27.04.1926
Efri deild: 60. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 622 í B-deild Alþingistíðinda. (163)

1. mál, fjárlög 1927

Frsm. (Eggert Pálsson):

Þó að skylda mín sje að standa upp og mæla nokkur orð með þessu mikilvæga frumvarpi, þá gefur að skjlja, að jeg stend ekki upp til þess að halda nokkra sjerstaka fjármálaræðu, því að jeg tel mig ekki þann fjármálamann, þó að mjer hafi tekist að bjarga mínum eigin fjárhag sæmilega. Mun jeg því ekki fara að gera neitt fjármálayfirlit. Læt í því efni nægja að skírskota til yfirlits þess, sem hæstv. fjrh. (JÞ) gaf, þegar hann lagði frv. þetta fyrir neðri deild. Af yfirliti hæstv. ráðherra var fyllilega ljóst, að útkoma ársins 1925 var mjög glæsileg. En einmitt þegar svo er ástatt, er vandinn hvað mestur að búa til gætilega áætlun á næsta ári, því að þá vilja menn eðlilega byggja áætlanir sínar á útkomu síðastliðins árs, og einmitt þegar svo stendur á eins og nú, hættir mönnum við að verða of bjartsýnir, en slíkt er ætíð mjög varhugavert.

Eins og öllum mun kunnugt, hafa kringumstæðurnar breyst allmjög frá því í fyrra, og má því ekki vænta eins glæsilegrar afkomu af þessu ári eins og því síðastliðna. Þess vegna er tekið fram í nál., að nefndin líti svo á, að tekjuáætlanirnar í frv. þessu verði frekar að telja óvarlegar en varlegar, sjerstaklega af því, að hv. Nd. hefir hækkað suma tekjuliðina að miklum mun. Að vísu er henni þetta vorkunnarmál, þar sem hún byggir töluvert á afkomu ársins 1925, en það er, eins og jeg sagði, varhugavert að festa um of augun á slíku, því að það skaðar minna, þó að tekjuáætlanirnar reynist frekar of lágar en of háar.

Af einstökum tekjuliðum, sem Nd. hefir hækkað frá því, sem stjórnin setti þá, má fyrst nefna útflutningsgjaldið. Það hefir nefndin hækkað um 50 þús., svo nú er það áætlað 1 milj. kr. Í fjárlögunum fyrir 1926 er það áætlað 800 þús. En landsreikningurinn fyrir 1924 sýnir, að það er 969 þús. Nær þannig ekki þeirri upphæð þá, sem það er áætlað nú.

Áfengistollinn hefir Nd. sömuleiðis hækkað um 50 þús. frá því, sem stjórnin setti hann, svo nú er hann, 650 þús. kr. Í fjárlögunum fyrir 1926 er hann áætlaður 530 þús. Og landsreikningurinn fyrir 1924 sýnir, að hann hefir þá ekki orðið nema 600 þús. Er því hjer um töluverða hækkun að ræða.

Þá er annað aðflutningsgjald hækkað um 35 þús., svo nú er það áætlað 150 þús. hr. Í fjárlögunum fyrir 1926 er það áætlað 115 þús. Og landsreikningurinn fyrir 1924 sýnir, að það hefir orðið þá 86 þús.

Þá kemur enn allveruleg hækkun á 21. lið 2. gr., víneinkasölunni. Tekjurnar af henni eru hækkaðar um 125 þús. svo nú eru þær áætlaðar 500 þús. kr. Í fjárlögunum fyrir 1926 eru tekjurnar af henni áætlaðar 375 þús., en landsreikningurinn fyrir 1924 sýnir, að þær hafa orðið 454 þús. Er því hjer um allverulega hækkun að ræða.

Það er ekki nema eðlilegt, að jafnt þessi liður sem aðrir hækki á slíku ári sem 1925, því að geta manna til þess að kaupa ónauðsynlegar vörur vex vitanlega jafnt og kaupgetan til að kaupa hinar nauðsynlegu. En hjer her þess að gæta, að vonandi er, að bindindisstarfseminni vaxi svo fiskur um hrygg, að þessi kaup fari minkandi, jafnframt því, sem kaupgetan minkar líka alment.

Þetta sem jeg nú hefi drepið á, er það, sem meðal annars vakir fyrir nefndinni, þar sem hún kemst svo að orði, að hún telji tekjuáætlunina frekar óvarlega en varlega. En eigi að síður sjer nefndin ekki til neins að leggja til, að tekjuáætlunin verði lækkuð af því að hún telur vafasamt, að neðri deild myndi ganga inn á það. Er tekjuáætlunin því látin halda sjer eins og Nd. gekk frá henni, og hefir fjvn. því unnið að frumvarpinu á þeim grundvelli.

