27.04.1926
Efri deild: 60. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 662 í B-deild Alþingistíðinda. (169)

1. mál, fjárlög 1927

Frsm. samgmn. (Jóhann Jósefsson):

Það er aðeins ein brtt. fjvn., sem jeg vildi gera að umtalsefni. Það er till. um öldubrjótinn í Bolungarvík; þar sem nefndin leggur til, að feldar sjeu niður þær 5000 kr., sem háttv. Nd. setti inn í frv. til viðhalds þessu mannvirki. Byggir nefndin þessa till. sína á því, að á síðasta þingi var Hólshreppi veittur styrkur í eftirgjafarformi, með því skilyrði, að hann kostaði viðhald öldubrjótsins eftirleiðis. En eftir því sem jeg best veit, þá mun vera svo um þetta mannvirki, eins og svo mörg önnur hjer á landi, að ýms mistök hafi verið á framkvæmd þess í byrjun, og það því leynst dýrara en upphaflega var gert ráð fyrir. Finst mjer því vera fyllilega ljóst, að jafndýrt mannvirki eins og öldubrjóturinn er, þar sem hreppurinn einn mun vera búinn að verja til hans yfir 100 þús. kr., megi undir engum kringumstæðum láta eyðileggjast. En ástandið mun vera þannig nú, að hann er þegar orðinn stórskemdur og liggur undir ennþá meiri skemdum, og getur því farið svo, að hreppurinn verði að gefast upp við viðhald hans. Tel jeg því fásinnu eina, ef ríkissjóður hleypur ekki undir bagga nú til þess að koma í veg fyrir meiri eyðileggingu.

Þrátt fyrir það, þó að jeg skilji vel, hvað fyrir hv. fjvn. vakir í þessu efni, get jeg ekki fallist á till. hennar og verð að mæla á móti því, að hún verði samþykt, og vænti því, að það verði látið standa óbreytt, sem hv. Nd. var búin að gera í þessu máli.

Það er ekki nema eðlilegt, að þeir skilji þetta best, sem hafa haft fyrir augum verk af slíku tægi, sem fyrir mistök í upphafi hafa stóreyðilagst. Að horfa á svona framkvæmdir eyðileggjast löngu fyrir tímann, einungis fyrir óforsjálni þeirra manna, sem almenningur hlaut að trúa fyrir þeim, er hart fyrir þau hjeruð, er hlut eiga að máli.

Þá vil jeg víkja nokkrum orðum að brtt. þeim, sem jeg er annaðhvort einn flm. að eða ásamt öðrum.

Vil jeg þá fyrst og fremst fyrir hönd samgmn. gera grein fyrir því, að hún hefir ekki sjeð sjer annað fært en leggja til, að rekstrarstyrkur til flóabátaferða verði hækkaður að töluverðu leyti. Um ástæður fyrir því vísast til nál. á þskj. 414 að mestu leyti. Það, sem mest veldur þessari hækkun, er styrkur til bátaferða á Eyjafirði. Að styrkur til þessara ferða kemur ekki fram fyr en nú; er sökum þess, að erindi til þingsins frá sýslunefnd Eyjafjarðarsýslu viðvíkjandi styrk þessum kom svo seint, að samgöngnmálanefnd hv. Nd. gat ekki haft það til meðferðar áður en hún skilaði till. sínum. En eins og allir hljóta að sjá, getur ekki komið til mála að neita þessu sýslufjelagi um styrk, þegar tekið er tillit til þess, hvað önnur sýslufjelög fá til þessara ferða.

Ennfremur mælir nefndin með að hækka dálítið styrkinn til „Skaftfellings“, og er það gert með tilliti til þess, að það á að bæta við bát þennan viðkomum á Eyrarbakka og Stokkseyri.

Þá fanst nefndinni óhjákvæmilegt að hækka styrkinn til Hvalfjarðarbátsins. Það lágu svo skýr og ljós rök fyrir nefndinni um þetta frá hreppstjóranum í Hvalfjarðarstrandarhreppi, að hún hlaut að fallast á það, að það minsta, sem þessi bátur gæti komist af með, væri upphæð sú, sem greinir í nál.

Til ferða milli Grímseyjar og lands vill nefndin hækka styrkinn lítið eitt. Þeim eru ekki ætlaðar nema 200 kr. En Grímseyingar eru mjög afskektir, og þótt varið væri 800 kr. til þess að þeir geti haft lítilfjörlegar samgöngur við meginlandið, þá veitir þeim sannarlega ekki af því.

