17.04.1926
Neðri deild: 56. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1851 í B-deild Alþingistíðinda. (1563)

96. mál, sérleyfi til virkjunar Dynjandisár

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg stend upp aðeins til að svara hv. þm. Str. (TrÞ) nokkrum orðum. Hann snýr þessu máli þannig, að það sje sprottið af vináttu við útlendinga, að við getum litið rjettum augum á mál eins og þetta. En þetta er misskilningur. Það er af því, að jeg álít það Íslandi fyrir bestu. Það er alveg ósæmilegt að gefa slíkt í skyn, að ýmsir hjer á Alþingi vilji frekar vinna fyrir útlendinga en Íslendinga. (TrÞ: Jeg hefi ekki gefið það í skyn). Hv. þm. var að tala um þessa menn, sem væru svo vinveittir útlendingum, og þá menn, sem hefðu viljað, þegar Íslandsbanki var á ferðinni, hlynna að útlendingum til þess að koma bankanum á fót. Bankinn var settur á stofn ekki fyrir útlendinga, heldur fyrir Íslendinga. Og því verður ekki neitað, að hann hefir gert Íslandi eins mikið gagn og álitið var í upphafi að hann myndi gera. En útlendingar, sem unnu að þessu, hafa borið lítið úr býtum; því að þeir vextir, sem bankinn hefir gefið hingað til, eru ekki hærri en hægt er að hafa af fje í svo að segja hvaða stofnun sem er.