28.04.1926
Neðri deild: 64. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1804 í B-deild Alþingistíðinda. (1534)

29. mál, almannafriður á helgidögum

Jakob Möller:

Hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) kvað mig hafa farið nokkuð geist, er jeg mótmælti því, að mál þetta væri tekið af dagskrá. Jeg mótmælti, að þetta væri gert eftir kröfu eins þm., sem ekki hafði heldur neinar ástæður fram að færa fyrir kröfu sinni. Jeg get ekki viðurkent, að jeg hafi farið hart í sakirnar.

Um frv. sjálft hefi jeg ekki ástæðu til þess að segja mikið. Jeg hygg, að það kenni dálítils misskilnings hjá hv. 2. þm. N.-M., er hann legst svo þunglega á móti því. Hjer er ekki um ný lög að ræða. Ákvæði þessa frv. eru að mestu leyti í gömlu lögunum um þetta efni. En hjer í Reykjavík kom upp töluverð óánægja meðal verkalýðsins út af takmarkalausri vinnu á helgidögum. Út af því hafa verið gerðar tilraunir til þess að koma viðunanlegu skipulagi á helgidagavinnu hjer í Reykjavík. Þetta frv. er árangurinn af samkomulagi milli atvinnurekenda og verkamanna, því að það er samið af fulltrúum beggja þessara aðilja. Að öðru leyti er frv. ekki annað en endurtekning á gildandi lögum. Jeg veit ekki. hvort hv. 2. þm. N.-M. hefði tekið því betur, ef í stað þess að bera fram endursamin lög um almannafrið á helgidögum hefði verið komið fram með sjerstakar breytingar um vinnufyrirkomulagið í Reykjavík. Jeg býst samt við, að hann hefði snúist betur við slíkum breytingum, því að ræða hans beindist mest gegn gömlu ákvæðunum. Hann sagði að lögin hefðu verið brotin og mundu verða brotin. Það er nú víst, að þau hafa verið brotin, en jeg er sannfærður um það, að að því er snertir nýju ákvæðin um vinnu hjer í Reykjavík, þá mun verða reynt að framfylgja þeim, svo að því leyti á frv. þetta fullan rjett á sjer. Ef breytingar nefndarinnar verða samþyktar, er hinsvegar að nokkru leyti dregið úr gildandi lögum, og því ætti hv. 2. þm. N.-M. að sætta sig betur við þetta frv. en gömlu lögin. Mjer finst engin ástæða fyrir háttv. deild að leggjast á móti þessu frv. með breytingum nefndarinnar, því síður þegar það er í raun og veru skylda ríkisvaldsins að gæta helgidagafriðarins. Um brtt. háttv. þm. Borgf. (PO) er það að segja, að mjer þykir hún ganga fulllangt, og auk þess má segja, að hún vinni að nokkru leyti á móti tilgangi sínum. Í kaupstöðum er það oft einkar þægilegt að geta farið í bifreiðum til kirkju, auk þess sem sumir geta alls ekki komist í kirkju, ef þeim er meinað að fara í vagni. Að vísu má segja, að þeir geti komist í kirkju í bifreiðum, þó að tillagan verði samþykt, en þeir komast þá ekki úr henni aftur samkv. þessari brtt. Annars held jeg, að ekki kveði mikið að bifreiðaferðum hjer um messutímann. Jeg mun því greiða atkvæði móti þessari brtt.