05.05.1926
Neðri deild: 71. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2022 í B-deild Alþingistíðinda. (1682)

110. mál, sala á síld o. fl.

Bernharð Stefánsson:

Háttv. 3. þm. Reykv. hefir nú gert grein fyrir brtt. okkar á þskj. 505, og þarf jeg því ekki að ræða þær að mun. Jeg mun því aðeins fara nokkrum orðum um þær þeirra, sem sjerstaklega koma mjer við.

Þegar þetta mál var til 2. umr., hafði jeg kvatt mjer hljóðs, en fjell frá því aftur af sjerstökum ástæðum. Hafði jeg þá ætlað mjer að gera nokkrar athugasemdir við ræðu hv. frsm. (BL), en jeg get þá alveg eins notað þetta tækifæri til þess.

Hv. frsm. sagðist þá (við 2. umr.) ekki geta frætt mig meira um það, hvaða fylgi þessi fjelagsstofnun hefði meðal þeirra manna, sem atvinnuveginn stunda, en hann hefði þegar áður gefið upplýsingar um. En hann hjelt því hinsvegar fram, að málið hefði mikið fylgi meðal þeirra manna, sem aðeins hefðu innlendra hagsmuna að gæta, en hv. frsm. lagði engin gögn fram til sönnunar þessari staðhæfingu sinni, eða skýrði frá, hvernig hann hefði komist að raun um þetta. Hann játaði einnig, að það væri rjett, sem jeg hafði sagt, að erfitt væri að vita, hverjir það væru, sem aðeins hefðu innlendra hagsmuna að gæta, og hverjir ekki. En þá hygg jeg líka, að erfitt sje að segja, hvort fylgi við málið fer eftir þessu. Úr því að erfitt er að þekkja þessa tvo flokka (sauðina og hafrana), verður einnig erfitt að vita, hvort fylgið er eingöngu frá þeim heilögu.

Þá sagði hv. frsm. einnig, að þó teknir væru allir, sem þennan atvinnuveg stunda, hefðu ekki komið fram mótmæli nema frá einum 3 mönnum, en í dag hefir hv. frsm. þó bætt 2 nýjum mönnum við, samkvæmt nýjum uppýsingum, og verða þá mótmælendur 5 alls, samkv. sögn hv. frsm., og hann gat þess líka, að hann mundi ekki hafa látið undan, þótt þeir hefðu verið 30, sem mótmæltu frv. hans. En við þetta er það að athuga, að það liggja heldur engar upplýsingar fyrir um, að nein meðmæli hafi komið fram. Því eftir því, sem þinginu er frekast kunnugt um, hafa enn til þessa tiltölulega fáir af þessum atvinnurekendum látið uppi álit sitt um þetta mál. Annars verð jeg að segja það, að jeg legg annan skilning í samþykt útgerðarmannafjel. á Akureyri en háttv. frsm., og jeg lít svo á, að fjelagið sje að minsta kosti ekki fylgjandi þessu máli, og að því leyti er jeg sammála hv. 3. þm. Reykv., að jeg eins og hann tel símskeytið frá Akureyri frekar mótmæli en meðmæli með frv.

En svo höfum við þm. Eyf. nýlega fengið skeyti frá stjórn útgerðarmannafjelagsins á Siglufirði, þar sem hún mótmælir þessu frv. Mjer skilst, að þetta skeyti sje sent fyrir hönd alls fjelagsins, fyrir hönd nær allra útgerðarmanna á Siglufirði. Jeg tel því ekki rjett, að það sjeu aðeins 5 menn, sem hafi mótmælt frv.: hitt er víst, að þeir eru miklu fleiri. Jeg veit að vísu ekki, hversu fjölment útgerðarmannafjelagið á Siglufirði er, en fleiri munu þó í því vera en stjórnin ein. Samkvæmt þeim gögnum, sem þegar liggja fyrir í þessu máli og jeg veit um, verð jeg því að líta svo á, að það sje mjög vafasamt, hvort fjelagsstofnunin hefir meirihlutafylgi rjettra aðilja. En eins og jeg hefi áður tekið fram, verð jeg að telja það skilyrði fyrir því, að fjelagið komi að tilætluðum notum. Nokkuð öðru máli væri að gegna, ef hjer væri um ríkiseinkasölu að ræða. Þá þyrfti ekki að taka eins mikið tillit til vilja þeirra, sem hlut eiga að máli, því að stjórn fyrirtækisins væri þá í höndum ríkisins. En hjer er um fjelagsstofnun að ræða, og fjelagið á sjálft að ráða sínum málum, þegar stundir líða. En hvernig getur sá fjelagsskapur blessast, ef meiri hluti fjelagsmanna er nauðugur í fjelaginu?

