27.04.1926
Efri deild: 60. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 657 í B-deild Alþingistíðinda. (168)

1. mál, fjárlög 1927

Ingibjörg H. Bjarnason:

Jeg vildi aðeins minnast á tvær brtt., sem jeg á á þskj. 418. Er þá fyrst 1. brtt. við 12. gr. 19, er jeg flyt ásamt hv. 3. landsk. (JJ), um styrk til Skúla Guðjörnssonar læknis, 3000 kr. til bætiefnarannsókna, með sjerstöku tilliti til lifnaðarhátta hjer á landi. Um það, sem fyrir okkur flm. þessarar tillögu sakir, skal það tekið fram, að eins og hv. þdm. er kunnugt, var feld till. um styrk til þessa manns við 3. umr. í háttv. Nd. Sá tillaga var nokkuð öðruvísi orðuð og þær af leiðandi ekki sambærileg. Að því er jeg best veit hefir þessi styrkþegi, sem hv. Nd. gekk svona frá, heldur ekki hlotið náð fyrir augum allra hv. þdm., og því miður heldur ekki hjá meiri hl. hv. fjvn. þessarar deildar. Jeg hefi áður haldið uppi svörum fyrir þessum styrkþega, af því að hjer er um gott mál að ræða, ekki síst þegar tekið er tillit til þess, hve brýn nauðsyn, er á slíkum rannsóknum hjer á landi. Það hefir verið sagt, jafnvel hjer í þessari hv. deild af frsm. fjvn., að með till. eins og hún var orðuð í hv. Nd. hefði verið stofnað til nýs embættis við háskólann, ef Skúla Guðjónssyni hefði verið veittur styrkur sá, sem þar var farið fram á. Þótt jeg persónulega álíti, að það væri ekki aðeins hættulaust, heldur beinlínis æskilegt, að stofnað yrði embætti við háskóla vorn í þeim fræðigreinum, sem Skúli Guðjónson læknir sjerstaklega hefir lagt stund á hin síðari árin, þá fer till. okkar flm. samt ekki fram á það. Hún gengur skemra og fer inn á annað svið.

Maður sá, sem hjer um ræðir, hefir, eins og kunnugt er, lagt stund á læknavísindi. Hann varð kandídat frá háskólanum hjer 1922, en 1923 fær hann styrk af ríkisfje til utanfarar. Fór hann þá til Þýskalands og var svo lánssamur, af því að hann var styrkþegi ríkissjóðs, að komast að á vísindastofnun í Berlín, þar sem hundruðum manna var synjað um upptöku. Nám sitt stundaði hann þar með dugnaði og álúð, og fór því þaðan með góðan orðstír. Að náminu afloknu í Þýskalandi fór hann til Danmerkur og hjelt þar áfram sjernámi sínu í heilsufræði, en lagði jafnframt stund á vísindalegar rannsóknir. En til þess að verða ekki of langorð, læt jeg nægja að vísa til þeirra tveggja rita, sem hann hefir sent fjvn. Alþingis. Og með leyfi hæstv. forseta ætla jeg að lesa upp titilinn á þeim.

Hið fyrra heitir: „Udskilles der Vitaminer gennem Huden?“ og kom út sem „Særtryk af Bibliotek for Læger“ í október 1925. Hið síðara heitir: „Om Echinokok-Sygdommens Overförelsesmaader til Mennesker.“ Þetta eitt, að Skúli Guðjónsson hefir samið þessar merkilegu ritgerðir, setti að vera nægileg sönnun fyrir því, að hann hefir notað bæði styrkinn og tímann mjög vel. Og hugsa jeg, að allir hv. deildarmenn skilji, að rannsóknir þær sem Skúli Guðjónsson vinnur að, eru ærið verkefni fyrir mann, sem hefir áhuga á því og er svo lánssamur að hafa komið auga á þörfina.