Eins og sjá má á frv., var tekjuhallinn á því þegar það kom frá Nd. um 198 þús. kr., og þótti nefndinni það ærið hár tekjuhalli, þegar líka þess er gætt, að heil deild á eftir að hafa frv. til meðferðar, og verður því ekki hjá því komist að bæta á það ýmsum útgjaldaliðum, með því líka reynslan er sú, að fjvn. neðri deildar hefir frekar óskir meðdeildarmanna sinna fyrir augum en óskir þeirra, sem sæti eiga í efri deild.

Nefndin gat því ekki komist hjá að gera nokkrar hækkunartillögur, og nema þær alls fullum 66 þús. kr. En aftur á móti lækkaði hún ýmsa liði, sem settir voru inn í neðri deild, og var henni það fyllilega ljóst, að slík lækkun yrði ekki vel þokkuð hjá þeim, sem urðu fyrir barðinu á henni. Verður því hjer sem fyr að ekki er gott að gera öllum til geðs.

Útkoman hjá nefndinni varð því sú, eins og nefndarálitið sýnir, að tekjuhallinn eykst aðeins um rúmar 12 þús. kr., og eru þó þar af 10 þús., sem aðeins er leiðrjetting á reikningsskekkju, sem bæði fjvn. Nd. og deildinni sjálfri hefir sjest yfir.

Hvað snertir vinnu nefndarinnar, þá verður hún að teljast alveg forsvaranlega af hendi leyst. Eins og hv. deildarmenn rekur minni til, þá var fjárlagafrv. lagt fyrir þessa hv. deild 17. apríl og vísað til fjvn. Hefir hún skilað af sjer störfum þann 24. apríl. og haft þannig viku fyrir sjer, sem ekki getur talist mikið. Jafnframt tel jeg sjálfsagt að geta þess, að nefndin hefir ekki eingöngu starfað meðan hún hafði fjárlagafrv. til meðferðar heldur brúkað miklu meiri tíma, lesið öll skjöl, sem snerta frv., á undanförnum tímum. Alls hefir nefndin haldið 38 fundi. Hinsvegar er það ljóst, að vinnan verður ekki eins þægileg með þeirri aðferð, sem verður að hafa, þar sem nefndin fær skjölin á strjálingi, eftir því sem Nd.nefndin þykist mega missa, sem er vitanlega mikið verra og óþægilegra en að fá þau greiðlega og eftir beinni röð.

Þá býst jeg við, að jeg verði að víkja að brtt., sem nefndin hefir komið fram með og eru á þskj. 402. Það er venjan, enda þótt í nál. á þskj. 411 sje gerð sem fullkomnust grein fyrir þeim, til þess að hv. deildarmenn geti frekar áttað sig á afstöðu nefndarinnar til þeirra breytinga, sem einhverju varða.

Fyrsta brtt. nefndarinnar er þannig, að jeg þarf engum orðum um hana að fara. Hún er aðeins leiðrjetting á reikningsskekkju, sem hefir haldið sjer í gegnum hv. Nd.

Önnur brtt. er við 11. gr. A. 8 og er aðeins orðabreyting, eða lítið annað. Má segja, að í henni felist, að landhelgissjóður leggi fram alt að 125 þús. kr., og verður það samt aldrei eins mikið og ríkissjóður leggur fram.

3. brtt. er við 11. gr. B. 2. Þann lið, sem er um brunaábyrgðir og fasteignagjöld, hefir nefndin lækkað um 7 þús. kr. og hyggir það á því, að fyrir þinginu liggur nú frv. um að fella niður gjöld til bæjarsjóðs af opinberum byggingum að nokkru leyti. Það er að vísu ekki ljóst ennþá, hve miklu það myndi nema, en í greinargerð þess frv. eru tilfærðar tæpar 6000 kr. Svo er minst á aðrar byggingar, sem framvegis borgi ekki fasteignargjald, svo nefndin áleit þessa lækkun, sem hún fer fram á láta nærri.

4. brtt., við 12. gr. 3, er um það, að styrkurinn til Skúla Guðjónssonar falli niður. Það, sem fyrir nefndinni vakti með þessu, var það að henni virtist, sem hjer væri verið að stofna til sjerstaks kennarastóls við háskólann, en hinsvegar alveg ljóst, að þessi upphæð nægir hvergi þessum manni til framfæris sjer og sínum, og yrði því að hækka hana mjög bráðlega, svo að hún yrði sambærileg við laun annara kennara við háskólann. En nauðsyn þess að stofna þetta embætti nú gat nefndin ekki sjeð.

