05.05.1926
Neðri deild: 71. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2036 í B-deild Alþingistíðinda. (1687)

110. mál, sala á síld o. fl.

Jakob Möller:

Þótt jeg vissi, að ekki mundi blása byrlega fyrir brtt. á þskj. 505, þá þykir mjer furðulegt, hve veigalitlar ástæður hafa komið fram gegn þeim. Ef háttv. flm. frv. hafa trú á því, að þetta mál hafi fylgi meðal síldarútgerðarmanna, þá virðist eiga að vera vandræðalítið að fá helming þeirra til þess að ganga í fjelagið. Þeir segja, að enginn tími sje til þessa, en þarna liggur á bak við ótrú þessara manna á því, að fjelagsskapurinn verði almennur og hún veikir afstöðu þeirra í mínum augum. Það er háttv. flm. að kenna, ef ekki er nægur tími til að koma málinu sæmilega í framkvæmd. Það er þeim að kenna, að frv. er svona seint á ferðinni, og er það þegar næg ástæða til að fresta því að þessu sinni. Hinsvegar hygg jeg, að einn mánuður ætti að nægja til þess að leita álits manna um málið um land alt, og yrði þá enn 1½ mánuður þangað til síldveiðar ættu að byrja, svo að þessi mótbára háttv. frsm. er ljettvæg, þó að auðvitað væri æskilegra, að undirbúningstíminn hefði getað verið lengri.

Hv. frsm. sagði, að samþykt þessa frv. væri skilyrði fyrir því, að gert yrði út á síld í sumar. Jeg held nú satt að segja, að útgerðin yrði lítil ef þessi fjelagsskapur kæmist á fót, enda hefir háttv. frsm. viðurkent það í öðru orðinu, að síldveiði mundi verða lítil, ef frv. yrði samþykt.

Jeg sje þess vegna enga ástæðu til þess að falla frá brtt. minni, og er samþykt hennar skilyrði fyrir því, að jeg greiði frv. atkvæði. Og jeg fæ ekki sjeð, hvernig hv. deild ætlar að leyfa þetta fyrirkomulag, þvert ofan í vilja þeirra, sem atvinnureksturinn stunda, eða án þess að vita um vilja þeirra.

Hv. frsm. rekur altaf tærnar í, þegar hann er að tala um, hverjir eigi að hafa atkvæðisrjett í fjelaginu. Nú vill hann ómögulega, að þeir, sem veiða síld til bræðslu, fái þar atkvæðisrjett, en jeg fæ ekki sjeð að nein minsta ástæða sje til þess, að undanþiggja þá atkvæðisrjetti. Það er auðvitað, að verðlag á bræðslusíld fer mjög mikið eftir því, hvert verðlag er á útflutningssíld, og eiga þeir því sömu hagsmuna að gæta og þeir, sem veiða til útflutninga. Tel jeg því, að brtt. við 3. gr. megi samþykkja, en hún hefir engin ákvæði um neinar undantekningar í þessu efni.

Í sambandi við símskeytið frá Siglufirði, sem háttv. frsm. hefir talað mjög óvirðulega og raunar ósæmilega um, skal jeg vekja athygli á því, að „Hinar sameinuðu ísl. verslanir“ hafa sömu hagsmuna að gæta eins og aðrir, sem þennan atvinnuveg stunda. (TrÞ: Eru þær ekki meðeigendur að Morgunblaðinu?). Það veit jeg ekki, en jeg hefi aldrei heyrt það, að þær væru leppar. (BL: Hver hefir sagt það?). Verslanirnar veiða síld og hafa til þess sama rjett eins og aðrir gjaldþegnar þessa lands. Hina útgerðarmennina þekki jeg ekki svo, að jeg geti neitt fullyrt um atvinnurekstur þeirra, en það skiftir í raun og veru litlu, því að undir skeytið hafa þeir skrifað ekki aðeins fyrir sína hönd, heldur sem stjórn útgerðarmannafjelagsins, og það er ósæmilegt að vjefengja það, að þeir hafi gert það í fullu umboði fjelagsins, því að annars væri um fals að ræða.

En hinn mátti búast við, er mótmæli komu frá Siglufirði, að hv. frsm. reyndi að gera lítið úr þeim.