05.05.1926
Neðri deild: 71. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2042 í B-deild Alþingistíðinda. (1691)

110. mál, sala á síld o. fl.

Sigurjón Jónsson:

Aðeins örfá orð til að prófa huga hv. 3. þm. Reykv. (JakM). Það er rangt hjá honum, að hjer sje verið að neyða upp á síldarútvegsmenn fyrirkomulagi, sem þeim sje mjög á móti skapi. Má þar t. d. benda hv. þm. á þingmálafundargerð frá Ísafirði, sem legið hefir frammi í lestrarsal frá því í þingbyrjun. — Það hefir komið fram hjá sumum hv. þdm., að ekkert hljóð hafi heyrst frá síldarútgerðarmönnum, sem sjeu fylgjandi þessu frv. Er því rjett, ef hæstv. forseti leyfir, að lesa upp úr fundargerðinni nokkur orð. Þar segir svo:

„Fundurinn skorar á Alþingi að taka í lög, að allar síldarútflutningur verði á næsta ári í höndum þriggja manna nefndar, og sjeu tveir mennirnir kosnir af síldarútvegsmönnum og síldarkaupmönnum, en þriðji maðurinn skipaður af stjórninni“.

Þessi tillaga var borin fram af einum síldarútflytjanda á Ísafirði og samþykt án mótmæla með öllum greiddum atkvæðum. Jeg held, að þetta sje bending um, að málið sje síldarútflytjendum ekki mjög á móti skapi. Er því óþarfi að hampa því, að við höfum látið undir höfuð leggjast að leita álits þeirra, sem mestan hlut áttu að máli.