04.05.1926
Neðri deild: 69. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1994 í B-deild Alþingistíðinda. (1668)

110. mál, sala á síld o. fl.

Jakob Möller: Mjer þykir vænt um að sjá, að hv. nefnd hefir tekið til athugunar, að minsta kosti að nokkru leyti það, sem jeg hafði við frv. að athuga. 1. brtt. hv. meiri hluta nefndarinnar fer í þá átt að opna þetta fyrirhugaða fjelag fyrir þeim, sem stunda þennan atvinnuveg. Eins og frv. var, var það aðeins fyrir þá, sem söltuðu síld. Það er samt sá ljóður á þessari brtt., að þeir menn, sem nú eiga að fá inngöngu í fjelagið, verða atkvæðislausir, nema þeir jafnframt salti síld eða flytji hana út. Mjer finst enn sem fyr, að það hljóti að vera aðalatriðið að sjá borgið hag þeirra manna, sem stunda síldveiðar, en það er ekki tilgangur frv. í raun og veru, heldur eru þar látnir varða mestu hagsmunir þeirra manna, sem kaupa upp. Nú hafa hv. flm. viðurkent, að það sje ekki óframkvæmanlegt að haga fyrirkomulaginu meira með tilliti til sjálfra framleiðenda en verið hefir. Mjer skildist fyrst, að þeir hefðu ekki stílað frv. þannig, af því að einhverjir örðugleikar virtust vera á því að koma þeim mönnum inn í fjelagið. Nú hafa þeir breytt 1. gr. frv. En hví á þá ekki að breyta því líka þannig, að mennirnir fái atkvæðisrjett, sem virðist ofurauðvelt með því aðeins að miða atkvæðisrjettinn við tunnufjölda aflaðrar eða saltaðrar síldar? Þessu vil jeg skjóta til hv. nefndar að athuga fyrir 3. umr. Svo er annað við þetta að athuga, en það er það, að úr því að komið er inn á þessa braut, að víkka út fjelagið, skilst mjer það hljóti að vera óhætt, ef hjer er virkilega um nauðsynjamál eða jafnvel lífsspursmál þessa atvinnuvegar að ræða, að ákveða tölu þeirra manna, sem vilja hafa þetta fyrirkomulag, hærri en 20. Tala þeirra, sem veiða og salta síld, hygg jeg að verði nær 200, og sje svo, er hjer aðeins gert ráð fyrir tíunda hlutanum, sem á svo að ráða niðurlögum í þessu máli. Þetta er því frekar ástæða til að athuga, sem áskorun hefir komið frá útgerðarmannafjelagi Akureyrar, sem var lesin hjer upp í gær og hv. frsm. talaði um. Þar koma fram — enda var það skilið svo — eindregin mótmæli. Að vísu eru þau ekki nema frá 10 mönnum, en það eru þá væntanlega fleiri þar á staðnum, sem þetta mál varðar. Allir þessir 10 menn eru sammála um, að með þessari aðferð sje síldarútveginum teflt í ennþá meiri tvísýnu en nú er útlit fyrir. Hv. frsm. vildi draga úr þessu með því að benda á, að bein harðorð mótmæli gegn frv. hefðu verið feld með 5:3 atkv. En hv. frsm. tekur ekki tillit til þess, að það eru hans eigin kjósendur, sem eru að mótmæla frv., sem hann hefir flutt. Það er skiljanlegt, að kjósendur hans vilji ekki fara harkalega í sakirnar gagnvart sínum ágæta þm. Þeir efast ekkert um, að tilgangur hans sje að bæta hag þeirra. Hvernig mundi hv. frsm. haga orðum sínum, ef honum mislíkaði eitthvað við hæstv. stjórn? Ef hann beindi harðorðum mótmælum í hennar garð, mundi stjórnin skoða það sem vantraustsyfirlýsingu. Eins er um kjósendur hv. frsm. Þeir vilja ekki senda honum vantraustsyfirlýsingu, þó að þeir geti ekki orðið honum sammála um þetta frv. Mjer skildist, að hv. frsm. teldi þessa þrjá menn, sem greiddu atkvæði með mótmælunum, tæplega sjálfstæða atvinnurekendur. En þá eru eftir sjö, sem hv. frsm. efaðist ekki um, að væru sjálfstæðir atvinnurekendur. Meðmæli hafa hinsvegar ekki komið frá neinum að norðan. Hv. frsm. sagði, að Ísfirðingar væru ánægðir með þetta fyrirkomulag. Um það liggur ekkert fyrir. Jeg spurði af tilviljun mann, sem ætti að vera því kunnugur, um, hvort nokkuð lægi fyrir þaðan, og hann vissi ekki til þess.

