12.05.1926
Neðri deild: 77. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1882 í B-deild Alþingistíðinda. (1596)

96. mál, sérleyfi til virkjunar Dynjandisár

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg greiddi atkv. á móti samskonar till. og þessari, þegar málið var hjer áður til umr., svo það lætur að líkindum, að jeg geti ekki verið með þessari brtt. hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ). Jeg lít svo á, að þeir menn, sem á annað borð vilja fá svona framkvæmdir, geti naumast farið fram á tryggingu eins og þessa, því að það gæti orðið fjelaginu illur þröskuldur á veginum til fjáröflunar, ef Alþingi hefði ekki meiri trú á fyrirtækinu en svo, að það teldi sig þurfa að leggja við sektir, ef ekki yrði úr framkvæmdum. Það eru víst nógir örðugleikar við að fást, þó að Alþingi búi ekki til slíkan þröskuld. Hv. þm. (SvÓ) virtist halda, að hjer væri um augnabliksuppþot að ræða. Jeg held, að flestum, sem hjer eru, sje kunnugt, að svo er ekki. Fjelagið er búið að leggja í kostnað til rannsókna og upplýsinga um 700 þús. krónur, svo að hjer er áreiðanlega ekki um augnabliksuppþot að ræða, og þó að það kunni að láta vel í eyrum einhverra að tala um útlenda fjepúka, sem seilist hjer eftir rjettindum, þá ætti okkur ekki að vera ofvaxið að setja þeim þau skilyrði, sem að haldi kæmu. Þó að þetta fjelag beri eitthvað úr býtum, öfunda jeg það ekkert af því, ef við njótum líka einhvers hagnaðar. — Jeg tek í sama streng og hv. frsm. (ÁÁ) og óska, að brtt. verði feld svo frv. geti orðið að lögum.