Jeg ætla svo ekki að segja meira um þetta fyrir hönd nefndarinnar. Jeg vona, að hv. frsm. fjvn. geti fallist á þær ástæður, sem jeg hefi fært fram, svo að ekki þurfi að deila um þær.

Jeg á nokkrar brtt. á þskj. 418, sem jeg vildi minnast á.

Hv. deildarmenn kannast við söngvarann Sigurð Skagfeldt. Jeg veit, að legið hafa beiðnir fyrir Alþingi um styrki til ýmsra söngvara, og virðist það hafa verið reglan að veita þeim einhvern styrk, en þeirri reglu hefir ekki verið fylgt hvað snertir Skagfeldt, því að hann hefir ekkert fengið. Þó mun hann vera kunnari en margir aðrir, sjerstaklega á Norðurlandi, þar sem hann hefir ferðast um til þess að syngja. Jeg skal játa, að jeg hefi ekki hæfileika til þess að gera upp á milli þessara manna, en hvað snertir Skagfeldt, þá veit jeg, að menn, sem hafa gott vit á söng og bærir eru að dæma um hann, telja þennan mann einna fremstan þeirra manna, sem nú eru að læra að syngja. Hann hefir verið nokkur ár við þetta nám og lýkur því í vor á óperuskólanum í Kaupmannahöfn. Og mjer er sagt, að hann sje talinn mjög efnilegur söngvari. Hann bjóst við að láta fylgja styrkbeiðni sinni meðmæli frá Kapelmester Höeberg, en þá vildi svo illa til, að hann var veikur, og Skagfeldt gat ekki fengið þau meðmæli skriflega, sem hann hafði búist við að fá.

Þessi listamaður hefir brotist áfram af eigin ramleik og með styrk vina og vandamanna. En hann treystist ekki til þess að halda lengur áfram námi, nema með opinberum styrk. Og þessa beiðni ber hann fram með það fyrir augum að geta farið til París í vor til framhaldsnáms.

Þá hefi jeg komið fram með aðra brtt., undir VIII. lið á sama þskj., sem er líka þess efnis að styrkja mann, sem er ytra, til framhaldsnáms. En það er á öðru sviði en því, sem jeg nefndi áðan. Hjer ræðir um ungan mann, sem er að læra að verða það, sem á íslensku mætti kallast spunameistari, og er í því fólgið að læra að stjórna og segja fyrir um allan tilbúning á fatadúkum og vera öðrum til fyrirmyndar á því sviði. Þessi maður, Ólafur Guðmundsson frá Þyrli, er búinn að vera 3½ ár á Álafossi, kom þangað 16 ára gamall, og yfirmaður verksmiðjunnar, Sigurjón Pjetursson, hafði svo mikið álit á honum, að hann hvatti hann til þess að fara utan til að læra þessa iðn. Sigurjón hefir haft útlenda spunameistara, en þeir eru tregir til þess að kenna út frá sjer, sem skiljanlegt er, því að það er best fyrir atvinnu þeirra, að Íslendingur læri ekki þeirra „kúnstir“.

En það er alveg ljóst, að í hverri iðnaðargrein, sem við tökum okkur fyrir hendur, er það aðeins tímaspursmál, hve lengi við getum haft útlenda menn sem trúnaðarmenn. Við þurfum að ala upp innlenda menn í þessar stöður; við þurfum þeirra út á við og engu síður hjer heima. Hjer er að ræða um ungling, sem kemur þetta snemma að verksmiðjunni og kynnir sig þar svo vel, að húsbóndi hans hvetur hann til þess að læra ytra. Og húsbóndi hans hefir stutt hann til þess; hann hefir verið 1 ár við verksmiðju í Danmörku og er í vor búinn að læra alt það „praktiska“, en verður svo að fara til Þýskalands til þess að fullnuma sig í iðn sinni, læra hið „teoretiska“ og ljúka námi sínu, svo hann geti heitið meistari og geti stjórnað því vandaverki, sem spunameistara við slíka iðn er ætlað. En til þess að hann geti lokið námi, er nú sótt um 1500 kr. styrk til hans af opinberu fje. Jeg get tekið það fram, að hann er mjög reglusamur maður og vandaður í hvívetna. En hann þarf fleiri mánaða dvöl í Þýskalandi til þess að geta lokið prófi. Að því loknu á hann vissa stöðu á Álafossi.

Jeg vona, að hv. deildarmenn stuðli að því, að þessi maður geti lokið námi sínu og geti komið heim til þess að verða þjóð sinni að gagni.