Hv. frsm. sagði, að nefndin hefði fengið vitneskju um, að allir, sem hefðu sömu hagsmuna að gæta og þeir, sem frv. væri samið fyrir, litu eins á þetta mál. Það kann að vera, en jeg verð að leggja áherslu á, að um tvenskonar hagsmuni er að ræða: þeirra, sem „spekúlera“ í síld, og þeirra, sem veiða síld. Það mætti ætla, að þetta væru sömu hagsmunirnir, en svo gæti farið, að með því að stofna til þessarar einkasölu eða einræðis yfir útflutninginum yrði þrengt að þeim mönnum, sem ekki hafa tök á að salta síld sjálfir. Af þeim 200 mönnum — eða hátt á annað hundrað er óhætt að segja — sem gera út fleiri eða færri skip, eru aðeins fáir minn, sem hafa tök á að salta. En fjöldi þeirra, sem hafa keypt síld til söltunar, fær fje til þess frá útlöndum, í meira eða minna hreinum viðskiftum, enda gætu þeir ekki fengið peninga til þess í bönkum hjer. Ef einkasalan kæmist á, og þar með lokað fyrir þann möguleikann að fá fje frá útlöndum, yrðu ekki eftir nema örfáir menn, sem hefðu aðstöðu til þess að kaupa síld til söltunar, og þá mundi myndast enn þá þrengri hringur, sem hefði fullkomlega tökin á síldarverðinu innanlands.

Fyrir þessari hv. deild lá hjer um daginn frv. um einkasölu á tilbúnum áburði. Það mál snerti sjerstaklega bændur. Jeg veit ekki betur en að allir bændurnir í deildinni greiddu atkvæði með því frv. (BL: Ekki jeg). Jeg greiddi ekki atkvæði, af því að jeg sá, að bændur úr báðum aðalflokkum þingsins voru máli þessu fylgjandi. Þá sá jeg mjer ekki fært að greiða atkvæði á móti, þó að jeg í hjarta mínu sje á móti allri einkasölu. En af þessum sömu ástæðum verð jeg að gera kröfu til þess, að fram komi eitthvað almennari vilji fyrir þessu frv. heldur, en enn er kominn í ljós, til þess að jeg geti greitt atkvæði með því. Hv. frsm. greiddi atkvæði á móti þessu áhugamáli bænda um daginn, enda þótt allir aðrir bændur hjer í hv. deild greiddu atkvæði með því. Samt vill hann nú stofna til einkasölu, þó að hann fái ekki áskorun um það nema frá 2 mönnum, sem málið snertir. Það er ekki vel gott samræmi í þessu. Jeg get ekki að því gert, að mjer finst þetta mál liggja dálítið óþægilega fyrir, þar sem því er annarsvegar haldið fram, að hjer sje um lífsspursmál þessa atvinnuvegar að ræða, en hinsvegar þykir ekki fært að krefjast frekari upplýsinga um það, hver sje vilji þeirra manna, sem þarna eiga hagsmuna að gæta. Mjer finst, að á bak við þetta sje ótti um, að menn geti ekki fallist á, að það sje samrýmanlegt við þeirra hagsmuni. Jeg sje því ekki, hvernig hv. deild á að geta sætt sig við að afgreiða þetta mál, nema því aðeins, að um það komi ósk frá meiri hluta þeirra manna, sem hjer eiga hagsmuna að gæta, og á jeg þar einkum við framleiðendur, en ekki hina, sem kaupa. Meðal þeirra manna, sem stunda síldveiðar, þarf ekki að óttast leppmensku nema í örfáum tilfellum. Er því fjarri því, að hættan verði meiri á því, að lepparnir geti ráðið í fjelaginu með því móti. Jeg get ímyndað mjer, að því verði haldið fram af nefndarinnar hálfu, að á þessu sjeu einhverjir örðugleikar, en jeg trúi því ekki. Það ætti að vera hægðarleikur að skora á alla, sem ætla að stunda síldveiðar næsta ár, að tilkynna það og láta í ljós, hvort þeir vildu slíkan fjelagsskap. Jeg skil ekki þá afstöðu hv. nefndar, að geta ekki fallist á brtt. hv. þm. Borgf. Mjer finst það varða mestu að gæta hagsmuna þeirra, sem ætla að stunda útgerð áfram, en ekki hinna, sem hafa gert það. Það er ekki ástæða til að útiloka þá, sem einungis eru milliliðir, þó að jeg verði að álíta, að það sje minni hluti þeirra, sem hjer eigi verulegra hagsmuna að gæta. Um hinar aðrar brtt. nefndarinnar hefi jeg ekkert að segja. Þær fjalla aðeins um smávægileg fyrirkomulagsatriði.

Verði nú frv. samþykt svo breytt, verð jeg að leggja áherslu á það, að það er fullkomin óhæfa að útiloka þá framleiðendur frá atkvæðisrjetti, sem ekki salta síld, vegna þess, að hjer er ekki síður um að ræða þeirra hagsmuni en hinna. Til þess að veita þeim atkvæðisrjett þarf ekki annað en að breyta skilyrðunum þannig, að hann verði miðaður við tunnufjölda aflaðrar eða saltaðrar síldar. Út af síðari brtt. hv. þm. Borgf. vil jeg aðeins geta þess, að jeg hygg, að það sje rjett hjá hv. frsm., að erfitt verði fyrir menn að vita fyrirfram, hvernig markaðurinn verður, og því erfitt að ákveða, hve mikla síld megi salta, ef ómögulegt er að geyma síldina frá ári til árs. Sje það með einhverju móti hægt, væri öðru máli að gegna.