Næst kemur brtt. við sömu gr., við 19, r, að sjúkrastyrkur til Haralds Sigurðssonar falli niður. Nefndin gerir þetta af þeirri ástæðu, sem tekin er fram í nál., að hjer geti orðið um hættulegt fordæmi að ræða. Jeg er þess fullviss, að sá listi, sem hjer yrði skrifað á framvegis, gæti orðið æðilangur. Það er nú svo að margur er veikur, margur þarfnast hjálpar, sem feginn vildi fá styrk til að geta haldið sjer þar, sem hann teldi sjer þægilegast að vera. Það má að vísu segja, að þegar sje komið fordæmi fyrir þessu, þar sem er næsti liður á undan þessum. En það er þó betra að stöðva þetta hjer en gera það einhverntíma seinna, því að það yrði þá öllu erfiðara.

Þá kemur 13. gr., sem nefndin hefir gert margar brtt. við, ýmist til hækkunar eða lækkunar. Í samráði við vegamálastjóra leggur hún til, að veitt verði fje til framhalds Stykkishólmsveginum. Þessi vegur hefir lengi verið á döfinni; það var byrjað á honum fyrir aldamót, þótt nú sje ekki lengra komið en það, að 1905 var búið að leggja 30 km. Síðan hafa verið lagðir aðrir 30 km. og svo hefir ekkert verið átt við þennan veg síðan 1923. En þar sem vegi þessum lýkur, taka við 3 ár, sem þarf að brúa, en svo er bil á milli þeirra, sem þarf að lagfæra, og meðan það er ekki gert, komast þeir, sem hafa flutninga á þessu svæði, ekki lengra en á vegarenda og verða að taka upp gömlu aðferðina, að flytja alt á klökkum það sem eftir er leiðarinnar.

Tilætlunin er með tímanum að ná með þennan veg alveg til Stykkishólms, sem er alveg tvímælalaus nauðsyn. En því fyr næst þetta, sem meir er unnið að þessum vegi smátt og smátt. En eins og tekið er fram í nál., þá eru þeir menn, sem búa í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu, mjög illa staddir með alla aðflutninga.

Nefndin hefir lagt til að veita 10 þús. kr. til Langadalsvegar. Það er nú svo ástatt með þennan veg, að hann kemur ekki að fullum notum þar sem honum lýkur, því að við enda hans eru miklar torfærur, sem þurfa umbóta við, svo að menn geti komist sæmilega áfram.

En til þess að geta veitt þessar nauðsynlegu umbætur til þessara vega, þóttist nefndin ekki geta komist hjá því að lækka á öðrum stöðum. Var þá til tvenns að taka. Fyrst að lækka um 10 þús. kr. upphæð þá, sem veitt er til brúargerða. Gerði nefndin það með það fyrir augum, að samt mætti byggja allar þær brýr, sem gert er ráð fyrir, að bygðar verði, þótt upphæðin til þeirra verði lækkuð, því að til þess, að svo gæti orðið, myndi nægja þó ekki væri nema 5% lækkun á sementi, vinnulaunum og öðru, sem því tilheyrir, frá því sem nú er. Er það von nefndarinnar, að slík lækkun geti komið og verði komin 1927.

Í öðru lagi lagði nefndin til — jeg get tekið þetta hvorttveggja undir eitt — að lækka fjárveitinguna til símalagninga um 15 þús. kr. Bygðist þetta á því sama og hitt, að ekki væri óhugsandi, að vinna og verð á byggingarefni gæti lækkað svo mikið, að samt yrði hægt að framkvæma allar þær símalagningar, sem ráðgerðar eru.

Þá eru við 13. gr. B. VIII tvær brtt. frá nefndinni, sem er aðeins leiðrjetting á skakkri tilvísun í lög og á villu í liðnum eins og hann er.

Þá er næst brtt. undir B-lið X, þar sem nefndin leggur til, að feldur verði styrkur til ferju á Hrosshyl í Þjórsá af þeirri ástæðu, að ef slíkur styrkur fengi að standa, myndi það draga dilk á eftir sjer. Það kemur fleira á eftir, því að öllum, sem þurfa að inna þetta verk af hendi, þætti mikið hnoss að fá styrk úr ríkissjóði, í stað þess að halda þessu uppi aðeins fyrir ákveðna ferjutolla.

