29.04.1926
Neðri deild: 65. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1942 í B-deild Alþingistíðinda. (1650)

110. mál, sala á síld o. fl.

Pjetur Ottesen:

Háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) þykir þetta frv. vera heldur en ekki vatn á sinni myllu. Jeg skal nú ekki fara neitt út í það, en lofa þeim hv. flm. (BL) og honum að eigast við um það sín á milli.

Hv. frsm. (BL) mintist á sögu síldveiðanna hjer á landi. Fyrst eru það útlendingar eingöngu, sem sleikja rjómann af síldveiðunum, og nota til þess innlendan vinnukraft. Og þó ekki sjeu metin öll þau spjöll, sem orðið hafa á hugsunarhætti fólksins í þessu sambandi fyrir áhrif útlendrar ómenningar, þá verður ekki með sanni sagt, að síldveiðarnar hafi reynst þessu landi nein fjeþúfa nje markað nein heillaspor á framfarabraut þjóðarinnar.

Þær hafa að vísu á stundum gefið allmiklar tekjur til verkafólksins og mjólkað landssjóði drjúgum. En oft hafa líka útgerðarmenn og síldarsölumenn borið skarðan hlut frá borði, og verkafólkið stundum komið aftur með tóma pyngju, og auk heldur með ærna skuldabyrði á baki, og hafi það ekki getað int þær skuldir af hendi, þá hefir það þó orðið einhverra tap. En ríkissjóður hefir oft borið drjúgan skilding úr býtum. Því er ekki að neita. En það er annað atriði í þessu sambandi, sem taka verður einnig til greina, þegar alt er gert upp, og ekki er lítilsvert, en það er sú röskun á atvinnulífi landsmanna, sem síldveiðarnar lafa leitt yfir landið, Þær eru sem sje reknar á þeim tíma, sem mest þörf er fyrir vinnukraft í sveitum, um heyannatímann. Og því verður ekki neitað, að það, sem mest stendur í vegi fyrir framförum landbúnaðar og framfarahug þjóðarinnar á því sviði, er einmitt það, að vinnukraftinn vantar, þegar hans er mest þörf, það er um hey annatímann. Það hefir lamað landbúnaðinn mjög, hversu síldveiðarnar hafa rekist óþyrmilega á hann. Landbúnaðurinn, þessi gamli og tryggi atvinnurekstur, hefir orðið að lúta í lægra haldi fyrir þessum ótrygga atvinnuvegi í samkepninni um að ná í vinnukraftinn. Þó er önnur afleiðing þessa atvinnurekstrar, sem ef til vill hefir litlu minna tjóni valdið. Það er sú breyting á hugsunarhætti þjóðarinnar, sem frá honum stafar. Síldarútgerðinni er þannig háttað, eins og hv. frsm. tók fram, að líkja má henni við teningskast, og þess vegna hefir sá hugsunarháttur vaxið og þróast, að hjer sje annaðhvort alt að vinna eða öllu að tapa, og hinsvegar fyrnst yfir hina gömlu og góðu setningu: að sígandi lukka sje best.

En þótt nú þessi atvinnuvegur hafi gengið æðiskrykkjótt yfirleitt, þá er nú samt svo komið, að mjög mikið fje er í honum bundið, og skil jeg þetta frv. þannig, að það sje tilraun til þess að bjarga því, sem bjargað verður, af því mikla fje, sem því miður er búið að binda á þennan hátt. Þó það fje hefði verið betur komið annarsstaðar, þá verður að taka það eins og það er og þýðir ekkert að sakast um orðinn hlut. Frv. er fram komið til þess að tryggja landsmönnum betri not af þessum atvinnurekstri. Eftir því, sem mjer hefir verið tjáð, þá er það einn mesti agnúinn á málinu, hve markaðurinn fyrir saltsíldina hefir reynst misbrestasamur. Þegar vel veiðist fellur verðið vegna þess, hve markaðurinn er þröngur. Þetta er versti gallinn. En jeg sje ekki nein ákvæði í frv., sem tryggja þetta. Mjer hefir skilist, að ráðið væri það, að takmarka það, hve mikið væri saltað af síld, en það er hægt að vita svona hjerumbil, hvað markaðurinn þolir af saltaðri síld árlega. Enda hefir það sýnt sig, að þegar framleiðslan er í samræmi við markaðinn, þá er verðið gott. Að vísu er talað um það í frv., að ekki megi byrja á því að salta fyr en 25. júlí, og byggist það á því, að þá er síldin farin að verða feitari en í byrjun veiðitímans og minni áta í henni og hún því betri vara. Þetta sagði hv. frsm., að væri óbein trygging fyrir útflutninginn. En mjer virðist framleiðsla þessi betur trygð, ef það væri ákveðið að salta alls ekki meira en markaðurinn þolir. Því það er tjón að verða að taka eitthvað af síldinni upp úr tunnunum og setja í bræðslu. Það liggur sem sje mikið fje bæði í tunnum og salti og svo vinnunni við þetta. Því er hin leiðin nær en þessi.

