14.05.1926
Efri deild: 76. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1921 í B-deild Alþingistíðinda. (1640)

31. mál, happdrætti fyrir Ísland

Ingibjörg H. Bjarnason:

Jeg hefi æfinlega verið á móti þessu máli og er það enn. Mjer finst það harla einkennilegt, að á því sama þingi, sem verið er að samþykkja lög, er banna landsmönnum að kaupa happdrættisseðla annarsstaðar að, þá er borið fram frv. til laga um íslenskt happdrætti. Í þessu er mikið ósamræmi. Svo þykir það næg trygging í málinu, þegar maður er nefndur úti í Kaupmannahöfn, sem heitir Winter! En það er ekki nóg sönnun fyrir mig, því að „fjarlægðin gerir fjöllin blá og mennina mikla.“ Snemma á þinginu voru samþykt lög, sem eiga að sporna við spilafýsninni, en svo á að stofna innlent happdrætti, sem hefir ekkert annað til síns ágætis en það, að það verður enn hægra fyrir menn að losna við peninga úr buddunni til þess að kaupa fyrir vafasama happdrættisseðla. Gróðavonin fyrir ríkissjóð er — 100 þúsund krónur. Mig svimar ekkert af þeirri tölu. Og ekki heldur þó að ríkissjóður fengi 800 þúsund krónur. Það er þegar búið að sýna fram á svo marga agnúa á þessu frv., en jeg vil aðeins frá mínum bæjardyrum lýsa viðhorfinu. Jeg tel frv. óþarft og jafnvel hættulegt, og er skringilegt að vera að eyða síðasta degi þingsins til að knýja það fram. Ef 100 þúsund krónur eiga að renna í ríkissjóð, má geta nærri, hvort leyfishafarnir reikna sjer ekki mörgum sinnum 100 þúsund krónur. Þó að stjórnin eigi altaf að ráða, hvernig þessu er skipað, er ekki þar með sagt, að vel sje ráðið. Það er þó síður en svo, að jeg sje með þessum athugasemdum að vantreysta núverandi hæstv. stjórn, en jeg treysti engum til að ráða svo við þetta mál, ef frv. nær fram að ganga, að það verði ekki vandræðamál. En þeir menn, sem nú sækja það svo fast, að Alþingi veiti stjórninni þessa heimild, og hafa gert það ár eftir ár, munu áreiðanlega ekki láta áfergjuna niður falla og sækja engu lakar á stjórnina, að hún veiti þeim leyfið. Jeg tel það því alls ekki meinlaust að samþykkja þessi heimildarlög og greiði óhikað atkvæði á móti þeim.