14.04.1926
Neðri deild: 53. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1893 í B-deild Alþingistíðinda. (1611)

31. mál, happdrætti fyrir Ísland

Jörundur Brynjólfsson:

Við flutningsmenn frv. getum verið. hv. nefnd þakklátir fyrir undirtektir hennar. Þær breytingar, sem hún vill gera á frv., eru ekki þess eðlis, þótt samþyktar verði, að þær hafi nein áhrif á stefnu þess. Okkur er því sama, þótt þær nái fram að ganga.

Við höfðum hugsað okkur, að ágóðinn af sölu miðanna rynni í tvo sjóði, en meiri hl. nefndarinnar vill, að hann renni í ríkissjóð. Þetta má að vissu leyti á sama standa, því þegar ráðist er í framkvæmdir, verður leitað til hans. En við vildum gjarnan efla þessa tvo sjóði, svo að þeir gætu sem fyrst int hlutverk sitt af hendi, en ef mönnum þykir þeim sækjast seint, þá má náttúrlega leita til ríkissjóðs.

Annars er mál þetta svo þrautrætt, að jeg býst ekki við, að neitt nýtt komi fram í því.

Það, sem aðallega hvatti okkur til þess að bera þetta frv. fram nú, var, að landið hefði einhverjar tekjur af þeirri miklu happdrættisseðlasölu, sem hjer er. En þótt hagur ríkissjóðs hafi nokkuð batnað síðan frv. var fyrst borið fram 1924, þá má þó með sanni segja, að fjárhagurinn er ekki svo góður, að ríkissjóður megi ekki taka á móti nýjum tekjulindum.

Jeg skal ekkert fullyrða um það, hvort meira yrði keypt af happdrættisseðlum en nú er vegna þess að happdrættið yrði innlent, en jeg tel það hæpið, og það lasta jeg síst. Jeg hefi heyrt sagt, að það kveði mjög mikið að sölu á útlendum miðum í landinu. Það sagði mjer kunnugur maður í einu kauptúni vestanlands, að þar hefði sænska lotteríið haft 60 þús. kr. tekjur árið sem leið. Og jeg er viss um, að ef maður hefði skýrslur af öllu landinu, þá mundi koma í ljós, að þetta skifti árlega hundruðum þúsunda.

Um ástæður þær, sem hv. frsm. minni hl. (ÁÁ) sagði, þarf jeg ekki að tala langt mál. Þótt hagur ríkissjóðs hafi breyst síðan 1924, eins og jeg drap á áðan, þá finst mjer, að við getum með góðri samvisku tekið á móti þessum tekjuauka og að nóg verði við hann að gera.

Jeg held, að happdrætti með því fyrirkomulagi, er hann talaði um, geti aldrei haft áhrif á vexti í landinu, en fyrir mitt leyti teldi jeg ekki æskilegt, að svo færi, því að þá yrði þetta orðinn tilfinnanlegur skattur á landsmenn. En jeg hygg, að hv. þm. (ÁÁ) geri of mikið úr þessu. Þar, sem fólksfjöldi er mikill, gæti þetta ef til vill hepnast, en salan getur aldrei orðið svo mikil innanlands, að hagur af henni geti haft áhrif á vexti.

Þá andmælti og hæstv. fjrh. frv., en hv. frsm. meiri hl. (HStef) hefir svarað báðum að mestu leyti. En þar sem hæstv. fjrh. talaði um, að ekki væri vert, að löggjöfin stuðlaði að því, að brotin væru lög á öðrum þjóðum, þá er því til að svara, að verði sala á erlendum happdrættismiðum bönnuð hjer með lögum, mundi salan halda áfram eftir sem áður að einhverju leyti, og á þann hátt mundu aðrar þjóðir brjóta lög á okkur. Og værum við ekki einmitt hjer að verjast erlendri ásælni, þá hefðum við ekki þurft lög um þessi efni.

Hv. frsm. meiri hl. svaraði einnig því, sem sagt var um það, að þetta yrði skattur. Jeg býst ekki við því, að meira yrði keypt af innlendum seðlum en hinum útlendu nú — seðlarnir verða það dýrir — svo að hjer getur aldrei verið um aukinn skatt að ræða. Það hefði mátt kalla þetta nýjan skatt, ef engin happdrættismiðasala hefði átt sjer stað hjer á landi áður.