30.04.1926
Neðri deild: 66. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1970 í B-deild Alþingistíðinda. (1659)

110. mál, sala á síld o. fl.

Pjetur Ottesen:

Jeg ætla að minnast nokkrum orðum á ræðu hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh), þá, sem hann hjelt rjett áðan. En jeg get verið stuttorður, af því að hv. 3. þm. Reykv. (JakM) hefir árjettað rækilega ýmislegt af því, sem jeg sagði í gær um frv., og hv. 2. þm. G.-K. hafði lofað að taka til athugunar.

Hv. 2. þm. G.-K. sagðist hafa skilið mig svo, að rjett væri að leggja síldarútgerð niður. Jeg sagði það nú reyndar ekki en hitt sagði jeg, að mjer litist svo á þessa atvinnugrein, að enginn skaði hefði verið fyrir þjóðina, þótt hún hefði aldrei rekin verið. En jeg tók það fram, að eins og nú er komið er svo mikið fje bundið í þessum atvinnuvegi, að eigi verður hjá því komist að halda síldarútgerðinni áfram. Enda ber að líta svo á frv., að það sje tilraun til þess að bjarga því, sem bjargað verður.

Þá þótti háttv. 2. þm. G.-K. sú skoðun vera orðin nokkuð á eftir tímanum, að sígandi lukka væri best, því að nú yrði alt að ganga með járnbrautarhraða, eins og t. d. tekjur ríkissjóðs. Jeg neita því ekki, að ríkissjóði hefir áskotnast mikið fje af síldveiðunum, og ætti það því ekki að koma vel heim, að þjóðinni væri skaði að þessum atvinnurekstri. En jeg vil benda mönnum á það, að oft getur það verið tap frá þjóðhagslegu sjónarmiði, enda þótt ríkissjóður græði, ef atvinnurekendur tapa á því.

Hv. þm. áleit ekki þörf á að takmarka söltunina og sagði, að mikil vandkvæði væru á því, og má vera, að svo sje. Nú er það viðurkent, að það stendur síldarútgerðinni mest fyrir þrifum, að of mikið af saltsíld berst á markaðinn þegar mikið aflast. Þess vegna hlýtur það að vera eitt helsta viðfangsefnið, þegar um er að ræða endurbætur á síldarsölunni, að tryggja, að ekki berist of mikið á markaðinn. Þess vegna er nauðsynlegt, að stjórn þessa væntanlega fjelagsskapar hafi heimild til þess að takmarka, hvað mikið skuli saltað til útflutnings, því þó það sje vitanlega á valdi stjórnarinnar að senda ekki meira á markaðinn en góðu hófi gegnir, þá er ótækt að vera að binda mikið fje í salti og tunnum um þá síld, sem aldrei fer á erlendan markað í þeim umbúðum. Eins er það mjög óhyggilegt að vera að binda vinnukraft við það verk, sem svo aldrei kemur að neinu liði.

Jeg vil benda háttv. 2. þm. G.-K. á það, að í frv. því um síldarsamlag Íslands, sem lá fyrir þinginu 1921, voru hliðstæð ákvæði og talið, að þau væru einna veigamesti þátturinn í skipun þessara mála samkvæmt því frv. Þá barst þinginu skjal frá nokkrum útgerðarmönnum í Reykjavík um þetta efni, og var einn þeirra mjög nákominn háttv. 2. þm. G.-K., þar sem sjerstök áhersla var lögð á nauðsynina á því að reisa skorður við því, að of mikið væri saltað til útflutnings. Jeg held að höfuðgallinn á síldarsölunni nú sje sá, að of mikið sje saltað til útflutnings, og á því kýli þurfi að grípa. Hv. 2. þm. G.-K. sagði, að til mála gæti komið að setja takmörkun í þessu efni, en eigi slík takmörkun að styðjast við lögvernd, þá vantar alla heimild til hennar í frv. eins og það kemur frá hendi flm. Jeg gat þess í gær, að jeg væri hræddur um, að þetta frv. mundi ef til vill ekki ná þeim tilgangi sínum að útiloka leppmensku. Fyrirframsala er bönnuð, svo menn geta ekki aflað sjer rekstrarfjár með þeim hætti. Eftir þessu frv. geta því þeir einir rekið þessa atvinnu, sem fengið geta innlent fje, er nægir meiri hluta veiðitímans. En nú er innlent fje af skornum skamti og því fáir, sem þess njóta. Nú munu einhverjir vera búnir að tryggja sjer pláss til veiði og söltunar og semja um sölu. Mjer skilst, að þessir menn verði að gera annaðtveggja, hætta við atvinnureksturinn og gjalda skaðabætur fyrir að ganga frá samningum, eða selja útlendingum rjettindi sín og gerast staðgenglar þeirra. Jeg er ekki óhræddur um, að þetta kynnu einmitt að verða afleiðingarnar, og næði þá frumvarpið ekki þeim lofsverða tilgangi sínum að útiloka leppmensku. Jeg ætlast ekki til, að það verði tekið sem andúð gegn frv., þó að jeg bendi á þetta til athugunar. Þó að af þessu leiddi, að síldveiðin takmarkaðist eitthvað, væri ekkert við það að athuga, ef reksturinn færi ekki inn á þá hættulegu braut, sem jeg hefi bent á, og leppmenska færðist í aukana.

