28.04.1926
Neðri deild: 64. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1816 í B-deild Alþingistíðinda. (1541)

29. mál, almannafriður á helgidögum

Frsm. meiri hl. (Pjetur Þórðarson):

Það hefir þegar verið svarað flestu af því, sem sagt hefir verið á móti frv. og brtt. nefndarinnar, svo að jeg ætla ekki að ræða það frekar. Jeg vildi aðeins leiðrjetta það, sem hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) sagði, að það er lagt til í brtt. nefndarinnar, að kaflinn um fiskbreiðslu í 1. gr. falli alveg niður og að öll slík vinna falli undir niðurlag þeirrar greinar, sem er skýrt ákveðið, eins og mörg önnur ákvæði frv. Þau eru að sumu leyti, ef til vill, heldur væg, eða að minsta kosti verður ekki sagt, að þau sjeu of hörð, eins og t. d., að það sje heimilt að vinna þau verk, sem ekki má fresta, eða þegar svo á stendur, að það verður að almennings áliti ekki hægt að fresta þeim. Jeg ætla ekki að fara að taka neitt upp af því, sem mótmælt hefir verið í ræðu hv. þm. N.-Ísf., því að mjer fanst ræða hans bera vott um það, að hann hefði ekki til hlítar skilið ákvæði frv., því að það er hvergi beinum orðum bannað að afgreiða skip, en það eru minni hömlur lagðar á það að afgreiða skip, þar sem þau geta ekki legið við bryggju. Jeg held, að það sje að mestu leyti rjett, sem hæstv. forsrh. (JM) sagði, að ef nokkuð má að þessu frv. finna, sjerstaklega þegar það er borið saman við þau lög, sem nú gilda, þá sje það helst það, að ákvæði frv. sjeu heldur væg. En jeg vil sjerstaklega leggja áherslu á það, að ákvæði frv. verða mjög í samræmi, ef allar brtt. nefndarinnar verða samþyktar. Svo vil jeg ljúka máli mínu með því að segja það, að menn þurfa ekki að óttast það, að lög sem þessi, að brtt. nefndarinnar samþyktum, verði neinn sjerlegur ásteytingarsteinn fyrir þjóðina.