27.04.1926
Neðri deild: 63. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1867 í B-deild Alþingistíðinda. (1575)

96. mál, sérleyfi til virkjunar Dynjandisár

Sveinn Ólafsson:

Jeg hefi leyft mjer að bera fram brtt. á þskj. 436 við þessa 3. umr., fyrir þá skuld, að jeg vil ekki trúa því að svo komnu, að Alþingi vilji ekki setja nein öryggisákvæði í lög um slíkar framkvæmdir sem þessar, til tryggingar því, að staðið verði við samninga. Jeg hefi fært upphæðina niður um helming frá þeirri till., er áður lá hjer fyrir háttv. deild um sama efni, eða úr 100 þús. kr. í 50 þús. kr. Aðalatriðið í brtt. — og það, sem jeg legg mikla áherslu á — er ákvörðunin um það, að sjerleyfishafi „deponeri“ hjá ríkisstjórninni þetta fje meðan stendur á framkvæmd virkjunar og undirbúningi.

Jafnframt geri jeg að vísu ráð fyrir því, að 3. gr. frv. falli niður. Hún er að minni hyggju óþörf. Ef hún ekki stendur í frv., fer um framsalið eftir sjerleyfislögunum, og leggur þá Alþingi á sínum tíma samþykki sitt á það, ef til kemur. Þetta er þá líka einskonar öryggisákvörðun, sem hvorki er þungbær nje hættuleg fyrir umsækjendur, ef alt fer með feldu. Enda getur mjer ekki skilist, að ástæða sje til fyrir Alþingi að búa ótryggilegar um þetta en gildandi lög mæla fyrir.

Þetta laut sjerstaklega að 1. brtt. minni á þskj. 436. 2. brtt. er aðeins orðabreyting, sem nauðsynleg er vegna 3. og síðustu brtt. Hún er við niðurlag 7. gr., og hv. þdm. munu sjá, að sú grein getur illa staðist óbreytt, ef 3. brtt., um tryggingarfjeð, verður samþykt.

Jeg hjó eftir því við 2. umr., að háttv. frsm. var eitthvað óánægður með það, hve harkalega jeg hefði komist að orði um fjelagjð og starfsemi þess. Jeg skal því ekki angra hann nje aðra með því að tala frekar um það. Hinsvegar vil jeg þó skjóta því fram, að upplýsingar, sem jeg hefi aflað mjer um fyrirtæki þetta og fjelagsskap, hafa ekki orðið til þess að auka traust mitt á fjelaginu, nje heldur gefið mjer vonir um, að afgreiðsla málsins í þessari mynd færði sjerstaklega ánægjulegan eða glæsilegan árangur, ef eitthvað skyldi út af bera eða illa takast til í fyrstu. Mjer finst málið þann veg undirbúið, að ógiftusamlega sje til þess stofnað.

Vona jeg því, að brtt. mínar fái góðan byr, eigi frv. að sigla út úr þessari háttv. deild.