28.04.1926
Neðri deild: 64. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1810 í B-deild Alþingistíðinda. (1537)

29. mál, almannafriður á helgidögum

Frsm. minni hl. (Árni Jónsson):

Það vill svo til, að það er ekki sjerlega margt í ræðum hv. andmælenda minna, er jeg finn mig knúðan til að svara. Hæstv. forseti (PO) talaði úr þingmannssæti sínu og sagðist ekki hafa tekið málið af dagskrá af því, að engar ástæður hefðu verið færðar fram. Það er rjett, að jeg færði ekki fram ástæður fyrir þessari ósk, en eftir þeim var heldur ekki spurt, og því gafst ekki ástæða til þess að bera þær fram. Jeg verð því að skoða þetta sem óbilgirni frá hans hálfu. Háttv. þm. Borgf. (PO) talaði hjer sem sá sanntrúaði maður og útmálaði átakanlega þá truflun og usla, sem bílarnir hjerna gera í trúarhrifningu fólksins með sínum ósöngvnu hljóðum, er þeir skrölta framhjá kirkjunum á helgum dögum. Þetta er í fyrsta sinn, sem jeg verð þess var, að þessi hv. þm. sje auk heldur í meira lagi taugaveiklaður, því hjer gengur hann mun lengra en þeir veikluðu menn, sem byggja þennan höfuðstað. Jeg hefi ekki heyrt fyr neina rödd í þá átt, að stöðva beri umferð bíla af því að óhljóð þeirra smjúgi gegnum merg og bein kirkjugangaranna. Háttv. þm. sagði, að þetta væri hneykslunarhella allra sanntrúaðra manna. Það er nú svo um marga sanntrúaða menn, að það þarf ekki mikið til þess að valda hneykslun meðal þeirra, ekki síst ef annarsvegar er eitthvað nýtt. Og þótt bílar sjeu nú hættir að vera beinlínis nýjung í þessum bæ, þá held jeg víst, að til sjeu enn ýmsir frómir menn, sem eru hálfhneykslaðir af þessum „nýju“ vjelabrögðum djöfulsins. Vagnar eru nú, eins og kunnugt er, alveg að detta úr sögunni, og mönnum hefir gefist tóm í nokkur hundruð ár að átta sig á þeirri tegund farartækja. En hjer um daginn heyrði jeg, að kona ein hjer í bænum hefði lagt svo fyrir á dánardægri sínu, að hún skyldi ekki við jarðarför sína verða hafin upp í neinn nýmóðins líkvagn, heldur borin til grafar, og jafnframt skipaði hún svo fyrir, að þeir menn, er kistuna bæru, skyldu vera á verptum leðurskóm og með sokkana utan yfir buxunum. Það eru nú ekki allar sannkristnar sálir svona grandvarar. En það leynir sjer þó ekki, í hvaða fjelagsskap hv. þm. Borgf. skipar sjer. Væri hægt að drífa upp asna á Akranesi, mundi hv. þm. koma ríðandi á einum til kirkju sinnar, að dæmi hinna fornu spámanna, til hæfilegrar „demonstrationar“ gegn óvenjum og bílaöskri þessarar siðumspiltu aldar.

Hv. þm. Borgf. (PO) talaði fyrir hönd trúmannanna, og fyrir honum vakti ekki hvíldardagur, heldur helgidagur. En hv. 2. og 3. þm. Reykv. (JBald og JakM) eru nokkru verslegri í sínum hjörtum, svo sem fram kom í ræðum þeirra. Það var aðalatriði fyrir þeim, að haldinn yrði hvíldardagur alment, og er það auðvitað gott og sjálfsagt að hvíla sig við og við. En hinsvegar þykir mönnum líka gott að vinna á sunnudögum, vegna þess að þá er borgað svo miklu hærra kaup en aðra daga, og jeg trúi því, að háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) hugsi vel um sinn lýð og vilji stuðla að því, að hann hafi sem mesta og besta vinnu. Þessum hv. þm. þótti leitt, að hæstv. forsrh. (JM) var ekki viðstaddur, er jeg talaði hjer áðan, þar sem jeg hefði borið það fram, að helgidagalöggjöfin væri svo oft og herfilega brotin. Það er rjett, að jeg sagði, að þessi löggjöf væri brotin, en ekki að jeg segði: herfilega brotin, vegna þess, að jeg tel þessi brot þess eðlis, að hjá þeim verði ekki komist. En þau brot, sem skapast af nauðsyn, eru aldrei herfileg. Það geta því ekki talist þungar sakir, sem bornar sjeu á lögreglustjóra þessa lands, þótt sagt sje, að þeir framfylgi ekki stranglega þessum lögum. Jeg býst við, að þeir taki í taumana, þegar sjerstök ástæða gefst.

Þeir sögðu háðir, háttv. 2. og 3. þm. Reykv., að þetta frv. gengi heldur skemra en gömlu lögin. Jeg vil vísa hv. þm. í greinargerð frv. og frv. sjálft. Ef þeir lesa hana og frv., þá hljóta þeir að sannfærast um það, að þetta er ekki rjett. Hjer

„Aðalbreytingarnar í frv. þessu frá núgildandi lögum um þetta efni eru í því stendur, með leyfi hæstv. forseta: fólgnar að takmarka heimild þá, sem nú er til þess að ferma og afferma skip á helgidögum þjóðkirkjunnar.“

Þetta ákvæði virðist ekki vera til þess að slaka á núgildandi lögum, heldur til þess að herða á þeim. Og einmitt háttv. flm. (JakM og JBald) telja þetta aðalbreytinguna. Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að það hefðu verið lögin frá 1897 um ferming og afferming skipa, sem gert hefðu mestan glundroða í þessa löggjöf. Það má vera, að svo horfi við frá hans sjónarmiði. En því er nú svo háttað um okkar samgöngur, að það verður að nota hvert tækifæri til þess að greiða fyrir þeim heldur en hitt. Úthaldið á landssjóðsskipunum gefur ekki svo góðan árangur, að fært sje að setja ákvæði, sem geti gert það að verkum, að skipin tefjist til drátta á ferðum sínum.

Jeg fæ ekki að svo komnu sjeð, að nokkuð það hafi fram komið í andmælum hv. þm.; sem hafi getað gefið mjer átyllu til þess að breyta um skoðun. Jeg lít svo á, að núgildandi lög um þetta efni sjeu a. m. k. nógu ströng og ekki þörf á að breyta þeim.