Svo er annað; það er talað um að útiloka með þessu frv. leppmenskuna, sem vissulega er þjóðarsmán. Mjer skilst samt, að það leiki á tveim tungum, hvort það sje víst, að það náist með þessu frv. eins og það liggur fyrir. Hvað greiðsluna snertir, þá er það ekki nema einstöku maður, sem getur haft innlent rekstrarfje til þess að reka útgerðina með. Nú er hún oft rekin á þann hátt, að menn selja síldina fyrirfram fyrir ákveðið verð og fá tunnur og salt hjá kaupanda, og eins fje til þess að hefja með starfræksluna. Munurinn á þessum mönnum og leppunum er þá sá, að þeir reka sölu og útgerð fyrir eiginn reikning og á eigin ábyrgð, en hafa hinsvegar tryggingu fyrir sölunni. En lepparnir starfa fyrir reikning erlendra síldarkaupmanna. Nú tekur þetta frv. fyrir það, að menn geti selt nokkuð af framleiðslunni fyrirfram, og girðir þannig fyrir, að menn geti aflað sjer rekstrarfjár á þann hátt. Það er því ekki óttalaust, að niðurstaðan af þessu geti orðið sú, að auka leppmenskuna, í stað þess að draga úr henni. Þetta verður að athuga vel. Menn verða með þessu fyrirkomulagi að geta bygt á því, að hægt sje að fá innanlands nægilegt fje til þess að reka útgerðina mestan hluta útgerðartímans, þar sem greiðsla fyrir síldina kemur ekki fyr en seint og síðar meir.

Það á vitanlega ekki við að tala hjer um einstakar greinar frv. En jeg geri ráð fyrir, þar sem frv. kemur frá nefnd, þá verði því ekki vísað til nefndar, og vænti því, að ekki verði hart á því tekið, þótt minst sje á einstakar greinar frv. nú v ið 1. umr.

Í 1. gr. er svo ákveðið, að ef einhverjir þeirra manna, sem á síðastl. ári fengust við söltun eða útflutning síldar, vilja slá sjer saman um að mynda fjelag til þess að hafa með höndum síldarverslunina, þá sje þeim það heimilt. Þó ekki sjeu nema tveir menn, sem að þessu vilja hverfa, þá geta þeir ákveðið, að slíkur fjelagsskapur skuli tekinn upp. Hv. frsm. (BL) sagði, að það þyrfti ef til vill einhver nánari ákvæði um þetta. Jeg er æðihræddur um, að þetta sje ekki fullhugsað. Þá er það, að eingöngu þeir menn, sem fluttu út síld á síðasta ári, skuli hafa þennan rjett. Jeg skil ekki, hvernig á því stendur, að menn, sem geta sýnt það ljóslega, að þeir ætla að salta eða flytja út síld nú í sumar, skuli ekki fá að vera með í þessari fjelagsmyndun eða ráða um það, hvort fjelag skuli stofnað eða ekki. Það er þó þeirra framleiðsla, sem á að koma undir þetta fjelag. Hitt nær engri átt, að menn, sem að vísu fengust við síldarsölu í fyrra, en ætla nú ekkert við hana að fást, að þeir geti rokið til og myndað slíkan fjelagsskap og gert ráðstafanir um tilhögun á sölu þeirrar síldar, sem þeir eiga ekkert í og hafa ekkert með að gera.

Það er sjálfsagt miklu hyggilegra, að það sje bundið því skilyrði, að það sjeu allmargir menn, sem koma sjer saman um að mynda þennan fjelagsskap, svo að skuldbindandi sje fyrir hina að vera þar með. Einnig að það sjeu eingöngu þeir einir, sem ætla að salta eða flytja út síld í sumar, sem þar komi til greina, að viðbættu því, að þeir, sem gera út á síld, þó þeir salti ekki eða flytji síldina út, mættu einnig vera þar á meðal. Jeg verð að biðja háttv. meiri hl. sjútvn. að athuga þetta betur.

Þá virðist, mjer vera ósamræmi milli 3. og 4. gr. frv. Í 3. gr. er gert ráð fyrir, að þeir sjeu allir fjelagsmenn, sem fjelagið selur fyrir, en í 4. gr. er talað um bæði fjelagsmenn og aðra. Þetta er ósamræmi og verður að lagfæra það. Fleira er hjer að athuga. Í 13. gr. er sagt, að atkvæði fjelagsmanna skuli fara eftir því, hvað mikið vörumagnið er. Það getur verið, að það sje rjett. En mjer skilst, að þessi fjelagsskapur sje eingöngu gerður fyrir útflytjendur, því þeir menn, sem veiða og selja til verkunar, hafa engan íhlutunarrjett um þessi mál. Hv. frsm. gat um það, að ætlast væri til þess að skifta ágóðanum bróðurlega milli útgerðarmanna, og er það auðvitað fögur hugsun. En útgerðarmenn eiga hjer alt undir útflytjendum og geta því engu um þetta ráðið. Jeg vil nú skjóta því til hv. flm., hvort ekki muni rjett að tryggja rjett þeirra betur en gert er í frv. eins og það liggur nú fyrir.

Jeg mun svo ekki gera frekari aths. um frv. í bráð og mun ekki taka endanlega afstöðu til þess að svo stöddu, eða fyr en jeg sje, hvernig flm. taka þessum aths. mínum. Jeg viðurkenni það, að síldarútgerðin er nú komin í öngþveiti. En úr hinu getur reynslan ein vitanlega skorið, hvort hagkvæmara er að skipulagsbinda söluna eða láta sitja við það, sem er, í trausti þess, að einstaklingarnir læri af reynslunni.