23.04.1926
Neðri deild: 60. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1854 í B-deild Alþingistíðinda. (1567)

96. mál, sérleyfi til virkjunar Dynjandisár

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Fjhn. hefir nú við framhald umr. flutt þær brtt., sem boðaðar voru við fyrri hl. umr., og skal jeg gera hjer nokkra grein fyrir þeim.

Það er þá fyrst brtt. II.a, við 5. gr., sem er þess efnis, að í stað orðanna „öðrum gjöldum“ komi „öðrum samskonar gjöldum.“ Er þetta leiðrjetting, til þess að koma í veg fyrir misskilning. Er þetta ákvæði til þess, að fjelagið fái tryggingu fyrir því, að ekki verði lögð á það samskonar gjöld undir öðrum nöfnum. Ef þessi skilningur er lagður í greinina, er fjelagið trygt fyrir því, að sjerstök gjöld verði á það lögð í fjandsamlegum tilgangi, en auðvitað er það eftir sem áður háð sömu toll- og skattalöggjöf og önnur atvinnufyrirtæki, nema hvað það er undanþegið tekjuskatti og útsvari.

Þá er næsta brtt., II.b. Er hún aðeins til þess að fyrirbyggja misskilning. Það er rjettur skilningur, að hver hestorka verður skattskyld jafnskjótt og hún er nýtt.

Þá er brtt. V. á þskj. 403, og er það síðasta brtt. nefndarinnar. Er hún um það að takmarka heimildarlögin við árslok 1928. Það mun venja, og hlýtur líka að vera svo, að slík lög standi ekki endalaust, heldur falli úr gildi, ef þau eru ekki notuð.

Auk þessara till. flyt jeg og hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) till. um hámarksverð á raforku til almennings, 50 kr. á árshestorku. Er mikið unnið við það, og hygg jeg, að fjelagið muni ekki amast við því. Mun þessi upphæð fara nærri útreikningum fjelagsins á framleiðsluverði. En ef framleiðsluverð árshestorkunnar verður lægra, nýtur almenningur þess samkvæmt sjerleyfislögunum. En verði kostnaðurinn meiri og fari fram úr áætlun, felst hjer í trygging fyrir almenning, sem er og ekki ósanngjörn, þar sem fjelagið fær í nokkrum greinum undanþágu frá sjerleyfislögunum.

Mjer láðist áðan að geta um eina brtt. nefndarinnar, á þskj. 403,II.c. Hún er um það, hvernig árgjaldinu af hestorku skuli skift milli ríkissjóðs og sveitarsjóð. Þykir rjett, að ríkissjóður fái 2/3, en sveitarsjóðir 1/3 hluta. Er ekki fjarri, að þetta hlutfall sje rjett, þegar teknar eru allar tekjur sveitarfjelaganna samanlagðar annarsvegar, en hinsvegar tekjur ríkissjóðs. En hvernig gjöldunum skal skift milli hinna einstöku sveitarfjelaga, þar sem fyrirtækið verður skattskylt, sjer nefndin ekki annan mælikvarða heppilegri en fólksfjöldann.

Um aðrar brtt., sem fram hafa komið skal jeg ekki ræða fyr en flm. hefir gert grein fyrir þeim.