30.04.1926
Neðri deild: 66. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1955 í B-deild Alþingistíðinda. (1654)

110. mál, sala á síld o. fl.

Bernharð Stefánsson:

Jeg tel sjálfsagt, að mál þetta fái að ganga hindrunarlaust til 2. umr., og þess vegna þarflaust að ræða mikið um það nú. Jeg kvaddi mjer hljóðs aðallega til þess að beina fyrirspurn til hv. flutningsmanna.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að veita þessu fyrirhugaða fjelagi einkasölu á síld, og jafnframt að skylda alla þá, sem þennan atvinnuveg stunda, til að ganga í fjelagið. Jeg hefi reyndar litið svo á hingað til, að skilyrði þess, að fjelagsskapur, hver sem hann er, geti komið að notum og þrifist, sje það, að meiri hl. fjelagsmanna vildi vera í fjelaginu og væri ánægður með stofnun þess. Jeg álít því sama gilda hjer, og ef meiri hl. þeirra, sem í fjelaginu eiga að vera, vill ef til vill ekki, að það sje stofnað, þá sje ekki góðu að spá um framtíð fjelagsins.

Þess vegna saknaði jeg þess mjög í greinargerð frv. og einnig í framsöguræðu hv. þm. Ak., að engar upplýsingar liggja fyrir um það, hve almennur vilji þeirra, sem hlut eiga að máli, standi að baki þessu frv.

Því er það, að jeg leyfi mjer að spyrja: Hver er undirbúningur þessa máls, eða er þegar hafinn undirbúningur um stofnun fjelagsins og ýmislegt fleira í því sambandi?

Þessu vildi jeg fá svarað, og eins því hve góðar undirtektirnar sjeu og hvað mikill áhugi standi hjer á bak við. Jeg skal geta þess, að spurningar þessar eru ekki fram bornar að ástæðulausu. Jeg hefi sem sje orðið þess var, bæði í gær og í morgun, að ýmsir síldarútflytjendur vissu ekki fyr en í gær, að mál þetta væri hjer á ferðinni.

Að vísu hefir hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) svarað að nokkru leyti þessum spurningum. Hann sagði áðan, að ekkert lægi fyrir um það, að þessa væri óskað af öllum þorra útflytjenda. En hann vildi kenna um, að svo mikið væri um leppmensku að ræða í sambandi við útflutning síldar, að ekki mundi vera hægt að fá fylgi slíkra manna með fjelagsstofnuninni. Þetta getur vel verið. En það er erfitt fyrir okkur, sem ekki þekkjum því betur til í þessu efni, að spá, hverjir muni vera leppar og hverjir ekki.

Jeg vil telja það mjög illa farið, ef svo skyldi fara, að fjelagsskapur þessi gæti ekki þrifist, þótt jeg hinsvegar verði að játa, að mjer finst það undarleg braut, sem hjer er verið að leggja út á. Jeg hefði talið það miklu æskilegra, þótt jeg vilji ekki lýsa yfir beinni andúð frá minni hálfu til þessa frv., ef það hefði verið hægt fyrir þá, sem stunda þennan atvinnurekstur, að stofna samvinnufjelag á frjálsum grundvelli, heldur en að taka til þeirra ráða, sem frv. ætlast til.

Jeg ætla ekki við 1. umr. þessa máls að fara að tala um einstök atriði þess. En jeg verð að geta þess, að mjer finst það mjög óheppilegt hve málið er seint fram komið, og vil láta óánægju mína í ljós út af því, þar sem jeg tel alveg óforsvaranlegt, að þingið hafi ekki nema eina viku til að athuga jafnþýðingarmikið mál.

Þótt jeg ætli ekki að blanda mjer inn í orðaskifti þau, sem farið hafa á milli hv. þm. Borgf. (PO) og hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh), þá verð jeg þó að segja það, að jeg get tekið undir margt af því, sem hv. þm. Borgf. sagði, og jeg sje ekki, að það hafi verið ástæðulaust. Ef þetta frv. á að ganga fram, þarf það mikilla breytinga við.

Mjer finst það vera þannig úr garði gert, að það tryggi betur hag hinna stærri atvinnurekenda en hinna smærri. T. d. þykir mjer nokkuð langt gengið í þá átt í 13. gr., þar sem það skilyrði er sett fyrir atkvæðisrjetti, að hafa selt 300 síldartunnur í fjelaginu. Einnig get jeg tekið undir það með hv. þm. Borgf., að það er eins og þeir, sem ætla að flytja út síld, t. d. næsta ár, eigi að vera rjettlausir, ef þeir hafa ekki flutt út á síðastl. ári. Það eru aðeins þeir, sem hafa þegar flutt út síld, sem hafa atkvæðisrjett.

Hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) sagði, að þetta ákvæði yrði að hafa. Annars gætu þeir, sem segðust ætla að flytja út síld, ráðið lögum og lofum í fjelaginu. Auðvitað væri það ekki ráðlegt að ganga svo langt að leyfa öllum, sem segðust ætla að flytja út síld, að hafa atkvæðisrjett í fjelaginu. En hjer mætti fara millileið. Það mætti krefja þessa menn sannana fyrir máli sínu og, ef þeir gætu sýnt þær, hefðu þeir atkvæðisrjett.

Hv. 2. þm. G.-K. neitaði því, að frv. liti fyrst og fremst á hag síldarspekúlantanna. Hann sagði, að þetta frv. væri einkum til hagsmuna fyrir framleiðendurna. Það er gott, ef því má treysta. En jeg hefi ekki fundið þá stefnu í frv., Það tekur aðeins til sölu síldarinnar til útlanda. Hinsvegar sje jeg engin ákvæði í frv., er tryggi það, að framleiðendur fái sannvirði fyrir vöru sína.

Það eru ákvæði um það í frv., að síldarútflytjendur skuli fá alt andvirði síldarinnar, sem fjelagið hefir selt, en þeir eru flestir kaupmenn, sem kaupa síldina af framleiðendum, og hvort þeir gefa framleiðendunnm sannvirði fyrir hana, það lætur frv. alveg afskiftalaust. Og jeg hygg, að eftir að slíkt fjelag væri stofnað, mundu síldarkaupmennirnir verða einráðir um verðið á nýrri síld, því útgerðarmennirnir gætu þá ekkert við hana gert, annað en selja kaupmönnunum.

Þótt jeg hafi nú gert þessa aths. við frv. eins og það liggur fyrir og gert fyrirspurnir til hv. flm. um það, þá ber ekki að taka orð mín svo, að jeg sje með því að taka afstöðu móti málinu. Jeg segi að svo stöddu ekkert um það, hvort jeg að lokum greiði atkvæði með eða móti málinu. Það fer eftir því, hvernig frv. lítur út þegar endanlega ákvörðun á að taka um það við 3. umr.

Jeg efast ekkert um, að tilgangur flutningsmanna þessa máls sje góður, og jeg viðurkenni fúslega, að hefjast þurfi handa til að bjarga þessum atvinnuvegi. En jeg efast um, að þetta sje besta leiðin til þess.