19.04.1926
Neðri deild: 57. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1898 í B-deild Alþingistíðinda. (1617)

31. mál, happdrætti fyrir Ísland

Jón Kjartansson:

Jeg á brtt. á þskj. 347. um það að önnur málsgr. annarar gr. falli niður, sem sagt orðin: „Um sama tímabil skal það og, að viðlögðum 200–2000 kr. sektum til ríkissjóðs, vera bannað að versla með eða selja á Íslandi hluti fyrir happdrætti utan ríkis eða hafa þar á hendi nokkur störf þar að lútandi.“

Jeg fæ ekki betur sjeð en að þessi málsgrein sje óþörf nú orðið, auk þess sem hún fer í bág við 2. gr. laga um happdrætti og hlutaveltur, er nú hafa verið afgreidd sem lög frá Alþingi, því að þar eru sektir ákveðnar við hinu sama broti 500–5000 kr. Jeg fæ ekki sjeð, hvaða vit getur verið í þessum tvenskonar ákvæðum. Hinsvegar er engin ástæða til að hafa ákvæði um þetta í frv., því að auðvitað verður um það farið eftir ákvæðum happdrættislaganna.