Næst kemur viðaukatill. við 13. gr. XIII, að veita 2 þús. kr. til endurbóta húsakynnum á Hlíðarenda í Fljótshlíð. Er styrkur þessi bundinn því skilyrði, að ábúandi geti hýst að sumarlagi 6–7 manns, eða sem svarar fólki úr einum bíl, þegar mest er aðsókn erlendra og innlendra ferðamanna þangað. Á Hlíðarendi mestan þátt í þessari aðsókn, og segir það sig sjálft, að það er að ýmsu leyti erfitt fyrir búendurna í sveitinni að hýsa allan þann straum ferðamanna, sem þangað kemur, og því má segja, að það komi öllum til nota, ef hjer kæmi eitt heimili í viðbót, sem hýst getur ferðamenn. En það veldur manni sársauka að heyra útlenda ferðamenn tala um það, hvílík forsmán það sje fyrir þjóðina, hve Hlíðarendi sje niðurníddur og að það skuli vera liðið ár eftir ár að aðhafast ekkert til að bæta úr því.

Jeg veit það að vísu, að þessi till. nær ekki svo langt að koma Hlíðarenda í það horf, að hann verði þjóðinni til sóma: en hún miðar þó í áttina til þess. Og ef Hlíðarendi fær þessa bót, þá er ekki lengur hægt að segja, að hann sje verst hýstur allra bæja þar um slóðir, heldur sje hann eftir því sem gerist og gengur.

Að þessi till. komi í bága við þál., sem borin hefir verið fram í hv. Nd., hygg jeg að allir sjái, að ekki getur átt sjer stað, því að eins og tekið er fram í nál., er tilætlunin sú, að verði úr kaupunum, þá dragist þessi styrkupphæð frá verði jarðar og húsa. Svo að hjer er ekki um það að ræða, að þetta geti rekist á.

Viðvíkjandi 13. gr. D. III, a. og b. ljet landssímastjóri það í ljós, að betra væri, að þessi liður yrði færður í 16. gr., því að svo er til ætlast, að þessar línur verði ekki á kostnað ríkissjóðs, heldur sjeu þær einkafyrirtæki, sem hlutaðeigendur hafa allan kostnað og tekjur af, og eigi því ekki hjer heima. En þar sem til var fordæmi í þessu efni í gildandi fjárlögum, sem sje línan að Núpi í Dýrafirði, sem líka er einkalína og stendur í þessari sömu grein, þá áleit nefndin tilgangslítið að færa þessar fjárveitingar á burt og yfir í 16. gr.

Næst kemur 14. gr. Þar hefir nefndin bætt inn í við 14. gr. Á. b. 4 aths., sem borin var upp í hv. Nd., en fjell þar, um að kirkjustjórninni væri heimilt, samkvæmt tillögu prestastefnu, að verja alt að einum prestslaunum til þess að greiða ferðakostnað handa prestvígðum manni, einum eða fleirum, til eflingar andlegri samvinnu meðal presta og kristilegra áhrifa á söfnuði úti um land. Tilefnið til þessarar málaleitunar var það, að skólastjórinn á Laugum fór þess á leit við Prestafjelagið að fá vígðan prest til þess að flytja 2–3 fyrirlestra við skólann og benti á sjerstakan mann, prestinn á Skútustöðum, sjera Hermann Hjartarson. En bæði var það, að hann þóttist hafa nægilegt fyrir stafni og varð ekki við tilmælunum, og svo var ekki hægt að veita honum neina þóknun, þótt hann hefði eytt miklum tíma í ferðalög fjarri heimili sínu. En hefði þessi till. með aths. þá verið til, hefði það verið innan handar að verða við þessum tilmælum.

Það er svo háttað með suma alþýðuskólana, að þeim stjórna prestvígðir menn. Svo er t. d. með Eiða- og Núpsskólana. En þar sem nú hafa risið upp aðrir skólar, sem ekki hafa slíkum kröftum á að skipa væri það mjög gott að fá þar vakningarerindi frá kristilega sinnuðum mönnum. Ef það eru menn, sem hafa virkilega trú á því að þetta starf gæti haft vekjandi kristileg áhrif, þá væri það vissulega til mikillar blessuna, að þeir færu um vissa staði til þess að halda slíka fyrirlestra. Nefndin er því á þeirri skoðun, að það gæti borgað sig, frá andlegri hlið skoðað, að gefa kirkjustjórninni færi á því að nota þetta fje í þessu skyni.

Þá er við 14. gr. B. XII. 1. d. nýr liður um 5 þús. kr. til endurnýjunar húsbúnaði og rúmfatnaði kvennaskólans. Þessi nauðsynlegu áhöld skólans eru orðin svo gömul og slitin, að það verður að endurbæta þau og veita fje til þess. Jeg álít líka, að þar sem um þennan skóla er að ræða, þá þýði ekki að tala um annað en að neita honum það fje, sem nauðsynlegt er. Eins og hjer hefir verið tekið fram í umræðunum um þennan skóla nú fyrir nokkrum dögum, þá hefir það aldrei átt sjer stað, að þessum skóla eða Blönduósskólanum hafi verið neitað um nauðsynlegar upphæðir.