Það, sem fyrir okkur háttv. 3. landsk. vakir, eru rannsóknir Skúla Guðjónssonar á hinum svonefndu „vitamin“-efnum eða bætiefnum. Rannsókn þessara efna er, eins og kunnugt er, mjög ofarlega á dagskrá hjá öðrum þjóðum. Og sje svo, að ýmsar fæðutegundir okkar hjer sjeu ríkari af þessum bætiefnum en sambærilegar fæðutegundir annara þjóða, þá ætti það út af fyrir sig að vera nægileg ástæða til þess að láta mann þennan halda áfram rannsóknum sínum.

Annars var það ekki þetta vísindastarf, sem upphaflega vakti fyrir mjer, þegar jeg ljeði manni þessum mína liðveislu, heldur hitt, að hann lagði stund á heilbrigðisfræði, og jeg hjelt því, að hann gæti tekið góðan þátt í því mikla nauðsynjastarfi að koma heilbrigðismálum okkar í betra horf en þau eru nú, því að engum getur dulist, að þau eru eitt þýðingarmesta mál þjóðarinnar, þar sem velferð hennar í nútíð og framtíð byggist að miklu leyti á þeim.

Við flm. þessarar till. höfum nú eftir atvikum getað sætt okkur við það í bili, þó að Alþingi sjái sjer ekki fært að veita manni þessum þau laun, að hann geti hafið starf sitt í þágu heilbrigðismálanna. ýmist með fyrirlestrum eða sem ráðunautur stjórnarinnar í þeim málum. En við getum ekki sætt okkur við, að hann fái ekki að ljúka við bætiefnarannsóknir sínar. Viljum við því gefa honum tækifæri til að ljúka við þær að einhverju leyti, og berum því fram þessa tillögu í fullu trausti til skilnings hinna háttv. deildarmanna á þessu þýðingarmikla máli.

Mjer er persónulega kunnugt um, að hugur Skúla Guðjónssonar stendur til að koma hingað til lands eins fljótt og hann getur, og hefir hann mikla von um að geta notfært sjer rannsóknir sínar hjer í þágu sinnar eigin þjóðar.

Jeg veit, að flestum hv. deildarmönnum er kunnugt, að nú á síðari tímum hafa heyrst allháværar raddir um, að heilsufari hinnar yngri kynslóðar væri mjög að hnigna. Jeg hefi nú um nokkurt áraskeið haft tækifæri til að kynnast þessu og hefi einnig sannfærst um, að svo væri. Sömuleiðis hefi jeg átt tal um þetta við nokkra lækna, og hefir þeim öllum komið saman um, að ýmislegt benti til þess, að svo væri. Hafa þeir talið, að þetta mundi ef til vill stafa af breyttum lifnaðarháttum, þar sem búin til sveita selja svo mjög afurðir sínar, að viðurværið verður rýrara heima fyrir en það var áður. Væri nú með bætiefnarannsóknum hægt að ráða bót á þessu, þá væri það eitt með því þarfasta, sem hjer hefir verið unnið.

Því fer nú fjarri, að Skúla Guðjónssyni þyki gaman að þurfa að sækja um þennan styrk, því að í „privat“-brjefi segir hann, að sjer liggi við að harma það að hafa nokkurntíma fengið styrk þann til sjerfræðináms, er honum var veittur í fjárl. 1923, því að ef hann neyðist til að setjast að í útlöndum, þá líti svo út, sem hann hafi fengið styrk þennan til þess eins að leika sjer. En það telur hann sína einlægustu ósk að geta sest að hjer og látið íslensku þjóðina njóta kunnáttu sinnar. Jeg sje nú ekki, að hin ágæta læknastjett vor geti tekið að sjer fræðslu meðal almennings í heilbrigðismálum, sem þó ber brýna nauðsyn til. Væri því hjer starf fyrir slíkan mann sem Skúli Guðjónsson er, og eins og jeg tók fram áðan, er hann fús til að koma heim hvenær sem tækifæri býðst, og það þó að hann þyrfti að skifta kröftum sínum í fleiri staði. En þá þyrfti hann vitanlega að fá þau laun, sem hann gæti sómasamlega lifað af. Því hefir verið slegið fram, að ekkert væri eðlilegra en að Skúli læknir kæmi heim og settist hjer að sem praktiserandi læknir, eða fengi embætti. En það er nú svo með hann, eins og fleiri, að honum er ekki alveg sama á hvaða hillu hann lendir, eftir að vera búinn að verja miklum tíma, fje og kröftum til undirbúnings undir sjerstakt starf.

