráðherra sagði, að út frá þessum skilyrðum mætti samþykkja þessa upphæð, og jeg er því líka samþykkur. Þarf jeg svo ekki að víkja frekar að hæstv. ráðherra að því leyti, sem hann talaði um till. nefndarinnar.

Þá vjek hann að eftirgjöfum á viðlagasjóðslánunum og las upp reikninga viðkomandi hreppa og lagði út af þeim og beindi þeirri ásökun til flm., að þeir hefðu ekki látið þetta ganga rjetta boðleið, heldur hefðu oddvitarnir átt að snúa sjer beint til stjórnarráðsins. En jeg tel það alveg rjetta boðleið að snúa sjer til fulltrúa sinna á Alþingi, því að stjórnarráðið er ekki hinn rjetti aðili í þessum málum. heldur þingið.

Jeg hefi fengið rækilegt brjef frá oddvita Árneshrepps, þar sem hann óskar þess, að jeg af kjördæmisins hálfu gæti þess, að Árneshreppur fái um þetta lán sitt sömu afgreiðslu og aðrir hliðstæðir hreppar. Og þar sem hv. þm. Borgf. (PO) hóf að bera fram tillögu við 2. umr. um eftirgjöf til Innri-Akraneshrepps, var mjer sjálfsagt að fara í fótspor hans.

Sjeu þessi lán gefin eftir, er það í raun og veru ekkert annað en áframhaldandi spor þess, sem áður hefir verið stigið, þar sem Árneshreppur hefir ekki greitt vexti og afborganir af láninu í 3 ár, og hið sama er að segja um Sljettuhrepp. Var þeim gefið þetta eftir á Alþingi 1923.

Um Árneshrepp er það að segja, að jeg er ekki svo kunnugur, að jeg geti romsað upp reikningum hans; jeg var honum alveg ókunnugur, þegar jeg bauð mig fram. En hafi það verið tilgangur hæstv. fjrh. að vjefengja það, að hreppurinn sje illa staddur, þá get jeg fullvissað hv. deild um það, að það er ekki rjett, sem hæstv. ráðherra fer með, og með því að vitna í tölur get jeg sannfært hv. þm. um það, að reikningur hreppsins sýnir, að hann er illa staddur, og jeg er viss um, að væri hæstv. fjrh. „ráðherra“ þessa hrepps, þá hefði hann augun opnari í þessu máli en raun er á orðin. Hann lagði mikla áherslu á það, að eignir hreppsins væru miklar. En hvaða eignir eru það? Húskofi, sem virtur er á 350 kr., en er vart svo mikils virði. Eignir hreppsins eru taldar 22 þús. Af því eru 21 þús. útistandandi skuldir, útistandandi lán og ógoldin útsvör. Þetta er langsamlega mestalt tapað, eða a. m. k. meginhluti þess. Þess vegna er það, eins og hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) benti á, að leggjast á lítilmagnana að vera að gera storm út af þessu, þar sem aðrir hreppar hafa fengið eftir gefið. Þetta er ein hin mesta harðindasveit: tíðarfarið þar hefir valdið þungum búsifjum, og því beini jeg þessu að hv. deild, að hún láti að orðum flm., sem kunnugir eru staðháttunum og best vita um þörf hreppanna.

Hæstv. atvrh. (MG) hefir engar aths. gert við till. fjvn. En hann vjek að einni till., sem er frá fjvn.-mönnum, en ekki frá nefndinni, og sem hún hefir enga afstöðu tekið til enn þá. Það er till. um landbúnaðarfróðan aðstoðarmann í efnarannsóknarstofunni. Jeg get tekið undir þessa till. og tel ekki rjett að breyta þessu. Jeg hefi talað við forstöðumann efnarannsóknarstofunnar. Hann hefir næga þekkingu á þessum rannsóknum og fer líka utan í sumar til frekara náms. Annars hygg jeg, að flm. hafi blandað hjer saman tvennu, því, að fremja rannsóknir og hinu, að draga ályktanir út úr þeim rannsóknum. Hið síðara er hver búfræðingur fær um, þegar hann hefir fengið rannsóknirnar til þess að skrifa ritgerðir eftir.

