05.05.1926
Neðri deild: 71. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2016 í B-deild Alþingistíðinda. (1680)

110. mál, sala á síld o. fl.

Jón Kjartansson:

Jeg býst við, að fáir hefðu trúað því í þinglokin í fyrra, þegar síðasta einkasala ríkisins var kveðin niður, að hið sama þing ætti eftir að knýja fram einkasölufrumvarp, með afbrigðum frá þingsköpum, og það þegar á næsta ári. Maður hefði ekki búist við því þá, að einkasölufrv., í hverri mynd sem er, ætti afturkvæmt á Alþingi. En nú hefir reyndin orðið önnur, eins og háttv. þdm. hafa orðið varir við. Ekki er langt síðan samþykt var hjer í deildinni frv. um að veita Búnaðarfjelagi Íslands einkasölu á tilbúnum áburði, og í kvöld á svo að samþykkja heimild til að veita fjelagi einstakra manna einkasölu á útfluttri síld.

Áður en fundur þessi kom saman, sagði einn reyndasti þm., er nú á sæti á þingi, að einkasölufrv. gengju svo fljótt í gegnum þingið, að maður hefði ekki áttað sig á þeim fyr en þau væru orðin að lögum. Eru þetta orð að sönnu.

Jeg hefi ekkert lagt til þessa máls fram að þessu. Afstaða mín hefir verið sú, að jeg greiddi atkvæði móti frv. við 1. umr., en við 2. umr. ljet jeg það afskiftalaust. Jeg vil nú gera nokkra grein fyrir atkv. mínu.

En áður en jeg kem að málinu sjálfu, finst mjer rjett að minnast lítillega á eitt atriði, sem oft kom fram í ræðu háttv. frsm. (BL) bæði við 1. og 2. umr. Hann talaði mikið um fórn af hálfu sjávarútvegsins, einkum síldarútvegsins, til landbúnaðarins vegna kjöttollssamningsins norska. Mjer kom þetta mjög á óvart, því að jeg kannast ekki við, að Alþingi hafi látið neina fórn í tje. Mjer er óhætt að fullyrða, að þegar Alþingi lagði síðustu hönd á kjöttollssamninginn, þá var það ákveðið tekið fram, að að engu leyti skyldi haggað grundvallaratriðnm fiskiveiðalaganna. Og til þess að sanna mál mitt vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp nokkur orð úr tilkynningu stjórnarinnar um kjöttollssamninginn. Þar segir fyrst:

„Gegn þeirri niðurfærslu á kjöttollinum, sem áður hefir verið auglýst, hefir Norðmönnum verið heitið því, sem hjer greinir, um framkvæmd fiskiveiðalaganna m. m., um leið og það hefir verið tekið skýrt fram, að ekki væri unt að slaka neitt til á grundvallaratriðum fiskiveiðalöggjafarinnar, meðal annars því grundvallaratriði, að erlendum fiskimönnum er óheimilt að nota land eða landhelgi, beinlínis eða óbeinlínis, til þess að reka fiskiveiðar þaðan eða þar.“

Síðast segir svo:

„Þess er sjerstaklega getið, að engin tilslökun hefir verið gerð um veiði eða verkun eða umhleðslu í landhelgi eða á höfnum inni, og þá eigi heldur um verkun í landi eða flutning á veiði í land.“

Eins og hv. þdm. muna, voru það aðallega. 4 atriði eða ívilnanir, sem um ræðir í samningnum. Jeg ætla ekki að taka þau upp nú, því að þm. kannast víst við þau. En jeg vil minna á, að það var skýrt tekið fram af Alþingi, og þar á meðal hv. þm. Ak., að hjer væru engar nýjar ívilnanir á ferðinni og ekki aðrar en þær, sem útlendingar höfðu áður og hafa enn. Af þessu sjest, að það er ekki rjett hjá hv. frsm., að hjer hafi verið um fórn að ræða til landbúnaðarins vegna afgreiðslu kjöttollssamningsins. Alþingi ætlaðist a. m. k. ekki til þess, að nokkur slík fórn væri þar látin í tje. Hafi framkvæmd fiskiveiðalaganna farið á annan veg en Alþingi ætlaðist til, þá er það alls ekki af því, að Alþingi hafi í nokkru slakað til eða að það hafi fórnað neinu. Því verður þar engu um kent. (TrÞ: Hverjum er það þá að kenna?). Hverjum er það þá að kenna, spyr hv. þm. Str. Jeg veit ekki, hvort framkvæmd þessara laga er á nokkurn annan hátt en á að vera. En ef svo er, þá er það ekki að vilja Alþingis, að svo er, og þá fyllsta ástæða til þess, að Alþingi taki þessa hlið málsins til sjerstakrar athugunar.

