05.05.1926
Neðri deild: 71. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2041 í B-deild Alþingistíðinda. (1690)

110. mál, sala á síld o. fl.

Tryggvi Þórhallsson:

Það er alveg sjerstök ástæða, sem veldur því, að jeg stend upp í þessu máli. — Jeg mun ekki blanda mjer neitt í deiluna milli þeirra manna, er óhappaverkið unnu í fyrra, er þeir lögðu niður einkasölur landsins. Þeir mega skifta með sjer heiðrinum af því. — En það kom fram hjá hv. frsm. og hv. þm. V.-Sk., að Samband ísl. samvinnufjelaga hefði fengið einhver sjerstök fríðindi hjá ríkinu til að leita markaðs fyrir sjálft sig. Þetta er fullkominn misskilningur. Það hefir engan styrk fengið, enda ekki beðið um neinn styrk. Alþingi hefir ákveðið að láta fara fram tilraunir um að afla markaðs fyrir kjöt, og hefir Sambandið tekið að sjer að framkvæma þær. Þetta átti og að vera í því fólgið, að Sambandið hefði notið einhverra sjerstakra lánskjara til þess að byggja íshús. Þetta leiðrjetti hv. frsm. raunar sjálfur síðar í ræðu sinni og sagði, að kaupfjelag hefði fengið slíkt lán. Í fyrsta lagi hefir aðeins eitt íshús verið bygt, sem hv. frsm. getur átt við.

Og samkvæmt heimild í fjárlögunum, 22. gr., er lán til þess veitt sýslufjelagi, en ekki kaupfjelagi. En samvinnufjelögin hafa þarna, eins og oft áður, tekið að sjer framkvæmdirnar og forystuna.