Svo að jeg víki aftur að mótmælum Siglfirðinga, skildist mjer á hv. frsm., að hann vildi ekki taka mikið tillit til álits þeirra: því þó hagur allra Siglfirðinga væri bundinn við síldina, þá væri það þó tiltölulega lítið við síldveiðar þeirra sjálfra, heldur við ýmislegt annað. Hv. frsm. nefndi útsvör í því sambandi o. fl. Mjer þykir nú undarlegt, ef ekki á að taka neitt tillit til þeirra manna, sem eiga allan sinn hag undir síld, eins og hv. frsm. orðaði það, og þá sjerstaklega til álits síldarútgerðarmanna, þó að þeir eigi heima á Siglufirði. Jeg skal taka það fram, að þótt jeg sje af sumum kallaður þm. Siglfirðinga, geri jeg ekki kröfu til, að tekið sje meira tillit til Siglfirðinga en annara, sem hlut eiga að máli, en jeg verð að krefjast þess, að þeir njóti jafnrjettis á móta við aðra og vilji þeirra tekinn til greina jafnt og annara. Hv. frsm. tók það fram til að forðast misskilning, að hann sagði, að hann væri alls ekki að bera útgerðarmönnum á Siglufirði leppmensku á brýn, og er þá af þeirri ástæðu engin ástaða til að taka ekki fullt tillit til álits þeirra.

Vegna þessa vafa um fylgi rjettra aðilja við málið tel jeg of lítið, að einir 20 menn geti skyldað alla aðra til að ganga í fjelagið eða hlíta gerðum þess. Jeg tel það ekki mega minna vera en helming allra, sem þessa atvinnu stunda, og þess vegna hefi jeg gerst meðflm. að brtt. á þskj. 505 við 1. gr. frv. Jeg get ekki skilið, að máli þessu þurfi að verða það eitt að falli, þó brtt. þessi verði samþykt, ef það á annað borð hefir það fylgi atvinnurekenda, sem af er látið. Það ætti því ekki að geta neitt ilt af því hlotist, þó að svo sje ákveðið, að helmingur þessara atvinnurekenda verði að taka þátt í fjelagsstofnuninni, ef veita á fjelaginu algerða einkasölu á síld. Þess vegna tel jeg nauðsynlegt, að þessi brtt. okkar verði samþykt.

Jeg hefi áður bent á það, að frv. er svo seint fram komið, að engin tök eru á að athuga það sem skyldi, þegar um slíkt stórmál er að ræða sem þetta. Jeg hefði því talið rjettara að samþykkja till. frá hv. 2. þm. Árn. (JörB) um skipun milliþinganefndar til að athuga þetta mál, og jeg tel ekki forsvaranlegt að samþykkja frv., nema brtt. okkar hv. 3. þm. Reykv. verði samþykt.

Út af því, sem jeg talaði um, að fjelagið hefði ekkert fje til umráða í byrjuninni, játaði hv. frsm., að það gæti verið óþægilegt og sagði, að vel mætti bæta úr þessu með reglugerð. Nefndin hefir þó ekki gert neitt til að ráða fram úr þessu. Jeg hefi aðeins bent á þetta, en sje svo ekki ástæðu til að skifta mjer af þessu frekar.

Þá kem jeg að þeim brtt. á þskj. 505, sem jeg ber sjerstaklega fram, um að varnarþing og heimilisfang fjelagsins skuli vera á Siglufirði, í stað Akureyrar. Þetta var eitt af því, sem jeg vjek að við 2. umr., og jeg spurði þá, hvers vegna þetta ákvæði hefði verið sett þannig í frv.

Hv. frsm. sagði, að um þetta mætti deila í það óendanlega, og hann færði engin rök fyrir hví, að Akureyri væri sjálfsagður staður til þessa. En þessi tillaga mín byggist á því, að Siglufjörður er, eins og kunnugt er, miðstöð þessa atvinnuvegar, og tel jeg því eðlilegast, að heimili og varnarþing fjelagsins sje þar og álít, að þar mundi aðstaðan verða hægust. Hinsvegar viðurkenni jeg, að þetta er ekki svo stórt atriði, að bein ástæða sje til að gera það að kappsmáli; en úr því að ekki hafa komið fram neinar ástæður fyrir því, að annar staður sje betri, vildi jeg ekki láta undir höfuð leggjast að bera fram þessa brtt.

Þá hefi jeg óskað eftir, að nefndin tæki til athugunar beiðni, sem mjer hefir borist úr mínu kjördæmi, um að undanskilja einkasöluákvæðunum kryddsíld og aðra síld, sem verkuð er á alveg sjerstakan hátt, svo sem sykursaltaða, flatta og linsaltaða síld. Jeg fjekk leyfi hv. nefndar til að koma á fund til hennar og ræða þetta atriði við hana þar. Hv. nefnd kvaðst mikið hafa um þetta mál hugsað, en kvaðst þó ekki sjá sjer fært að taka þetta upp í frv. og vildi ekki fallast á ástæður þær, sem jeg bar fram. Jeg sá því, að það var ekki til neins að bera fram brtt. um þetta efni gegn eindregnum vilja nefndarinnar.

Jeg tel, eins og jeg þegar hefi tekið fram, forsvaranlegt að samþykkja þetta frv., ef aðalbrtt. mínar og hv. 3. þm. Reykv. verða samþyktar, en verði þær ekki samþyktar, mun jeg greiða atkvæði á móti frv. Milliþinganefnd hefði verið æskileg í þessu máli, til þess að það kæmi þá, betur undirbúið og athugað fyrir næsta þing, og jeg tel ekki líklegt, að það velti á mjög miklu, hvort þessar ráðstafanir verða gerðar í ár eða næsta ár. En ef hv. deild vill láta þetta mál ganga fram nú á annað borð, þá vona jeg, að hún fallist á brtt. okkar hv. 3. þm. Reykv., því með því eina móti álít jeg, að frv. megi ganga fram nú.