11.05.1926
Efri deild: 72. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1906 í B-deild Alþingistíðinda. (1628)

31. mál, happdrætti fyrir Ísland

Frsm. meiri hl. (Björn Kristjánsson):

Jeg ætla ekki að halda langa ræðu, þar sem nefndin hefir gefið út greinilegt nál., sem ætti að nægja til þess að sýna afstöðu hennar til þessa máls. Spurningin er, hvort menn vilja hallast að stofnun happdrættis. Það er tekið fram í nál., að lítil líkindi sjeu til, að það verði til að auka spilafíkn, enda eru nóg happdrætti hjer fyrir, þar sem allir atvinnuvegir landsins eru nokkurskonar happdrætti, einkum þó sjávarútvegurinn. Jeg geri ekki ráð fyrir, að menn geri mikið af því að kaupa hluti, nema þeir hafi ráð á því, enda er hægt að hafa það skipulag, að bláfátækir menn eigi ekki aðgang að því. Jeg geri ekki ráð fyrir, að það verði mikil sala hjer á landi, og það er sýnt og sjáanlegt, að það kæmu fleiri peningar inn í landið en þeir, sem fólk mundi eyða í þetta hjer. Ef hægt er að afla landssjóði tekna á þennan hátt fyrirhafnarlaust og ábyrgðarlaust, er það mikilsvert í okkar fátæka landi, þar sem flest verður að vera ógert, sem gera þarf. Leyfistíminn er 15 ár, en landssjóður leggur ekkert til nema heimildina, en fær þó minst 100 þús. kr. á ári meðan fjelagið starfar.

Viðvíkjandi aðalmanni þessa fyrirtækis, hæstarjettarmálaflutningsmanni Winter í Kaupmannahöfn, þá hefi jeg leitað mjer upplýsinga um hann og fengið þær ágætar. Upplýsingarnar hefir Jón Ásbjörnsson gefið, sem hefir haft viðskifti við hann. Hann segir, að svo vel sje valið í Danmörku til hæstarjettarmálaflutningsmanna, að ekki komist aðrir að en þeir, sem hafa bæði góða hæfileika og gott nafn, og ætti það eitt að vera nægileg trygging fyrir því, að hjer sje um ágætan mann að ræða.

Jeg sje það á áliti hv. minni hl. nefndarinnar, að hann er svartsýnn á þetta frv. Hann kemur með allskonar staðhæfingar út í loftið, eins og til dæmis það, að íslenskt happdrætti geti ekki boðið til sölu hluti sína nema með lagabroti, þar sem sett hafa verið lög, sem banna hjer á landi alla verslun með hluti í útlendum happdráttum og nágrannaþjóðirnar hafi sett hliðstæð lög. Þessu er slegið fram út í loftið án raka, enda kemur það í bága við allar upplýsingar, sem nefndinni hafa borist í þessu máli. Í nál. minni hlutans segir svo: „Auk þess mun Alþingi tæplega vilja styðja að aukinni spilafíkn landsmanna.“ Það er nú svo. Að ætla með löggjöf að vera forsjón annara manna í landinu held jeg að hafi litla þýðingu. Reynslan sýnir, að lög, sem stefna í þessa átt, eru mjög vanhaldin, svo sem bannlögin o. fl. Ennfremur er spurt seinna í áliti minni hlutans: „Telur íslenska þjóðin sjer sæmandi að afla ríkinu tekna með því að reka í öðrum löndum verslun, sem er svo óholl, að sjálfsagt hefir þótt að banna útlendum fjelögum að reka hjer á landi?“ Jeg veit ekki hversu óholl þessi verslun er. Jeg held, að það sje ekkert óhollara að kaupa seðla í hlutaveltu en að taka í nefið, drekka eða skoða skrípamyndir á bíó og eyða peningum til þess. Þó að þessi sala verði gefin frjáls, er það ekkert þjóðarböl, heldur þvert á móti styrkur fyrir bæði landbúnaðinn og aðra atvinnuvegi landsins. Þarfirnar eru svo margar og miklar, að það má ekki sleppa tækifæri til að afla landssjóði tekna, þjóðinni að kostnaðarlausu.

Jeg hefi þá ekki meira um þetta að segja. Jeg vil síður vekja langar umræður um þetta mál, en vildi aðeins skýra frá tildrögunum til þess, að meiri hluti nefndarinnar leggur til, að frv. verði samþykt óbreytt.