Jeg hefi lítið meira að segja til hv. 2. þm. Skagf. Það hvesti í bili á milli okkar, en jeg sje ekki ástæðu til þess að ýfa það aftur, enda fór hann hógværlega að ráði sínu.

Hv. þm. mintist á sendiherrann. Við vorum þar samherjar einu sinni, en ekki lengur, eins og ljóst er orðið.

Þá er það einn hv. þm. enn, sem beint hefir orðum sínum að nefndinni, hv. 2. þm. Reykv. (JBald). Hann hjelt því fram, að það hefði ekki verið af góðum ástæðum, að nefndin skyldi hafna till. hans af því, að engin erindi lágu fyrir um hana. En nefndin heldur fast við það, að eigi að veita svona styrki, þá megi þó ekki minna vera en að einhver áætlun liggi fyrir um það, hvernig eigi að verja þeim. Hinsvegar er það rjett, sem háttv. þm. sagði, að sjálfsagt er að bera fram hugmyndir sínar og skýra frá þeim, en það má ekki framkvæma þær fyr en sýnt hefir verið, hvernig á að gera það. Hv. þm. staðfesti það, sem jeg sagði, að engin áætlun er til um þennan foss, engin heiðni frá bændunum, sem hlut eiga að máli, eða hvernig þeir hafi hugsað sjer að skifta sínum hluta kostnaðarins niður; þetta er aðeins hugmynd hv. þm.

Þá játaði hann, að engin skjöl lægju fyrir um gamalmennahælið á Ísafirði, og síðan hann hjelt ræðu sína, hefir hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) ekki sagt eitt einasta orð henni til stuðnings.

Hv. þm. sagði í spaugi, að nefndin hefði fengið lánað vopn hjá sjer, en nú vildi hann fá lánið endurgoldið. Það var nú svo í gamla daga, að bardagar hjer á landi byrjuðu jafnan með grjótkasti. Þegar svo var kastað í hitt liðið, fjekk það vopnin lánuð, og þegar flótti brast í liðið, fjekk það grjótið í bak sjer. Jeg vil að vísu ekki kasta grjóti í bak hv. þm., en jeg vil segja það, að mjer finst þetta ekki nógu vel hugsað hjá honum til þess að vera frambærilegt, enn sem komið er.

Jeg hefi svo ekki meira að segja af hálfu nefndarinnar, en ásamt því að vera frsm. er jeg þm. Strandamanna, og þess vegna get jeg ekki stilt mig um að segja ennþá örfá orð til hæstv. ráðh. (JÞ og MG). Mjer finst svo um þá sem Þorgeiri Hávarðssyni, sem drap mann af því að hann lá svo vel við höggi. Ullartollurinn hefir verið dreginn inn í umr., og hefir hæstv. fjrh. (JÞ) haldið því fram, að stjórn Bandaríkjanna hafi stofnað til stríðs á þeim grundvelli, sem hægt er að sanna, að er ósannur, að íslenskt fje sje blandað útlendu fje. Þetta er svo mikil fásinna, að furðu gegnir, að hún skuli vera borin fram hjer á Alþingi. Og hann gerði meira. Hann gaf í skyn, að dómstólar Bandaríkjanna hefðu dregið málið og viljað dæma það á þessum grundvelli, í stað þess að það var hafið og hefir unnist af því, að það var bygt á rjettum rökum. Jeg tel þetta mjög óviðeigandi aðdróttun til stjórnar og dómstóla Bandaríkjanna.

Hina fjarstæðuna bar hæstv. atvrh. fram í sambandi við það, sem hann sagði um enska lánið. Hann hjelt því fram, að íslenska krónan hefi fallið af því að svo mikið framboð hefði verið á sterlingspundum. Kann að vera, að hæstv. ráðherra hafi orðið mismæli, en vissulega sagði hann þetta. Jeg hlýt að ganga út frá því, að hæstv. ráðherra (MG) viti, að þetta er einmitt þveröfugt. Mikið framboð á sterlingspundum, og hvaða útlendum gjaldeyri sem er, stefnir einmitt í þá átt að hækka íslenska krónu í verði. Höfuðástæðan til krónuhækkunarinnar á síðastliðnu hausti var einmitt mikið framboð á erlendum gjaldeyri. Það er ófyrirgefanlegt að segja slíka lokleysu úr ráðherrastóli.