Viðvíkjandi athugasemd minni við 1. gr. sagði hv. 2. þm. G.-K., að hún yrði tekin til greina að því leyti, sem ófært þætti að útiloka þá, sem ráðið hefðu að stunda veiðar á þessu sumri. Hann tók fram, að erfitt mundi að greina milli manna, en auðvitað ætlast jeg til, að þeir einir fái inngöngu í fjelagið, sem sýnt geta svart á hvítu, að þeir hafi skilyrði til að vera í því. Þá er eftir að leyfa þeim, sem stunda veiði og selja aflann hjer, að eiga hlut að máli. Jeg skal benda á, til hvers þingið 1921 ætlaðist í þessu efni. Þar var ákveðið í frv. til laga um síldveiðifjelag Íslands eins og það var samþ. í Nd., að „hver sá, er veiða vill í landhelgi síld til útflutninga eða verka útflutningssíld í landi eða landhelgi, skal hafa til þess sjerstakt leyfi“ o. s. frv.

Þessir menn áttu einnig að vera með í því að sækja um leyfi og mynda fjelagsskap. Hv. þm. (ÓTh) sagði, að það væri ekki svo mikils virði að vera með í að mynda fjelagsskapinn, þar sem atvrh. ætti í fyrsta sinn að skipa stjórn fjelagsins. Það er víst nokkurs virði, því fjelagið á að gera tillögur og ráðh. að gefa út reglugerð með hliðsjón af þeim tillöguni. Jeg skal ekki deila um, hvort rjettara sje, að atkvæði fari eftir vörumagni eða höfðatölu. En samkv. frv. frá 1921 áttu allir fjelagsmenn að hafa jafnan atkvæðisrjett.

Jeg þarf ekki neinn að bæta við það sem jeg sagði í gær viðvíkjandi því, að þetta væri frekar gert fyrir útflytjendur en útgerðarmenn. Hv. 3. þm. Reykv. hefir skýrt það rækilega og einnig hv. 2. þm. Eyf. Jeg þarf aðeins að segja nokkur orð við hv. 2. þm. Reykv. Hann hneykslaðist á því, að jeg hefði talað hjer um landshornafólk og tók það mjög óstint upp. Þetta er gamalt orð í málinu (JBald: Það er notað í niðrandi merkingu.) og jeg held, að í því þurfi alls ekki að felast nein ill merking. Það er einmitt sannnefni um fólk, sem fer landshornanna á milli, og er alls ekki óviðeigandi orð. Þetta er áreiðanlega gott og gamalt íslenskt orð. Jeg held, að viðkvæmni þessa hv. þm. hefði heldur átt að koma fram í gær, þegar rætt var um að skattleggja kaupstaða- og kauptúnabúa um land alt til þjóðleikhúss í Reykjavík. Hefði það áreiðanlega setið betur á honum. Hv. þm. lítur svo á, að þær athugasemdir, sem gerðar eru við þetta frv., sjeu meðmæli með sínu frv. og viðurkenning fyrir því, að það sje betra. En það er mesti misskilningur. Megingallarnir á þessu frv. eru líka í frv. hans, og að sumu leyti meiri þar. Það er hvorki í þessu frv. nje hans stefnt að því meginatriði að takmarka söltunina. Þó skal játað, að frekar er viðleitni í þá átt í frv. nefndarinnar.