28.04.1926
Neðri deild: 64. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1815 í B-deild Alþingistíðinda. (1540)

29. mál, almannafriður á helgidögum

Sigurjón Jónsson:

Jeg vil geta þess viðvíkjandi frv. þessu, að jeg tel ýms ákvæði þess um vinnu og vinnubann á helgum dögum ekki eiga alstaðar jafnvel við, þótt þau kunni að vera góð hjer í Reykjavík. Jeg vil benda á það, að bæði á Austfjörðum og Vestfjörðum, þar sem sólargangur er heldur stuttur, þá þýðir ekki t. d. að byrja að breiða fisk fyr en kl. 9 eða jafnvel seinna, og þá er, a. m. k. seinni part sumars, svo framarlega sem ráðist er í að breiða fiskinn, breiðslunni ekki lokið fyr en kl. 12. Jeg þekki þetta vel, því að jeg hefi haft með þessa verkstjórn að gera um mörg ár. Hinu get jeg lýst yfir, að jeg þekki engin dæmi þess, að unnið sje yfir messutímann, ef kirkja er á staðnum, og enda hvort sem er, því að messutímanum er svo hagað, að ekki er messað fyr en kl. 1, ef vinna þarf á staðnum, enda er öll vinna látin falla niður á meðan á messutímanum stendur. Jeg held því, að þótt þessi brtt. verði samþykt, þá sje það ekki einhlítt, ef allir staðir á landinu eiga að vera eins settir um að nota sjer sunnudaginn til nauðsynlegrar vinnu, eins og fiskverkunar í kaupstöðum og heyþurkunar í sveitum. Þá væri gott að fá skýringu á því hjá hv. flm. frv., hvernig á að vera með skip, sem flytja póst, farþega og vörur. Hvernig á t. d. að vera með strandferðaskipið Esju? Heyrir hún þar undir? Hún flytur oft vörur, en stundum minna af farþegum. Jeg hygg, að það þyki alloft nauðsynlegt að afgreiða hana, þótt á helgum degi sje, til þess að hún geti haldið áætlun.