14.05.1926
Efri deild: 76. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1922 í B-deild Alþingistíðinda. (1641)

31. mál, happdrætti fyrir Ísland

Jónas Jónsson:

Jeg býst við, að hv. frsm. meiri hl. (BK) fari að þykja nóg um, ef allir hv. deildarmenn standa upp og vitna í sömu átt og hv. 1. og 4. landsk. (SE og IHB) hafa nú gert. Þó mun jeg nú segja örfá orð. — Vil jeg fyrst taka það fram, að mál þetta hefir oft komið í nánd við þingið áður. Hefir oft verið reynt að fá menn til að flytja það, en altaf gengið illa að afla því fylgis. Jeg skal ekki segja, hvernig menn standa hjer að baki, en í hitteðfyrra var sagt, að þeir væru slíkir, að þeir fengju ekki passa milli landa. Í fyrra var maðurinn, sem ætlaði að fá leyfið, að reyna að fá á sig einhvern „officiellan“ stimpil, en tókst ekki. Þeir útlendu menn, sem nefndir hafa verið í sambandi við þetta, eru allir til mótmæla, að þessum Winter e. t. v. frátöldum. — Þá er það og athugavert, að hjer er verið að tala um að veita heimild, sem hæstv. stjórn hefir alls ekki beðið um, og sá ráðh., sem hlut á að máli, vill ekki taka við. Það er óneitanlega undarlegt, þegar fylgismenn hæstv. stjórnar, eru að troða upp á hæstv. fjrh. þessum peningum, sem hann vill alls ekki þiggja, að mjer skilst af mórölskum ástæðum. Það eina sálfræðilega, sem gæti staðið á bak við þetta frá hálfu stuðningsmanna hans, er að þeir sjeu að reyna, hvort hæstv. ráðh. getur staðist freistinguna. Vil jeg fyrir mitt leyti flytja honum hugheilar óskir um, að það megi takast.

Jeg hefi átt tal um þetta mál við háttsettan embættismann annars ríkis hjer í bæ, og hirði jeg ekki um að nefna hjer nafn hans. Hann sagði mjer, að í hans landi væru starfrækt lotterí, og hafi verið um alllangan tíma; út af þeim væru eilíf vandræði og kvartanir, og nú mundi hvorki þing nje stjórn leyfa að stofna slík lotterí, ef þau væru þar enn ókomin. Er þetta í fullu samræmi við það, sem hv. 1. landsk. og hæstv. fjrh. hafa haldið fram. Ef hv. Ed. vill ekki síðasta daginn samþykkja það, sem henni er vansæmd að, á hún að fella þetta frv.