16. brtt. er við 14. gr. B. XIII. 7. Þar hefir háttv. Nd. hætt inn í utanfararstyrk til ákveðins manns. Þessi maður hefir farið fram á að fá þennan styrk með tilliti til þess að kynna sjer í fyrsta lagi lestur barna og stöfunaraðferðir, í öðru lagi að ferðir til þess að flokka börn eftir aldri og þekkingu og í þriðja lagi ráðstafanir gagnvart og meðferð á vandræðabörnum. Það lágu nú svipaðar umsóknir þessari fyrir nefndinni, m. a. frá Steingrími Arasyni um þriðja atriðið, að kynna sjer meðferð á vandræðabörnum. Vildi hann fá styrk til þess að fara til Bandaríkjanna í þessu skyni. Sömuleiðis lá fyrir nefndinni erindi frá sjera Guðmundi Einarssyni á Þingvöllum um styrk til handa ákveðnum manni. Guðmundi Gíslasyni frá Úlfljótsvatni, sem sumir hafa látið sjer detta í hug að ætti að verða kennari við hjeraðsskólann í Árnessýslu. Sjera Guðmundur Einarsson, sem hafði haft þetta mál með höndum samkvæmt óskum prestastefnunnar, mælti með því að veita þessum manni 2000 kr. En í samtali, sem hann átti við mig um þetta sagði hann, að ekki væri útilokað, að nægja myndu 1000 krónur, þar sem umgetinn maður væri nú staddur ytra. En fram hjá báðum þessum mönnum hefir alveg verið gengið og sá nefndin þá enga ástæðu til þess að sinna þessari styrkbeiðni, sem hjer um ræðir, frekar en hinum.

Í 14. gr. XIV. 2 er fjárveitingin til unglingaskóla (lýðskóla) utan Reykjavíkur, Akureyrar og Hafnarfjarðar 42 þús. krónur.

Eins og athugasemdin sýnir, er það skilyrði, að kent sje samkvæmt reglum, er stjórnarráðið setur, bæði að því er snertir tímalengd og annað. Það verður auðvitað ekki hjá því komist að setja um þetta reglur, en það er kostur, að þær reglur sjeu ekki mjög þröngar. Gæti vel komið til mála að veita þennan styrk, þó ekki væri öllum skilyrðunum fullnægt bókstaflega, ef árangurinn sýndist þar eins góður og annarsstaðar, þar sem tíminn er lengri talinn. Það lágu fyrir nefndinni ýmsar umsóknir um styrk fyrir skólahald, sem ekki gátu komist undir þessar reglur, af því að kent hafði verið of skamman tíma. Það getur vel staðið svo á, að ekki sjeu kringumstæður til að kenna 3 mánuði eða meira, og getur þó komið að gagni, og stundum meira gagni en þar sem tíminn er langur. Annars er það stjórnarinnar sjálfrar og fræðslumálastjóra að ráðstafa því, hvernig þessu skuli hagað.

Umsóknir um fje til að reisa nýja barnaskóla í sveitum hafa fjöldamargar borist, og hefir fræðslumálastjóri mælt sjerstaklega með sumum í brjefum, sem hann hefir skrifað stjórn og þingi. Ómögulegt er að sinna þessu öllu, og verður fræðslumálastjórnin að haga sjer í þessu efni eftir því, sem best þykir henta eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja.

Þá er brtt. XVIII, 4. Nefndin sá sjer ekki annað fært en að hækka þennan styrk dálítið, því margar umsóknir um styrk til að koma upp sundlaugum lágu fyrir og aðstaða nokkurnveginn jöfn. Það er drepið á þetta í nál., og nægir að vísa til þess. Í sambandi við þetta hefir nefndin lagt til, að fyrir „hjeraðseign“ komi: til afnota fyrir almenning. Það eru fyrst og fremst ungmennafjelögin, sem gangast fyrir þessum framkvæmdum, og það virðist eðlilegast, að þau hafi veg og vanda af þessum fyrirtækjum, þegar þau eru komin upp. Af því að þau hafa lagt mikið á sig við að koma sundstæðunum upp, má treysta þeim til að láta þau ekki lenda í vanhirðu. Gæti vel komið fyrir, að hreppsnefnd hefði minni áhuga í þessu efni.

Þá er brtt. við 15. gr. 1, a. Það er aðeins leiðrjetting á reikningsskekkju.

