05.05.1926
Neðri deild: 70. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2005 í B-deild Alþingistíðinda. (1672)

110. mál, sala á síld o. fl.

Jakob Möller:

Það er nú orðið nokkuð seint að svara því sem sagt hefir verið hjer áður við þessa umr. Hv. frsm. furðaði sig á, að ef rjett væri það, sem jeg hefði sagt, að illa væri borgið hag framleiðenda, skyldi ekki hafa komið frá þeim mótmæli. Því er þar til að svara, að þeir eru dreifðir um land alt, hafa ekki ástæður til að kynna sjer málið og vita jafnvel ekki um frv. sumir hverjir. En ef frsm. og flm. eru sannfærðir um, að þetta sje atvinnurekendum til mikilla hagsbóta, ættu þeir ekki að vera hræddir við að gefa þeim kost á meiri hluttöku í fjelaginu en gert er ráð fyrir. Því hefir ekki verið mótmælt, að upp undir 200 menn hefðu skilyrði til að taka þátt í þessum fjelagsskap, svo það ætti að vera auðgert að fá fleiri en 20 menn til að fallast á að fara þessa leið. Það er einmitt þetta, sem mig greinir á um við hv. flm., að mjer finst ekki fært að setja lög um þetta efni, nema a. m. k. helmingur síldarútgerðarmanna vilji taka þátt í fjelagsskapnum. Háttv. frsm. sagði, að erfitt væri að ná til þessara manna. Mjer skilst að með einfaldri auglýsingu væri hægt að skora á menn að tilkynna stjórnarráðinu, hvort þeir ætli að gera út á síld í sumar og að láta uppi álit sitt um þetta efni, og ef meira en helmingur þeirra manna, sem gæfu sig fram, fjellust á frv., þá teldi jeg fært að láta málið ganga fram.

Jeg skal ekki deila við hv. frsm. um, hve vel væri borgið hagsmunum útgerðarmanna með þessu fyrirkomulagi. Líklega yrði lítil eftirspurn eftir síld fyrsta árið, en ef vel tækist með fjelagsskapinn, kynni það að breytast til batnaðar. Annars verð jeg nú að segja, að jeg er ekki ákaflega trúaður á, að slík einkasala gefist sjerlega vel. Mjer þykir ekki ólíklegt, að stofnað verði til einhverra mótbragða, sem erfið kynnu að reynast. Mjer þykir ekki víst, að síldarkóngarnir í Svíþjóð, sem hjer hefir verið gert svo mikið úr, sætti sig við að láta setja sjer stólinn fyrir dyrnar á, þennan hátt. Ef þeir eru svo fjesterkir, sem sagt er, ætti þeim að veitast auðvelt að reka veiðar utan landhelgi með enn fullkomnari tækjum en Norðmenn, og jeg gæti trúað, að erfitt reyndist fyrir Íslendinga að standast þá samkepni. Hv. frsm. gat fallist á þá breytingu, að útgerðarmenn, sem gengju í fjelagið, þótt þeir ekki söltuðu síld, fengju atkvæðisrjett. Annars gerði hann ekki mikið úr því gagni, sem þeir hefðu af atkvæðisrjetti, því þeir gætu ekki haft áhrif á verð nýrrar síldar. En þeir gætu þó a. m. k. haft áhrif á stjórn fjelagsins og þannig gætt hagsmuna sinna. Sem sagt, með þessu fylgir sú hætta, að þeir menn, sem fyrst og fremst vilja gæta sinna einkahagsmuna, fá aðstöðu til að ná valdi yfir fjelagsskapnum á einn eða annan hátt. Hv. frsm. var að óttast það, að Danir og Færeyingar ættu að koma til greina í þessum fjelagsskap. Vel gæti jeg hugsað mjer, að fjelagsskapurinn væri bundinn við búsetu hjer á landi. Jeg skil ekki annað en það væri fær leið. En hvort sem að því verður hallast eða ekki, þá er að minsta kosti engin trygging fyrir, að þeir komist ekki inn í fjelagsskapinn eins og til hans er stofnað með frumvarpinu óbreyttu, ef þeir aðeins fást við að salta eða flytja út síld. En til þess hafa þeir fullan rjett. Og eins og frv. var, þá er sannleikurinn sá, að það er engin trygging gegn því, að þeir menn, sem frv. er borið fram af ótta við, „lepparnir“, næðu ekki öllum tökum á fjelaginu. Ef það er rjett, sem mjer skildist á hv. frsm. bæði nú og fyr, að meiri hluti þeirra manna, sem salta síld, sjeu í raun og veru leppar, þá er bersýnilegt, að meiri hluti þeirra, sem komast í fjelagið, yrðu leppar. Það, sem á að bjarga þessu máli, er það, að hæstv. stjórn skipi stjórn fjelagsins. En eftir tvö ár á fjelagið að kjósa stjórn sína sjálft. Og með því fyrirkomulagi er engin trygging fyrir að leppar nái ekki tökum á því eins og áður, ef þeir sættu sig við fjelagsskapinn og biðu eftir tækifæri. Það er ekki ósennilegt, að Svíar hugsi sjer einmitt þá aðferð, ef þeir ekki gengju á móti þessu með einhverjum öðrum brögðum. Og þá er ekki sjáanlegt að þessi fjelagsstofnun geti orðið til mikilla heilla.