27.04.1926
Efri deild: 60. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 655 í B-deild Alþingistíðinda. (167)

1. mál, fjárlög 1927

Ágúst Helgason:

Jeg get haft góða samvisku af því, hve fingralangur jeg hafi gerst í ríkissjóðinn að þessu sinni, því jeg flyt hjer enga fjárbeiðni. Það eru aðeins þrjár brtt. frá hv. fjvn., sem jeg vildi gera að umtalsefni. Er þá fyrst brtt. á þskj. 402, 10. brtt., við 13. gr. B, X, um styrk til ferju á Hrosshyl. Hv. fjvn. leggur til, að þessi litli styrkur; sem samþyktur var í Nd., 300 kr., verði feldur niður. Jeg held, að ef hv. nefnd væri kunnug því, hvernig hjer hagar til, þá mundi hún ekki hafa lagt þetta til. Þetta er ferjustaður á Þjórsá, efst milli Gnúpverjahrepps og Landmannahrepps. Þarna fellur áin með miklum flaum fram úr gljúfrum, og er þarna stórgrýti mikið og ekki fært að ferja nema röskum mönnum. Ennfremur er ferjan langt frá bæjum og mesta umferðin um hásláttinn á dýrasta tíma, því þetta er á aðalferðamannaleiðinni frá Geysi að Heklu. Það er því dýrt fyrir ferjumann að stunda þarna ferju og bátar endast illa vegna stórgrýtis og straumþunga, svo jeg teldi fara vel á því, að till. yrði ekki samþykt.

Þá er 33. brtt. á sama þskj., við 16. gr. 3, um að athugasemdin við styrkinn til búnaðarfjelaga skuli falla niður. Þessi athugasemd er í fyrsta lagi sett til þess að sýna, hvernig skifta eigi styrk þessum milli búnaðarfjelaganna, og ef hún er feld, þá er ekki til neitt ákvæði um það, hvernig styrkurinn skuli skiftast — hvort hann skuli skiftast jafnt eða eftir fjelagsmannatölu, dagsverkatölu eða einhverju öðru. Mjer finst því aths. ekki mega missast. Síðan skilyrðinu fyrir styrknum var breytt þannig, að honum skyldi varið til sameiginlegrar starfsemi, en ekki úthlutað eins og öðrum styrk eftir II. kafla jarðræktarlaganna, þá hefir þessi styrkur gert alment gagn í þá átt að halda fjelagsskapnum saman. Jeg þekki vel til um það hvernig þessu var og er varið. Sum fjelög úthlutuðu styrknum milli fjelagsmanna eftir dagsverkatölu, og kom þá auðvitað lítið í hlut, þar sem styrkurinn var lítill, oftast innan við 20 au. fyrir dagsverk. En sum fjelög hafa varið þessum styrk til sameiginlegrar starfsemi innan fjelagsins, t. d. með því að halda uppi jarðabótaflokki, sem starfaði á fjelagssvæðinu, eða til þess að kaupa dýrari áhöld, sem væru eign fjelagsins, til afnota fyrir fjelagsmenn. Ennfremur til styrktar kynbóta- starfsemi o. fl. Jeg teldi því mjög illa farið að fella þessa athugasemd niður, því það er fengin full reynsla fyrir því, að þeim fjelögum vegnar betur, sem varið hafa styrk sínum til sameiginlegrar starfsemi.

Loks er 44. brtt., við 22. gr. 7, um að fella niður lánsheimild til Boga Þórðarsonar til spunavjelakaupa. Ástæðu nefndarinnar fyrir því, að með þessu sje sköpuð samkepni við verksmiðju, sem viðlagasjóður hafi áður lánað fje til, tel jeg ljettvæga og ekki að óttast slíkt, eins og hæstv. fjrh. (JÞ) tók fram. Mjer finst mikil þörf á því að styrkja innlendan iðnað, ekki síst þegar ástandið er þannig, að ullin liggur óseld og óseljanleg í landinu, en mjög mikið er flutt inn af unninni ull, t. d. bandi. Væri ólíkt betur farið að vinna bandið úr ullinni, þegar svona stendur á.