Þá er brtt. við sömu gr. 3. g, um að niður falli styrkur til að safna drögum til menningarsögu. Fyrir þessu er ekki aðrar ástæður að færa en þær, að nefndinni fanst þessi styrkveiting ekki bráðnauðsynleg og fremur óviðfeldið að veita þetta út í loftið um leið og Nd. fellir styrk til ákveðins manns, sem kominn er inn á þá braut að rita upp og skýra gamlan fróðleik.

Þá er 15. gr. 16, að þessum styrk, 1500 kr., sem um er að ræða, sje varið til að halda áfram útgáfu á Lagasafni handa alþýðu. Það er búið að gefa út 5 hefti af þessu safni, eða fram að árinu 1909. Síðan hefir ekkert komið, og er því ekki í annað hús að venda en Stjórnartíðindin eftir þann tíma. En þau eru mjög óhandhæg til notkunar og getur verið erfitt að átta sig á þeim, enda mun misbrestur á, að þeim sje haldið saman, þó send sjeu hreppstjórum og oddvitum. Getur því oft verið seinlegt að ganga úr skugga um, hvaða lög hafa bæst við síðan 1909. Því hefir verið haldið fram, að Lög Íslands væri betra rit og hentugra, af því aðeins sjeu tekin lög, sem gilda. En þetta rit er komið mjög skamt áleiðis, þó mikið kunni að vera til í handriti. Hins vegar eru margir búnir að eyða fje til að kaupa þau hefti, sem komin eru út af Lagasafni alþýðu, og er ilt, að það fje fari til ónýtis. Nefndin hjelt, að flestum myndi kærkomnara að fá áframhald þessa verks heldur en Lög Íslands. Eitthvað þarf að fá, því ilt er að burðast með marga árganga af Stjórnartíðindunum.

Þá er næst nýr liður, að veita skuli 2000 kr. til hljómsveitar Reykjavíkur. Formaður þessa fyrirtækis og stofnandi, Sigfús Einarsson, sem heldur því uppi með mikilli elju, kom til nefndarinnar með tilmæli um, að einhver styrkur yrði veittur í þessu skyni. Umsóknin um þennan styrk hafði hljóðað upp á 2–4 þús. kr. En háttv. Nd. hafði ekki viljað sinna þessu neinu. Organistinn sýndi fram á, að ef enginn styrkur fengist til þessa, yrði ókleift að halda fyrirtækinu áfram. 4000 króna umsóknin var miðuð við það, að hægt væri að bæta við mönnum og hljóðfærum, en 2000 kr. kvað hann mundu nægja til að halda við því, sem komið er. Nefndinni þótti ilt og óforsvaranlegt, að þessi byrjun legðist niður, og vildi stuðla að, að svo yrði ekki.

Þá er næst styrkur handa listamönnum. Nefndinni fanst rjett, að þeir fengju sömu upphæð allir, og auk þess hefir hún bætt tveimur við. Harald Björnsson má telja hliðstæðan Önnu Borg. Hann hefir veitt forstöðu Leikfjelagi Akureyrar og er því vel undirbúinn, enda gefa kennarar hans í skyn, að hann geti orðið því sem næst fullnuma, eftir því sem hægt er í þessari grein, á tiltölulega skömmum tíma. Hinn maðurinn, Gunnlaugur Blöndal, er kunnur málari og stendur þar mjög framarlega. Hann mun vera í þann veginn að halda málverkasýningu í París og þarf að verja miklu fje til þess.

Þá er till. um að veita frú Björgu Blöndal 2500 kr. í viðurkenningarskyni. Jeg tel óþarft að eyða orðum um þessa till. Ef til vill þykir hún frekar of lág en há, því að þessi kona hefir gert þjóð sinni ómetanlegt gagn. Það var farið fram á 3000 kr. í 3 ár, en nefndin þorði ekki að leggja til, að gengið væri inn á þá braut.

Næst er till. um að fella niður styrk til Guðmundar Finnbogasonar. Nefndin var hrædd um, að þessi styrkveiting mundi draga dilk á eftir sjer, að fleiri embættismenn kynnu að fara fram á hið sama, og ekki væri þá frekar ástæða til að neita þeim. Til dæmis væri óforsvaranlegt að neita slíkum manni sem dr. Páli Eggert, ef hann færi fram á slíkan styrk og einhver væri kominn á undan. Það má kannske segja, að fordæmi sje þegar gefið, þar sem er ritstyrkur Nordals. Jeg var líka upphaflega á móti honum af sömu ástæðum, þó úr yrði, að sá styrkur væri veittur, til þess að hlutaðeigandi ryki ekki frá okkur til annara landa. Jeg álít dr. Guðmund Finnbogason góðan rithöfund og jeg les með ánægju rit hans. En sem sagt: Þessi styrkveiting myndi skapa fordæmi, sem gæti haft óþægilegar afleiðingar, og því leggur nefndin á móti henni.

