27.04.1926
Efri deild: 60. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 681 í B-deild Alþingistíðinda. (171)

1. mál, fjárlög 1927

Björn Kristjánsson:

Jeg hefi leyft mjer að bera fram aðeins eina brtt. á þskj. 418, II, .og fer hún fram á styrk til vörubifreiðaferða til flutninga suður með sjó. Á þingmálafundum þar hefir komið fram þessi ósk, einkum vegna þess, að svo mikið af nýjum fiski væri flutt þaðan og til Reykjavíkur. Fiskurinn er óslægður og þolir litla bið, ef sanngjarnt verð á að fást fyrir hann. Einmitt vegna flutningskostnaðarins hefir fiskverðið orðið að vera of hátt, einkum á vetrum, því að þá fæst enginn fiskur annarsstaðar að, en vegir eru vondir. Það mætti máske komast að aðgengilegri flutningi, ef þessi vara væri eins og hver önnur vara. En hjer stendur öðruvísi á, því að varan er sjaldan til nema á höppum og glöppum. Stundum fiskast vel, en stundum sáralítið. Fiskist illa, verða bílarnir að fara með hálfan farm eða minna. Hjer er því ekki um neinn reglubundinn flutning að ræða, heldur getur bíllinn farið erindisleysu. En þetta eykur flutningskostnaðinn. Til þess að fá fiskinn nýjan verða bílarnir að vera komnir í veiðistöðina, er bátar lenda.

Fyrir mörgum árum voru samgöngur á sjó hjer suður með mjög greiðar. Þá voru yfir 30 flóabátaferðir á ári um Hafnarfjörð, en nú koma þeir aldrei á þær slóðir. Sama er að segja um strandferðaskipin. Það verður því að teljast mjög sanngjarnt, þó að ljett væri undir með þessari flutningaþörf. Þetta mundi lækka dýrtíðina hjer, en dýrtíð í Reykjavík verkar á alt landið.

Menn kynnu nú að segja, að styrkur þessi væri of hár í samanburði við styrkinn til samgangna austur um sveitir. En þann styrk tel jeg of lágan, eins og jeg tók fram á síðasta þingi, og eins ber þess að gæta, að ferðirnar suður eru afarmargar, stundum margar á dag. Hinsvegar skal jeg vera því meðmæltur, að hinn styrkurinn verði hækkaður í samanburði við þennan. Jeg vil svo fela hv. deild að gera út um, hvort brtt. þessi verður samþykt.

Jeg sje ekki ástæðu til að tala um brtt. einstakra þm. eða nefndarinnar. Jeg er ekki vanur því. Það hefir þegar verið mælt rækilega fyrir þeirri tillögu, sem jeg flyt ásamt hv. 3. landsk. (JJ) um styrk til Brynjólfs Þórðarsonar listmálara. Ef þessi styrkur verður veittur, eru slegnar tvær flugur í einu höggi, sem sje gerð tilraun til þess, að hann geti aftur náð heilsu sinni og um leið þroskast í málaralist sinni.

Þá mun jeg greiða atkvæði með styrk til Nikólínu Björnsdóttur ljósmóður, sem hv. 2. þm. S.-M. (IP) bar fram, og ennfremur með till. hv. 4. landsk. (IHB) um styrk til Theodóru Sveinsdóttur. Jeg veit, að þessi kona hefir lært upp á eigin spýtur og aldrei fengið styrk. Og þegar svo er komið, að hún er viðurkend hjer, sem best að sjer í þessari grein, sem um er að ræða, fjnst mjer sanngjarnt, að henni sje veittur þessi styrkur.

Aðrar till. ætla jeg að láta afskiftalausar að öðru leyti en því að atkv. mitt mun skera úr um afstöðu mína til þeirra.