28.04.1926
Neðri deild: 64. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1807 í B-deild Alþingistíðinda. (1536)

29. mál, almannafriður á helgidögum

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg get tekið undir margt af því, sem háttv. 2. þm. N.-M. sagði um helgidagalöggjöfina. Hún er víða brotin, enda erfitt að komast hjá því, ef menn eiga að geta unnið sjer það gagn, sem þeir þurfa, um hábjargræðistímann. Þetta gildir í sveitunum og sama má segja um kaupstaðina. Háttv. 3. þm. Reykv. sagði, að þetta frv. væri árangur af samkomulagi milli verkamanna og vinnuveitenda hjer í Reykjavík. En dettur nokkrum hv. þm. í hug, að reglur, sem borgararnir í Reykjavík setja handa sjer, geti átt við um land alt? Það er síður en svo. Það má benda á, að í 1. gr. stendur, að ef skip liggja eigi við bryggjur eða bólverk, þá er heimilt að ferma þau og afferma á helgum dögum. Nú hagar svo til víða úti um land, að einn kaupmaður eða verslun á bryggju, en annar ekki. Hann má þá hvorki ferma nje afferma, en hinir, sem ekki eiga bryggjur, mega athafna sig eins og þeir vilja. En er nokkurt vit í þessu? Jeg veit, að svona hagar til víða á Vestur- og Austurlandi, og gæti nefnt dæmi þess, en jeg veit, að hv. dm. er þetta kunnugt. Hitt er líka, að það er fljótlegra fyrir þá, sem vinna að uppskipun við bryggju, að leggja niður vinnu og sækja kirkju heldur en hina, sem vinna úti á höfn. Það gæti verið, að þeir yrðu veðurteptir úti í skipinu og ættu alls ekki kost á því að sækja kirkju. Jeg vil þá líka minna á það, að það er einnig bannað eftir núgildandi lögum að opna sölubúðir á helgum dögum. En það hagar víða þannig til, að það er ómögulegt að framfylgja þessu. Og jeg er líka fullviss um það, að slíkt dregur í sjálfu sjer ekkert úr helgi hvíldardagsins. Jeg skal til dæmis benda á það, að póstbáturinn, sem gengur um Ísafjarðardjúp, kemur oft á sunnudegi á endastöð sína. Það verður að losa bátinn. Bændur vinna við uppskipunina, og um leið og þeir fara heimleiðis, taka þeir vörur í kaupfjelaginu á hesta sína. Eftir frv. mega þeir ferma og afferma og flytja vöruna í hús, því að þarna er engin bryggja.

En þeir mega ekki taka út upp á hesta sína. Raskar þá þetta meir helgi hvíldardagsins en alt hitt? Hv. flm. þessa frv. hafa hver sinn tilgang með frv. Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) lýsti yfir því, að fyrir sjer vekti bara það að tryggja meiri hvíld á sunnudögum fyrir þá, sem stunda líkamleg störf. Það get jeg vel skilið. En hann sagði, að það væri gerður beinlínis leikur til þess að vinna á hvíldardögum hjer í Reykjavík. Þetta þykir mjer undarlegt, því að það er vitanlegt, að borga verður þrefalt kaup fyrir vinnu á helgum dögum, svo að það hlýtur að vera af mjög brýnum ástæðum, ef þá er unnið. Jeg viðurkenni það, að það sje mjög leiðinlegt að sjá menn við vinnu um það leyti, er menn alment eru við guðsþjónustu. En jeg held, að hjá því verði betur komist á annan hátt en þann að samþykkja þessi lög. Jeg held, að hjá því verði auk heldur því aðeins komist, að verkamenn og vinnuveitendur komi sjer saman um að draga úr vinnu á helgidögum, eftir því sem unt er. Jeg veit, að þessi löggjöf er víða brotin — t. d. á Ísafirði eins og víðar — ekki síst við breiðslu og samantekt á fiski. En það hagar nú líka þannig til þar, eins og víðar á Vestfjörðum, og Austfjörðum líka, að það þýðir ekki að fást við slíkt nema vissa hluta úr deginum, þegar líða fer á sumar. Í öðru lagi er það alveg óhugsanlegt að framfylgja því, að ekki megi losa skip, t. d. mótorbát, er koma í smáþorp og vilja ekki og geta ekki beðið heilan dag eftir því að losa fáein skippund af fiski. Þessu er hægra að fylgja fram í stærri bæjum, enda er þetta ekki gert nema nauðsyn beri til, sem ræður af líkum, þar sem vinna er svo miklu dýrari á helgum dögum en rúmhelgum.

En eins og jeg gat um áðan, þá er besta ráðið til þess að koma þessu máli á rjettan rekspöl, að verkamenn og vinnuveitendur komi sjer saman um að takmarka þessa helgidagavinnu smátt og smátt.