14.04.1926
Neðri deild: 53. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1892 í B-deild Alþingistíðinda. (1610)

31. mál, happdrætti fyrir Ísland

Frsm. meiri hl. (Halldór Stefánsson):

Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) hefir nú lýst sinni skoðun á málinu og bent á nýja leið í því. Jeg verð að játa það, að mjer er ekki ljóst, að hverju leyti sú leið yrði hagkvæmari, og mjer skilst, að ef á að byggja á sölu innanlands eingöngu, þá muni tekjurnar verða svo litlar, að þær komi ekki verulega að því liði, sem hann ætlast til.

En hvað því viðvíkur, er hæstv. fjrh (JÞ) bar fram, þá eru það þessar gömlu ástæður, sem við höfum heyrt áður, og ekkert í endurbættri mynd. Mjer þótti það undarlegt, að hann skyldi halda því fram, að þetta væri nýr skattur. Því að sje þetta skattur, þá hefir hann verið til áður, þar sem hjer hefir verið óhindruð sala á útlendum happdrættismiðum og mikil viðskifti, en nú skilst mjer, að það innlenda eigi að bola því erlenda út, og þá er fjarstaða að tala hjer um nýjan skatt.

Menn vita það, að mikil viðskifti hafa verið við útlönd á þessu sviði, og eru enn. Og þó banna eigi opinbera sölu á útlendum seðlum, þá er ekki hægt að koma í veg fyrir viðskifti „prívat“ í gegnum póst. Þeir, sem hafa vanið sig á að skifta við happdrætti, munu halda því áfram í gegnum póst eftir sem áður, nema því aðeins, að þeir eigi kost á að skifta við innlent happdrætti.