24.04.1926
Neðri deild: 61. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1864 í B-deild Alþingistíðinda. (1572)

96. mál, sérleyfi til virkjunar Dynjandisár

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Um hin smærri atriði þarf jeg ekki að eyða mörgum orðum. Nefndin þarf ekki að skýra það frekar, að ekki er vert að hafa sjerleyfistímann styttri en 60 ár, þó að það þekkist annarsstaðar, þar sem slíkur rekstur er algengur, að hann sje 40 ár. Að hætt sje við, að lendi í braski, þarf ekki að gera ráð fyrir, því að leyfi ráðherra til framsalsins ætti að vera nægileg trygging fyrir slíku. En um önnur aðalatriði 5. greinar, og svo hina nýju grein, skal jeg bæta við nokkrum orðum.

Háttv. l. þm. S.-M. (SvÓ) sagði um 1. brtt. sína, við 5. gr., að það væri augljóst. hvað í milli bæri honum og nefndinni. Samt var honum það ekki ljóst, því að nefndin heldur því sama fram og hann um það, hvaða gjöldum fjelagið eigi að vera undanþegið. Nefndin heldur fram, að það sje ekki nema tekju- og eignarskattur og útsvar, sem fjelagið sje undanþegið, auk þess sem hún vill takmarka útflutningsgjaldið. Annað er það ekki. Samkvæmt tillögum nefndarinnar á þetta fyrirtæki að búa við sömu kjör og allir aðrir atvinnuvegir landsins, nema hvað snertir hámark útflutningsgjaldsins. (SvÓ: Það munar eignarskatti). Jeg get ekki lagt þá áherslu á hann, að hann verði neitt höfuðatriði hjer. Það er því ekki svo mikið, sem í milli ber. Jeg vil halda fast við ósk mína um, að háttv. þm. (SvÓ) taki þessa till. sína aftur til 3. umr., ekki síst vegna þess, að í henni eru 2 atriði, sem heppilegast væri að greiða atkvæði um hvort í sínu lagi. Í fyrsta lagi, hvaða gjöldum sjerleyfishafi skuli vera undanþeginn, og í öðru lagi upphæð árgjalda.

Um hitt aðalatriðið í tillögum hv. þm. (SvÓ), að fjelagið verði að leggja fram 100 þús. kr. tryggingu um leið og sjerleyfi er út gefið, vil jeg taka það fram, að það er rjett hjá hv. flm. (SvÓ), að þó að fjelagið sje búið að eyða meir en ½ milj. kr. til rannsókna, er engin trygging fyrir því, að nokkuð verði úr framkvæmdum. En þó að 100 þús. kr. bætist við, er engin trygging fyrir því heldur. Nefndin hefir ekki leynt því, heldur sagt frá því, að ekki sje trygging fyrir því, að úr framkvæmdum verði. Hjer er um von að ræða, sem fylgismenn frv. vilja gera alt, sem í þeirra valdi stendur, til þess að rætist. Það frv., sem hjer er flutt, er flutt til þess að varðveita þennan möguleika, en nefndin hefir ekki flutt neinar tillögur, sem gætu skapað tryggingu fyrir því, að alt verði framkvæmt eins og áætlað er, því að það telur hún ekki hægt að gera, enda hefir hv. 1 þm. S.-M. ekki gert það heldur. Ætla jeg svo ekki að hafa þessi orð fleiri.