27.04.1926
Neðri deild: 63. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1872 í B-deild Alþingistíðinda. (1579)

96. mál, sérleyfi til virkjunar Dynjandisár

Jón Baldvinsson:

Það er rjett hjá hæstv. atvrh., að deila má um það, hverjir sjeu almennir verkamenn. En vitanlega þarf á þeim mönnum að halda, sem hafa sjerþekkingu í þessum málum.

Mjer finst óþarft fyrir hæstv. atvrh. að vera að segja, að komið geti til mála, að sett skuli skilyrði fyrir því, að notað verði aðeins íslenskt verkafólk, því að það á að vera alveg sjálfsagt. Jeg ímynda mjer, að mönnum fyrir vestan kæmi það vel, að geta fengið þarna vinnu tíma og tíma, en þætti það hinsvegar hart, ef flytja ætti inn ódýrara verkafólk, t. d. Pólverja, og taka þannig vinnuna frá landsmönnum. En síðustu 5–6 árin, að undanskildu þó 1924, hefir ekki verið svo mikið um atvinnu hjer, að verkafólk hafi ekki orðið að sitja margan daginn auðum höndum. Ekki eru nú heldur ástæðurnar svo, því miður, að búast megi við því, að mikið verði um vinnu. Þess vegna ætti fjelaginu að bera skylda til að nota aðeins íslenskt verkafólk, ef nokkuð verður þá úr framkvæmdum. En það á nú eftir að sýna sig.