11.05.1926
Efri deild: 72. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1910 í B-deild Alþingistíðinda. (1630)

31. mál, happdrætti fyrir Ísland

Sigurður Eggerz:

Við 1. umr. tók jeg fram ýmsa annmarka, sem eru á stofnun happdrættis.

Það er ljóst af öllu, enda gert ráð fyrir því í nál. minni hl. fjhn., að selja á sem mest af happdrættismiðunum erlendis. En með því móti getur nafn landsins fljettast óþægilega inn í þetta sölubrask. Jeg sá þess nýlega getið í „Politiken“, þar sem talað var um danskt happdrætti — mig minnir það væri Kgl. Kolonial Lotteri — að miklar kvartanir hefðu komið um sölu seðla þess erlendis, t. d. frá Frakklandi. Og Danmörk hefir haft mikil óþægindi af þessu.

Það er mjög hætt við því, að hið sama verði uppi á teningnum hjer. Því meiri tök sem þeir, er einkaleyfið fá, hafa á því að græða, því meira er auglýst og lengra gengið, og þá er hætt við, að nafn Íslands dragist þar inn í. Þetta er stórvægilegt atriði og nóg til þess, að málið fari ekki lengra.

Jeg hefi heyrt, að hæstv. fjrh. hafi verið á móti frv. í Nd. af þessum ástæðum, og er jeg honum þakklátur fyrir það.

Þetta er eitt af þeim aðalatriðum, er smáþjóð verður að vera aðgætin með, að láta ekki nota nafn sitt svo, að hún bíði tjón við það.

Svo kemur gróðaspursmálið. Það er sagt, að ríkissjóður fái alls miklar tekjur, en það er engin rannsókn á því, hvort það er ekki alt of lítið í samanburði við gróða þess, er einkaleyfið fær.

Jeg veit ekki, hvaða útlendingar eru á bak við þetta, nema þá Philipsen sá, er fyrstur fjekk hugmyndina um að stofna íslenskt happdrætti. Jeg býst við því, að hann sje aðalmaðurinn og að þessi Winter sje aðeins málafærslumaður hans. Menn væru ekki að sækja um þetta, nema því aðeins, að þeir ætluðu sjer að græða, og þá verðum við líka að athuga, hvort hagnaður þeirra verður ekki of mikill. Í nál. er engin rannsókn á þessu. En ef það á endilega að setja hjer upp „lotterí“ — en jeg er á móti því að æsa upp spilagirnd manna — hví þá ekki að stofna ríkislotterí?

Það er varhugavert að afhenda útlendum mönnum þennan rjett og hafa litlar tryggingar fyrir því, hvernig þeir fara með hann. Það segir svo um þetta efni í skeytinu:

„Salget vil foregaa overensstemmende med andre statsanerkendte lotteriers teknik.“

En hvað er á þessu byggjandi? Hvaða trygging er í þessu? Og svo er sagt í skeytinu, að sölunni verði hagað eins og hjá Kgl. Klasselotteríinu, en nú er það einmitt út af því lotteríi, að umkvartanir hafa komið frá Frakklandi.

Jeg hefi þá sýnt fram á:

1. að þetta er hættulegt fyrir nafn þjóðarinnar;

2. að málið er órannsakað og óundirbúið;

3. að ef hjer á að stofna lotterí, þá er betra, að það sje ríkislotterí.

Jeg mun verða mjög ákveðið á móti frv., og það gleður mig sem sagt, að hæstv. fjármálaráðherra hefir tekið sömu afstöðu til málsins.