24.04.1926
Neðri deild: 61. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1859 í B-deild Alþingistíðinda. (1570)

96. mál, sérleyfi til virkjunar Dynjandisár

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Þegar hv. l. þm. S.-M. (SvÓ) nú hefir rökstutt brtt. sínar á þskj. 403, skal jeg stuttlega skýra frá afstöðu fjhn. til þeirra.

1. brtt. er um að ekki megi framselja sjerleyfi þetta í hendur útlendingum, nema samþykki Alþingis komi til. Nefndin getur ekki fallist á þessa brtt. og ræður frá, að hún verði samþykt. Það er ekki ólíklegt, að stofna verði nýtt fjelag, ef fje fæst til þeirra framkvæmda, sem ráðgerðar eru. Nefndin telur nægilegt, að atvinnumálaráðherra veiti leyfi til þessa framsals, sem í rauninni er aðeins formsatriði. Þetta ætti að koma í sama stað niður, þar sem ráðherrar ávalt verða að hafa stuðning meiri hluta Alþingis.

2. brtt. er um að færa sjerleyfistímann niður í 50 ár. Nefndin hefir þegar skýrt frá því áður, að hún hefir farið eins langt í þessu efni og hún telur fært. Leyfisbeiðendur vildu fá sjerleyfið til 99 ára, og nefndin færði það niður í 60 ár og sjer ekki ástæðu til að fara lengra.

3. brtt. er svipuð tillögu nefndarinnar. Háttv. þm. (SvÓ) var harðorður um þessa (5.) grein frv. eins og hún nú er orðuð, en hann hefir sýnilega ekki athugað a.-lið brtt. nefndarinnar, að í stað „öðrum gjöldum“ komi „öðrum samskonar gjöldum“ . Að öðru leyti get jeg verið hv. þm. (SvÓ) sammála, og þá einnig hinum hörðu ummælum hans um þá, sem eru að sækja um sjerleyfi til hins eða þessa, sem svo ekki verður neitt úr, er þau eru fengin, en heimta allskonar hlunnindi, eins og við blökkumannaríki væri að eiga. Tillaga fjhn. miðar að því, að fjelagið sje ekki undanþegið öðrum en hinum beinu sköttum, útsvari og tekjuskatti, en um alla aðra skatta og gjöld verði fjelagið að hlíta landslögum. Um útflutningsgjaldið er það að vísu ákveðið, að það megi ekki hækka á fjelaginu upp úr því, sem það er nú, enda eru engar líkur til, að það muni hækka úr því, sem það nú er, en lækki útflutningsgjöldin, nýtur þetta fjelag þess jafnt og aðrir.

Um næstu brtt. er það að segja, að nefndin heldur fast við það árgjald, sem hún telur hæfilegt, og sjer ekki ástæðu til að lækka það, þar sem fjelagið á bæði að vera undanþegið tekjuskatti til ríkissjóðs og útsvari til sveitar, og er árgjaldið því ekki of hátt sett. Jeg vil mælast til þess við háttv. þm., að hann taki aftur til 3. umr. brtt. I,3. til þess að rugla ekki atkvæðagreiðsluna, sem mundi verða skýrari, ef þessi brtt. yrði ekki borin upp líka, enda getur hún komist að við 3. umr., ef hv. þm. verður ekki ánægður með úrslitin.

Viðvíkjandi öðrum brtt. háttv. þm. vil jeg taka það fram, að nefndin getur ekki fallist á neinar þeirra, sjerstaklega ekki á brtt. 4,c, um að fjelagið skuli afhenda ríkisstjórninni 100 þús. kr. að veði. Nefndin telur, að að vísu sje ekkert að athuga við slík ákvæði gagnvart nýjum fjelögum, sem í engu hafa sýnt, að þeim sje alvara að ráðast í framkvæmdir; þessu er alls ekki svo varið, að dómi fjhn., um það fjelag, sem hjer á í hlut. Það hefir þegar lagt í allmikinn kostnað og er búið að eyða um 700 þús. kr. til undirbúnings þessa máls; þetta telur nefndin, að ætti að vera ríkissjóði næg trygging fyrir því, að fjelaginu sje alvara. Hinsvegar eru ennþá óframkvæmdar fyrirhugaðar rannsóknir um námurekstur og iðnað í sambandi við námurnar, og þó svo færi, að sú rannsókn sýndi, að ekki borgaði sig að hefja þennan námugröft eða þann iðnað, sem fyrirhugaður er, telur nefndin fullhart að gengið að heimta skaðabætur af fjelaginu, sem þegar hefir kostað svo miklu til þessara rannsókna, enda þótt þær bæru neikvæðan árangur. Þess vegna leggur nefndin á móti því, að þessi brtt. verði samþykt.