30.04.1926
Neðri deild: 66. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1977 í B-deild Alþingistíðinda. (1661)

110. mál, sala á síld o. fl.

Bernharð Stefánsson:

Jeg vildi aðeins segja fá orð, aðallega út af þeim ummælum, sem hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) beindi til mín. Hann sagði út af því, sem jeg mintist á „leppmensku“, að það væri ekki erfitt að þekkja leppana, en það væri ekki hægt að sanna leppmensku þeirra. Ef hægt er að þekkja þá, skilst mjer, að þeir hljóti að hafa eitthvert ákveðið einkenni. Hvernig stendur þá á því, að ekki er hægt að sanna sekt þeirra? Það væri fróðlegt, ef hv. þm. (ÓTh) vildi kenna mjer og öðrum að þekkja þessa menn.

Þá sagði sami háttv. þm., að kent hefði misskilnings hjá mjer og fleirum að því er frv. snerti. Frv. færi fram á að skylda menn til þátttöku því aðeins, að fjelagið yrði stofnað. Mjer fanst hann vilja telja það tryggingu fyrir því, að enginn yrði kúgaður. En þegar hæstv. atvrh. talaði, fanst mjer hann fallast á, að ekki þyrfti samkv. frv. nema 2 menn til að stofna fjelagið, og ef ráðh. vildi fallast á að veita fjelagi þessara tveggja manna einkasölu á síld og samþykti lög þess, þá yrðu allir aðrir að beygja sig undir það. Mjer skilst, að möguleikar sjeu til þess, að þetta fjelag geti orðið stofnað án þess að það hafi verulegt fylgi þeirra manna, sem í því eiga að starfa. Út af því, sem jeg vjek að þeim mönnum, sem ætluðu að salta, en ekki hefðu gert það áður, sagði hv. þm., að erfitt væri að sanna, hvað menn ætluðu að gera. Mjer fanst hann þó fallast á athugasemd mína og hann hafði góð orð um að athuga þetta í nefndinni, svo jeg fer ekki út í það frekar.

Þá hjelt hann því fram, að það væri misskilningur hjá mjer og fleirum, að þetta fjelag trygði betur hag síldarkaupmanna en síldarframleiðenda. Hann færði engin rök fyrir þessu önnur en þau, að ef síldarútflytjendur gerðu sig líklega til að okra, þá gætu þeir, sem veiddu, saltað síldina sjálfir. Já, það er auðvitað hægt að segja þetta, en með svipuðum rökum og sagt var við manninn, sem ekki náði hestinum sínum, að hann skyldi taka helv. hestinn og ríða honum. Mjer skilst, að það yrði erfitt fyrir æðimarga að breyta þannig til við atvinnurekstur sinn. Það þarf töluvert fjármagn til þess að salta síld, — og hvar eiga útgerðarmenn að fá nægilegt fje til þess? Þá hjelt hann því fram, að engum erfiðleikum væri bundið að stofna fjelagið; margir, sem eiga hlut að máli, hefðu athugað málið og væru ánægðir með frv. Jeg átti við, að erfitt væri fyrir Alþingi að átta sig í skjótri svipan á svo stóru máli rjett í þinglokin, samhliða því að taka ákvörðun í stærstu málum þingsins, bankamálinu og gengismálinu. Mjer finst tíminn vera heldur naumur bæði fyrir sjálfan mig og aðra hv. þdm. að taka endanlega afstöðu til þessa máls. Jeg vil auk heldur efast um, að þeir, sem þarna eiga einkum hlut að máli, sjeu búnir að athuga það eins nákvæmlega eða sjeu eins ánægðir með þetta skipulag eins og hv. flm. segja. Jeg veit til þess, að það eru til síldarútflytjendur, sem lítið vita um þetta mál, annað en að eitthvert frv. um síldarsölu sje komið fyrir þingið. En þeim hefir ekki verið kunnugt um efni þess. Jeg get ekki annað en látið í ljós óánægju mína yfir því, að frsm. nefndarinnar í þessu máli (BL) hefir ekki gert neina tilraun til þess að gefa mjer og öðrum þdm. þær upplýsingar, sem beðið var um. (BL: Jeg skal gera það við 2. umr.).

Áður en jeg skilst við þetta mál að sinni, vil jeg enn drepa á eitt atriði, sem hv. þm. Str. vjek að í ræðu sinni um þetta mál í gær. Hann vakti athygli á því, að um leið og málið væri afgreitt, þá yrði að gæta vel að því, að það kæmi ekki í bága við hagsmuni þjóðarinnar að öðru leyti nje í bága við þá samninga, sem vjer höfum gert við aðrar þjóðir. Þegar hæstv. atvrh. talaði, þá bjóst jeg við því að heyra eitthvað frá honum um þetta atriði, einhvern vott þess, að hæstv. stjórn hefði veitt þessu athygli eða vildi athuga það síðar. En þar sem jeg varð ekki var við neitt, sem benti til þess, að hæstv. atvrh. hefði neitt um þetta að segja, þá vil jeg taka undir með háttv. þm. Str. og minna enn á það, að hæstv. stjórn láti athuga þetta sem allra best. Jeg tel þetta mjög þýðingarmikið, og það gerum við sjálfsagt allir.