Jeg þarf ekki að fjölyrða um brtt., sem jeg flyt ásamt hv. 4. landsk. (IHB), um styrk til Theodóru Sveinsdóttur, því að hv. þm. hefir talað svo vel fyrir henni. Jeg hygg, að öllum hv. deildarmönnum sje það kunnugt, að hjer er um að ræða mæta konu og gegna, og er mikil von til þess, að stúlkur, sem hjá henni læra, geti haft mikið gott af því.

Þá flyt jeg ásamt hv. 3. landsk. (JJ) brtt. um eftirgjöf á viðlagasjóðsláni Ólafs Hvanndals myndamótara. Þingið hefir að vísu tvisvar neitað um eftirgjöf á þessu láni; en allir vita þó, að maðurinn, sem hjer ræðir um, berst í bökkum með iðn sína. En hitt er vitanlegt, að við getum illa verið án myndamótagerðar, því að hún hefir verið mjög þarfur liður í bóka- og blaðaútgáfu upp á síðkastið. Og þar sem hjer er um að ræða brautryðjanda, sem ræðst í gagnlegt verk, er ekki getur gefið af sjer svo mikið, að hann geti lifað af því, þá finst mjer sanngjarnt, að hið opinbera veiti honum eftirgjöf á þessu láni, svo að hann geti áhyggjulanst haldið áfram sinni þörfu iðn.

Á sama þskj. er ennfremur tillaga, þar sem jeg fer fram á, að ríkið ábyrgist alt að 60 þús. kr. lán til stækkunar og endurbóta á rafmagnastöðinni í Vestmannaeyjum. Kæmi það til, að Alþingi vildi veita þetta, er hjer í raun og veru aðeins um endurveitingu að ræða, þar sem í fjárlögum fyrir árið 1924 stóð heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að ábyrgjast alt að 80 þús. kr. lán í þessu skyni. En ástæðan til þess, að þetta lán var ekki brúkað þá, var sú, að bæjarstjórninni fanst dýrtíðin ekki hafa minkað svo, að leggjandi væri út í þetta verk, meðan byggingarefni var að falla. En kaupstaðurinn hefir vaxið svo ört síðan, að nú er ekki unt að draga það lengur að stækka stöðina. Hún hefir starfað með aðeins 50 hestafla mótor, og nægir það afl ekki til hálfs fyrir kaupstaðinn. Þess vegna hefir bæjarstjórnin viljað stækka stöðina og fer fram á, að ríkið endurnýi þetta gamla loforð.

Jeg veit að vísu, að ábyrgðarheimildir eiga nú heldur örðugt uppdráttar á Alþingi, en það ættu þó að vera meðmæli með bæjarfjelaginu að hafa ekki notað heimildina, af því að hagkvæmara þótti að draga framkvæmd verksins þangað til það sæi sjer það fært, og betra að bíða ódýrari tíma. Þetta eru áreiðanlega meðmæli, og svo er ekki farið fram á, að upphæðin verði sú sama, heldur allmiklu lægri.

Þá á jeg aðeins óminst á eina brtt. á sama þskj., VIII,3, um það, að í stað „helming kostnaðar, alt að 17500 kr.“ til vegarins í Vestmannaeyjum, komi 2/3 kostnaðar, alt að 26250 kr.

Jafnhliða því, að kaupstaðurinn hefir stækkað og fólkinu hefir fjölgað hefir það komið í ljós, að mjólkurþörfin er meiri en hægt er að fullnægja, því að Eyjarnar eru hvergi nærri því eins vel ræktaðar og skyldi. Í hitteðfyrra var stofnað búnaðarfjelag í Eyjum og fyrir forgöngu þess var Sigurður Sigurðsson búnaðarmálastjóri fenginn til Vestmannaeyja til þess að athuga ræktunarmöguleika þá, sem þar eru fyrir hendi. Hefir hann samið ítarlega og mjög glögga ritgerð um útlitið fyrir ræktun í Eyjum, og hefir þessari ritgerð verið útbýtt meðal hv. deildarmanna. Vildi jeg, með leyfi hæstv. forseta, mega lesa upp fáein atriði úr þessari ritgerð, þar sem Sigurður Sigurðsson rökstyður nauðsynina fyrir meiri ræktun Eyjanna:

„Heimaey fóðrar nú sem samsvarar 250 kýr, en hún getur fóðrað 504–800 kýr, ef alt er ræktað, sem ræktanlegt er á eynni, og beit og fóðurbætir sá, er til fellur, er alt haganlega notað. Auk þess væri hægt að framleiða svínakjöt, sem gerði meira en að samsvara því sauðakjöti, sem nú er framleitt. . . . . . .