Annars harma jeg, að hv. fjvn. skuli ekki hafa getað orðið mjer sammála um þetta atriði.

Skal jeg svo ekki orðlengja þetta frekar. Vil þó að síðustu biðja hv. deildarmenn að hugsa sig um tvisvar, áður en þeir greiða atkvæði á móti till.

Þá á jeg enn brtt. á. þskj. 418, ásamt hv. þm. Vestm. (JJós). Hún fer fram á að veita Theódóru Sveinsdóttur dálítinn styrk til að koma á kenslu í matreiðslu hjer í borginni.

Það stendur nú alveg sjerstaklega á um konu þessa; bæði er hún alkunn fyrir dugnað og kunnáttu á þessu sviði og hefir margra ára reynslu að baki sjer við þessi störf.

Nú hefir hún í hyggju að koma hjer á kenslu í matartilbúningi fyrir þær stúlkur sjerstaklega, sem eru bundnar við störf fyrri hluta dagsins eða hafa ekki efni á að verja miklum tíma eða miklu fje til þessa náms. Það, sem fyrst og fremst vakir fyrir henni, er að gera stúlkurnar hæfari til að vera í vist hjá öðrum, og stuðla jafnframt að því, að þær verði fullkomnari húsmæður sjálfar en ella. Hún segir svo í umsókn sinni: „Það hefir lengi vakað fyrir mjer að koma upp kenslu hjer í bæ, eða halda námsskeið, er veitti stúlkum kost á að læra matreiðslu og um leið öll önnur algeng og nauðsynleg innanhússtörf, þannig, að þær að náminu loknu væru fullfærar um að annast öll heimilisstörf á hvaða heimili sem væri, hvort heldur sem vinnustúlkur hjá öðrum eða konur á eigin heimili.“

Ennfremur segir hún í umsókninni: „Matreiðslustörf mín í húsum einstakra manna mörg undanfarin ár hafa fært mjer heim sanninn um það, að á slíkri kenslu sje hin mesta þörf, enda oft leitað til mín, og jeg verið eggjuð á að stofna til slíkra námsskeiða, þótt enn hafi það ekki komist í framkvæmd. .... Kenslan mundi fara fram alt árið og kenslunni hagað þannig, að sem flestar stúlkur gætu notið hennar, og einnig þær — og ekki hvað síst — sem eru bundnar störfum fyrri hluta dags. Fyrir þær stúlkur mundu verða stofnuð sjerstök námsskeið síðari hluta dags, og kenslugjaldið hefi jeg hugað mjer að setja svo lágt, að jafnvel mjög efnalitlar stúlkur gætu risið undir því.“

Umsóknin felur í sjer í stórum dráttum alt það, sem taka þarf fram viðvíkjandi því, hvernig umsækjandinn hugsar sjer að haga kenslunni. Með þessari umsókn fylgja svo meðmæli 64 þektustu húsmæðra þessa bæjar, sem um mörg ár hafa notið aðstoðar þessarar konu við matreiðslustörf. Og ættu nöfn þeirra að vera nægileg trygging fyrir því, að hjer sje ekki um hjegóma að ræða.

Vænti jeg svo, að háttv. deildarmenn greiði atkv. með brtt. þessari, því að hún er áreiðanlega þess verð.