Jeg taldi rjett, að þetta kæmi hjer fram, þar sem hv. frsm. hefir talað svo mikið um fórn í þessu sambandi:

Þá kem jeg að frv. því, sem hjer liggur fyrir. Jeg játa, að jeg hefi ekki þá þekkingu á þessum málum, sem æskilegt væri. Þó óttast jeg, að hv. flm. nái ekki öllu, sem þeir vildu hafa náð, með að fara þessa leið. Einnig óttast jeg, að mál þetta kunni að hafa hlið, sem snýr út á við.

Mjer hefir skilist, enda kom það skýrt fram bæði hjá hv. frsm. og einnig hjá hv. 3. þm. Reykv., að aðalvandræði þessa atvinnuvegar, síldveiðinnar og síldarverslunarinnar, væru hin sömu og víða á sjer stað með aðrar framleiðsluvörur okkar, sem sje þau, að markaðurinn er of þröngur, aðeins bundinn við eitt land, Svíþjóð. Þetta er alveg sama aðstaðan og var og er enn að miklu leyti með kjötið, þar sem kjötmarkaðurinn er einnig aðeins bundinn við eitt land, Noreg. En hvernig fór Alþingi að, þegar það vildi reyna að bæta úr vandræðunum með kjötmarkaðinn? Engum kom síst til hugar þá, að ríkið færi að taka einkasölu á kjöti, og því síður að það færi að fela fjelagi einstakra manna einkasölu á öllu kjöti. Nei, Alþingi fór þar aðra leið, og hárrjetta að mínu áliti. Það fól Sambandi íslenskra samvinnufjelaga að afla nýrra markaða fyrir kjöt og tók á sig kostnað þann, er af þessu leiddi. Og nú á þessu þingi hefir verið stigið enn stærra spor í þessa átt, þar sem lagt hefir verið fram mikið fje til byggingar kæliskips. Jeg hygg, að þessa eða svipaða leið hefði átt að fara hjer, en alls ekki að setja á einkasölu, hvorki ríkiseinkasölu eða einstakra manna, til þess að annast sölu síldar. Jeg tel það uppgjöf á stefnu hinnar frjálsu samkepni, ef þessi leið er farin. Það á að styrkja einstaka menn eða fjelög til þess að leita nýrra markaða.

Það má vel vera, að ýmsar aðrar umbætur þurfi að gera á síldarsölunni, en jeg fæ ekki skilið, að til þess þurfi einkasölu, heldur megi vel gera þær umbætur á annan hátt.

Á þinginu 1921 var svipað frv. á ferðinni í þinginu, sem fór fram á veitingu svipaðrar heimildar og þetta til handa stóru fjelagi. Þó var þar betur trygður rjettur hinna smærri útgerðarmanna en hjer er gert. En fyrir þessu frv. fór svo, að þegar það hafði gengið í gegnum Ed., var það gerbreytt. Var úr því orðin algerð ríkiseinkasala. Jeg vil ekki spá því, að eins fari í þetta sinn, en ekki kæmi mjer á óvart, að sá yrði endir málsins. Þó frv. fari út úr þessari hv. deild aðeins í heimildarformi, eða verði þannig afgreitt frá Alþingi, þyrfti engan að undra, þótt endirinn yrði algerð ríkiseinkasala eins og 1921. Mjer hefir virst, sem sigurbros leika um andlit hv. 2. þm. Reykv. (JBald) og vænti jeg, að það sje ef til vill fyrirboði þessara tíðinda.