Mannfjöldinn hefir meir en fimmfaldast síðan um aldamót. Búsafurðir hafa að vísu aukist, en eigi að sama skapi. Sumar búsafurðir, einkum mjólk, hafa ætíð verið hjer af skornum skamti, og með ári hverju verður sá skortur tilfinnanlegri. Vestmannaeyingar eru starfsmenn miklir, hafa enda oft stranga og hættulega vinnu, þar sem reynir á dáð og dug. Þessir menn þurfa holla og kjarngóða fæðu, einkum hin unga og upprennandi kynslóð, eigi hún ekki að standa að baki feðrum sínum.“

Þá spyr Sigurður Sigurðsson, hvort mögulegt sje að rækta alla Heimaey, og svarar:

„Já, það hyggjum vjer, að undanteknum fjöllunum og hrauninu, þar sem það er hrjóstrugast. En til þess að þetta sje framkvæmanlegt, þarf veg um eyna. Áburður sá, sem til fellur, þarf að vera vel hirtur og nægur markaður fyrir afurðirnar.

Ef vegur væri lagður austur úr bænum, kringum Helgafell, niður hjá Ofanleiti, á veg, sem lægi suður frá kaupstaðnum og suður á Stórhöfða, þá væri kominn greiður gangur að öllu ræktanlegu landi á eynni.“

Jeg skal svo ekki lesa meira af því, sem Sigurður Sigurðsson hefir skrifað í þessu mjög svo ítarlega riti um ræktunarmöguleikana í Eyjum og ástandið þar. Jeg ætla aðeins að vísa til þessa rits og láta þess getið, að við Vestmannaeyingar erum alveg sammála og mjög þakklátir búnaðarmálastjóranum fyrir þetta ítarlega álit og hinar velhugsuðu og velviljuðu tillögur um framtíðarræktun Eyjanna. Á þingmálafundinum í vetur komu fram beiðnir um styrk til að leggja þennan veg, sem mætti kalla ræktunarveg. Hann kemur til með að liggja í gegnum svæði, sem hingað til hefir ekki verið bygt. Og þetta land, sem verður beggja vegna við veginn, er mjög auðvelt að rækta. En ríkið leggur, sem kunnugt er, ekkert fram til vegagerða í Vestmannaeyjum; bærinn kostar þær að öllu leyti sjálfur. Hann hefir einn kostað alla vegagerð í eyjunum, sem þar er framin árlega. Þessi vegur, sem hjer um ræðir, hefir engin áhrif á vegagerð kaupstaðarins, sparar honum enga af hinum árlegu vegagerðum, því að þær verða að fara fram smátt og smátt þrátt fyrir þennan veg, þótt lagður yrði. Það er varið 14–16 þús. kr. árlega til vegagerðar, og síðan í fyrra hefir bærinn lagt góðan veg úr kaupstaðnum og vestur í fjall, og var það einkum gert til þess að ná í góðan ofaníburð.

Jeg tel raunar óþarft að rökstyðja meira en gert er af Sigurði Sigurðssyni nauðsyn þess að rækta Vestmannaeyjar. Það hlýtur að vera öllum nægilega ljóst hvað þetta snertir, að í kaupstað eins og Vestmannaeyjum, þar sem lítið landrými er, er það eina, sem nokkurt vit er í, að rækta alt, sem hægt er.

Í hv. Nd. var ákveðið að leggja til þessa vegar 17500 kr., eða helming kostnaðar, en jeg hefi lagt til, að lagðir verði fram úr ríkissjóði 2/3 kostnaðar, 26250 kr., með það fyrir augum, að 1/3 verði lagður fram úr bæjarsjóði, sem þá yrði að bæta þessu á sig auk alls annars.

Mjer virðist ekkert ósanngjarnt, að ríkissjóður leggi þetta fram, þar sem þessi vegur liggur einmitt í gegnum land, sem ríkið á sjálft, og þeir, sem koma til með að byggja meðfram veginum, verða landsetar ríkisins. Og jeg tel það alveg bráðnauðsynlegt, að ríkið leggi fram fje til þess að gera sjer þetta land arðsamara en það er nú, og einkum þó til þess að fólkið í Eyjum geti notið betur þeirra landgæða, sem þarna eru, svo að betra verði fyrir það að komast af í Eyjunum.

Fjölyrði jeg svo ekki meira um þetta og vona, að hv. nefnd og hv. deildarmenn taki vel í þetta.