Þá er næst lítilfjörleg hækkun til Páls Þorkelssonar, sem varla þarf að mæla með sjerstaklega.

Þá er brtt. við 16. gr. 3, þar sem nefndin leggur til, að athugasemdin falli niður. Það hefir altaf verið álit þessarar deildar, að ekki væri rjett að setja sjerstök skilyrði fyrir þessari styrkveitingu. Mjer er kunnugt um, þar sem jeg þekki til, að þessi styrkur hefir gert mikið gagn, verið mönnum hvöt til að vinna sem mest að jarðabótum. Jeg get nefnt einn nágranna minn, sem unnið hefir mikið að jarðabótum. Hann hefir stundum fengið 150 krónur á ári af þessu fje, þótt lítið falli á hvert dagsverk, og jeg veit, að honum hefir þótt þægilegt að fá þennan styrk, þótt lítill sje. Jeg held, að best fari á því, að þessari styrkveitingu sje hagað eins og gert hefir verið.

Þá er 34. brtt., við 16. gr. Í frv. stendur, að leggja skuli til hafnarbóta í Ólafsvík þriðjung kostnaðar, 10 þús. kr. Eftir því er ætlast til, að hreppsfjelagið leggi fram 20 þús. kr., en það er því algerlega um megn. Í þetta fyrirtæki er þegar búið að leggja 34 þús. kr., 10 þús. úr ríkissjóði og 24 þús. kr. úr hreppssjóði, og þar með er lánstraust hreppsins þrotið. Að fá ríkissjóðsábyrgð eða lán úr ríkissjóði er ekki sýnilegt, að hefði neitt að þýða, því að hreppsfjelagið gæti ekki svarað vöxtum eða afborgunum af svo stórri upphæð. Nefndin taldi því rjett að veita 20 þús. kr. til þessa fyrirtækis alveg skilyrðislaust.

Þá er 35. brtt., sem jeg þarf ekki að fara mörgum orðum um. Að meiri hl. komst að þessari niðurstöðu, stafar af því, að yfirlýsing kom fram á síðasta þingi um það, að það yrði í síðasta sinn, sem farið yrði fram á slíkan styrk.

Þá er 36. brtt., sem er aths. Nefndinni fanst óviðkunnanlegt að gera Sambandi íslenskra heimilisiðnaðarfjelaga að greiða ákveðna upphæð sjerstökum manni. Ef maðurinn er þess sjerstaklega verður, þá færi betur á, að hann stæði alveg sjer en undir þessum lið.

Þá kemur nr. 37, við 16. gr., um eftirgjöf á lánum til nokkurra hreppa. Nefndinni þykir það mjög svo varhugavert að ganga inn á þá braut að gefa hreppum þannig eftir lán. Eins og tekið er fram í nál., þá fjekk nefndin skrá yfir lán hinna einstöku hreppa, kaupstaðirnir ekki taldir með. Þessi lán eru nú kr. 242425.64 Þegar farið er að gefa nokkrum hreppum þannig eftir lánið, eins og hjer á sjer stað í frv., þá má búast við, að fleiri og fleiri komi á eftir. Þess vegna leggur nefndin til að fella þennan lið burtu.

Næst er 38. brtt., að komi nýr 1iður, 1 þús. kr. til Bjarna Magnússonar fangavarðar í Stykkishólmi. Það er hugsað sem uppbót í eitt skifti á þeim lítilfjörlegu launum, sem hann hefir haft. Það var samþykt á síðasta þingi í þessari deild en felt í Nd. Þetta er ógnar lítilfjörleg upphæð, en sennilega ekki svo lítil hugnun fyrir hann.

Þá hefir nefndin lagt til að fella niður 5. lið 17. gr., 3800 kr. til styrktarsjóðs verkamanna- og sjómannafjelaganna, en setja í þess stað annað, sem hún telur meira virði, sem sje til Sjúkrasamlags Reykjavíkur. Mætti segja, að best væri að styrkja hvorttveggja, en nefndin vildi reyna að spara jafnframt því að fullnægja þessari sjálfsögðu útgjaldakröfu.

