20.02.1926
Neðri deild: 11. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1793 í B-deild Alþingistíðinda. (1527)

29. mál, almannafriður á helgidögum

Klemens Jónsson:

Jeg skal fúslega játa, að mjer hefir oft þótt nóg um, hve hjer í Reykjavík hefir verið unnið mikið á sunnudögum, og það jafnvel um sjálfan messutímann. Og jeg get ekki neitað því, að það hefir helst hneykslað mig, hve skipaafgreiðsla öll hefir verið látin óhindruð. Mjer hefir ekki dulist, að slík störf eru oft unnin á sunnudögum að nauðsynjalausu. Jeg get því vel skilið þá hreyfingu, sem á er komin til þess að stemma stiga fyrir þessu og að það eru einmitt tveir aðalsöfnuðirnir hjer, sem skora á Alþingi að láta þetta mál til sín taka, enda mun frv. samið af fulltrúum þessara safnaða.

Hinsvegar verð jeg þó að taka það fram sem mína skoðun, að samning frv. hefir ekki tekist eins vel sem skyldi. Þó að ekki sje farið fram á mjög miklar breytingar frá því, sem verið hefir, virðist mjer ýms atriði í frv. varhugaverð.

Jeg ætla ekki að fara út í almenn atriði, sem hv. flm. drap á, svo sem um nauðsyn hvíldardagsins eða slíkt, og ekki heldur út í það, hvort rjett sje að knýja menn með þessum lögum eða öðrum til þess að halda hvíldardaginn heilagan. En það eru margir menn víðsvegar, sem vilja verja þessum degi til þess að iðka guð sinn, og tel jeg skylt að trufla þá ekki í því. En enginn vafi er á því, að það er oft gert alveg að nauðsynjalausu, eins og jeg þegar hefi tekið fram. Jeg vil því gjarnan styðja að því, að úr þessu sje bætt. En jeg lít svo á, að ákvæði þessa frv. sjeu ekki fullkomlega vel til þess fallin. Jeg held, að gömlu lögin frá 1901, um almannafrið á helgidögum þjóðkirkjunnar, væru alveg nægileg, ef þeim væri vel framfylgt. Það mun vera hjer eins og á svo mörgum öðrum sviðum, að það, sem ábótavant er, leiðir af framkvæmd laganna, eða rjettara sagt framkvæmdarleysi þeirra, en ekki lögunum sjálfum. Jeg held, að nægt hefði í þessu efni, að söfnuðirnir hefðu snúið sjer beint til lögreglustjóra: Nú hafa þeir snúið sjer til Alþingis, og það er sjálfsagt að taka frv. til íhugunar, en jeg hygg, að það þurfi nokkurra breytinga. Það sjest líka á því, að flm. sjálfir eru ekki ánægðir með það og áskilja sjer rjett til breytinga. Háttv. flm. (MJ) hefir rjettilega bent á og tjáð sig ósamþykkan því, sem að mínu áliti er aðalagnúinn á frv., en það er þessi mismunandi tími helgidaganna, sem gert er ráð fyrir að friða; stundum er friðunin bundin við tímann frá kl. 10–4, stundum frá kl. 12–4, og enn stundum frá 11–4, eða enda frá 11–6. Þetta er óhæfilegt. Jeg tel miklu heppilegra að hafa einhvern ákveðinn hluta dagsins alfriðaðan, t. d. frá kl. 11 til 3.

Það eru fáein atriði, sem jeg vildi minnast á til leiðbeiningar fyrir þá háttv. nefnd, sem fær frv. til meðferðar. Jeg kann t. d. ekki við framsetningu 1. gr., þar sem meginreglan úr gömlu lögunum er sett í niðurlag greinarinnar, en ýmsar undantekningar taldar fyrst. Færi betur á að breyta þessu á þann veg að setja aðalregluna fyrst og síðan telja undantekningarnar.

Í 2. gr. eru tekin upp ákvæði úr gildandi lögum óbreytt. En það er alkunnugt, að lyfjabúðir versla nú með miklu fleiri vörutegundir heldur en 1901, og sje jeg ekki, að hægt sje að gera mun á því, hvort seld eru lyf eða aðrar vörur, sem lyfjabúðin hefir á boðstólum, svo sem svampar, sápur og ilmvötn.

Þá er eitt, sem kemur undarlega fyrir og sýnir, að þeir, sem samið hafa frv., hafa ekki borið það nákvæmlega saman við gildandi lög, en þetta hefir þó líklega orðið ósjálfrátt, því að jeg býst ekki við, að þeir, sem að frumvarpinu standa, vilji útbreiða vínnautn í landinu. Það stendur í gömlu lögunum frá 1901, að ekki megi selja áfenga drykki á helgidögum. En þá var leyfilegt að selja áfengi aðra daga vikunnar, og því var undantekningin gerð. Nú gæti litið svo út eftir þessu frv., 3. gr., að gestgjöfum væri leyfilegt að selja áfengi nema á sunnudögum, en þá brestur yfir höfuð að tala alla heimild til vínveitinga.

Eins og jeg hefi tekið fram, tel jeg fulla þörf á, að hv. nefnd taki frv. til rækilegrar meðferðar og gagnrýni það sem vandlegast. Jeg óska, að henni takist sem hest að bæta úr misfellum þess og samræma það gildandi lögum, og jeg vildi, að henni tækist þá um leið að svifta það þeim „pietistiska“ blæ, sem yfir því er og mjer geðjast ekki að.