14.05.1926
Efri deild: 76. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2061 í B-deild Alþingistíðinda. (1710)

110. mál, sala á síld o. fl.

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Jeg hefi áður lýst ástæðum nefndarinnar fyrir því að fylgja þessu frv. Þær eru þess eðlis, að ef hv. 1. landsk. (SE) hefði gert tilraun til að benda á heppilegri lausn á þessu máli, þá gætu hin stóru orð hans nú um frjálsa verslun ef til vill verið á rjettum stað. En hjer er því ekki til að dreifa. En nú er ástandið svo, sem lýst hefir verið fyrir norðan, og veit jeg ekki til, að neinn hafi gert tilraun til að afsanna, að mikið af síldarversluninni sje komið á hendur útlendinga undir íslenskum dulnefnum. Þegar svo er komið, er til lítils að ætla sjer að fljóta á upphrópunum, heldur verður að horfast í augu við veruleikann eins og hann er. — Jeg skal viðurkenna, að það er leitt fyrir fylgismenn frjálsrar verslunar að þurfa að greiða atkvæði með öðru eins neyðarúrræði og þessu. En jeg hugsa, að hv. 1. landsk. viti betur en margir aðrir, hvernir útlitið er fyrir síldarútveginum. Jeg hugsa að hann viti, hve ilt það er að stunda þann atvinnuveg án þess að selja erlendum síldarkaupmönnum nafn sitt á leigu. Þegar hann ber okkur á brýn, að við brjótum bág við frjálsa verslun, sem sje á stefnuskrá okkar, verður hann því að athuga þær ástæður, sem liggja til þess. Það kann að vera, að hv. 1. landsk. vilji loka augunum, en jeg vil ekki líta fyrst og fremst á það, hvort, þetta eða hitt setji hömlur á frjálsa verslun, áður en jeg lít á nokkrar aðrar ástæður. Jeg þori ekki að lofa honum því. Jeg tel hv. þm. ekki hafa bent á neina betri leið en þá, sem farið er fram á í frv. Þar með segi jeg ekki, að frv. sje einasta heppilega lausnin á þessu máli, en það hefir fylgi margra á sviði útvegsins, og mótmælin gegn því eru ekki svo rökstudd, að hægt sje að taka fult mark á þeim. Þetta verður að nægja sem ástæður fyrir því, að sjútvn. þessarar deildar hefir ekki viljað leggja stein í götu þessa frv. Það hann að vera, að hv. 1. landsk. taki þær ekki gildar, en okkur virðast þær svo þungar á metunum, að við yrðum að geta bent á eitthvað annað en orðatiltæki eins og „frjáls verslun“ áður en við vildum gerast Þrándur í Götu þeirra manna, sem vilja reyna að halda síldarsölunni á íslenskum höndum og koma í veg fyrir, að hún verði ofurseld útlendingum, þó þeir leynist á bak við nöfn íslenskra ríkisborgara.