Í 18. gr. vill nefndin bæta við tveimur konum. Önnur er Kristín Sigfúsdóttir skáldkona, sem allir kannast við af ritverkum hennar. Sumir kunna að hafa það á móti þessu, að hún sje ekki búin að vera svo lengi viðurkend eða vinna svo mikið, að hún eigi nú að komast inn í 18. gr., og svo kunni að fara, að hún vinni ekki framar að ritstörfum. Mjer finst reynslan mæla á móti þessu. Við minnumst Guðmundar Friðjónssonar. Hann fjekk fyrst styrk eitt og eitt ár í senn, en svo varð útfallið, að hann komst inn í 18. gr. Og jeg veit ekki betur en hann hafi ekki síður haldið áfram sínum ritstörfum eftir það. Jeg fyrir mitt leyti þori að vænta þess, að Kristín Sigfúsdóttir haldi áfram að semja skáldrit eins fyrir þetta og ekki síður. Enda má segja, að þeir, sem á annað borð eru gæddir slíkri gáfu, geti alls ekki hætt við að yrkja meðan kraftar og kringumstæður leyfa.

Þá leggur nefndin til að hækka styrkinn til Þórunnar Gísladóttur. Það er mjög orðlagt, hvað hún hafi komið að góðu liði í hvívetna meðan hún gegndi ljósmóðurstörfum í Skaftafellssýslu. Oft varð að grípa til hennar í stað læknis til þess að binda um beinbrot, kippa í lið Og ýmislegs fleira, svo að það má segja, að hún hafi gegnt að nokkru leyti læknisstörfum í heilli sýslu um margra ára skeið. Og hins vegar er ómögulegt að neita því, að enn í dag er margur maðurinn, sem telur sig hafa haft gott gagn af hennar hjálp eða ráðleggingum við ýmiskonar líkamsmeinum. Hjer er ekki, eins og jeg sagði, um nýjan styrkþega að ræða, sem nefndin beri fram, heldur um hækkun dálitla á styrk, sem fyrir er í frv. En hin konan, sem nefndin vill bæta við inn í 18. gr., er Guðbjörg Þorleifsdóttir í Múlakoti. Hún fór þess á leit, þessi kona, að fá 1 þús. kr. styrk til að leiðbeina um trjárækt og blómarækt, sem hún er með af brigðum hneigð fyrir, að sínu leyti eins og skáldin, sem verða að yrkja — geta ekki annað en gert það. Alla tíð hefir hún verið fjarska heilsulaus. Það er eitt, sem virðist halda lífi hennar uppi, það er hugsjónin að lifa fyrir blómin. Jeg veit, að mörgum mun kunnugt, hverju hún hefir áorkað í þessu efni. Margur maður, sem hefir farið austur í Fljótshlíð, hefir skoðað fagran garð, sem hún hefir komið upp og annast. Á sama bæ er reyndar annar fallegur garður hjá nábýlisbóndanum, sem sömuleiðis er mjög áhugasamur um þessa hluti. En aðstaðan er að ýmsu leyti betri hjá honum en konu þeirri, sem hjer ræðir um, enda heilar og hraustar karlmannshöndur, sem þar standa að.

Þá er 44. brtt., sem gengur út á, að 7. liður 22. gr. falli niður. Ástæða meiri hluta nefndarinnar er sú, að þessar verksmiðjur, Álafoss og verksmiðja Boga Þórðarsonar (Gefn), eru svo nálægt hvor annari, að viðbúið er, að samkepni milli þeirra um spuna meðal annars geti gert Álafossi stóran óleik. Uppi um sveitir er yfirleitt ekki að ræða um það, að kvenfólk spinni mikið á rokk. Þarf því vitanlega að fá lopann spunninn í slíkum vjelum, ef nokkuð á að verða úr slíkri heimavinnu. En hins vegar er ekki víst, að þær hafi báðar nóg að gera, þar sem þær eru svo nálægt hvor annari. Þykir því meiri hluta nefndarinnar viðurhlutamikið að styrkja nýja verksmiðju til samkepni móti þeirri, sem fyrir er og ríkissjóði, vegna áður veitts láns eða ábyrgðar, ríður svo mikið á, að ekki fari um koll.

Meiri hl. nefndarinnar leggur til að taka upp lánsheimild fyrir 12 þús. kr. til Boga sýslum. Brynjólfssonar. Byggist það á fordæmi, því að slíkt lán var veitt í fyrra til þess að standast byggingarkostnað hjá bæjarfógeta Vestmannaeyja og sýslumanninum í Skagafjarðarsýslu.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta að sinni. Geri ráð fyrir, að þeir, sem brtt. flytja, þurfi að taka til máls og mæla fyrir þeim, og læt því bíða að fara orðum um þær þar til flutningsm. þeirra hafa talað fyrir þeim.