05.05.1926
Neðri deild: 70. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2013 í B-deild Alþingistíðinda. (1676)

110. mál, sala á síld o. fl.

Frsm. (Björn Líndal):

Vitanlega hefði flm. þessa frv. aldrei komið í hug að flytja það, hefðu þeir ekki verið sannfærðir um, að ekki kæmi til mála, að á neinn hátt yrði skertur lögmætur rjettur manna hjer á landi. Jeg bendi á þetta sjerstaklega í því sambandi, að þar sem Norðmenn eru taldir eiga rjett á að selja eitthvað af sínum síldarafla til þessa lands, þá eiga þeir enga kröfu til Íslendinga um að þeir kaupi. En það er ekkert í þessum lögum, sem bannar neinum íslenskum eða dönskum borgara, — sem hafa sama rjett og við —, að kaupa af Norðmönnum hjer eftir eins og hingað til. Jeg sje því ekki, að komið geti til mála, að Norðmenn hafi nokkra rjettmæta ástæðu til þess að kvarta.