27.04.1926
Efri deild: 60. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 682 í B-deild Alþingistíðinda. (172)

1. mál, fjárlög 1927

Forsætisráðherra (JM):

Það eru aðeins örfáar brtt. bæði frá einstökum þm. og hv. fjvn. sem jeg þarf að minnast á.

Jeg geri ráð fyrir, að jeg geti fallist á flestar till. hv. nefndar. en þó er ein brtt. frá henni á þskj. 402, nr. 24, sem jeg með engu móti get aðhyllst. Það er tillaga um að færa niður þá fjárhæð, sem ætluð er til kaupa á listaverkum. Jeg skil það að vísu, að hv. nefnd hafi tekið tillit til þess, að mikið er komið hjer inn af styrkjum til listamanna fram yfir till. í stjfrv., en engu að síður held jeg, að rjett sje að veita ríflegri fjárhæð til kaupa á listaverkum en nefndin hefir lagt til. Get jeg því ekki sagt, að jeg sje hv. nefnd þakklátur fyrir þessa brtt., en hinsvegar er jeg henni þakklátur fyrir 30. brtt. á sama þskj. Það voru sjerstakar ástæður fyrir því, að þessi fjárveiting var ekki tekin upp í stjfrv. Hv. frsm. (EP) gat þess, hve mikla verðleika frú Björg Þorláksdóttir hefði til styrksins. En mjer hefði þótt rjettara, að sagt hefði verið blátt áfram, að þetta væri styrkur til hennar, en óþarft að taka það fram beint, að það sje í viðurkenningarskyni; ekki þó vegna þess, að frúin eigi ekki viðurkenningu skilið, en styrkurinn er í rauninni veittur til ritstarfa. Þessi kona hefir gert landi sínu mikinn sóma og hefir henni fyrstri af öllum konum á Norðurlöndum hlotnast sá heiður að fá tekna gilda doktorsritgerð eftir sig við Sorbonneháskólann í Frakklandi. En hún hefir ekki hlotið nafnbótina sjálfa, vegna þess að viðkomandi kennari hefir ekki verið heima í vetur.

Af öðrum till. nefndarinnar finn jeg ekki ástæðu til að nefna nema þá seinustu. Henni get jeg með engu móti fylgt, sökum þess, að í vetur kom erindi frá öðrum embættismanni, prestinum á Ísafirði, um að fá lán til húsbyggingar. Jeg sagði þá, að jeg treysti mjer ekki til að bera fram þá beiðni, vegna þess, að svo mikið væri ógert af byggingum, sem væru nauðsynlegri og ríkinu bæri skylda til að hlaupa undir bagga með. Það er altaf mikið af óbygðum prestsseturshúsum í sveit. Aftur á móti eru hús presta og sýslumanna í kaupstöðum ekki embættisbústaðir til frambúðar. Jeg neitaði því algerlega þessari beiðni, og þess vegna get jeg ekki fylgt síðustu till. hv. nefndar á þskj. 402.

Þá skal jeg geta þess, að það hefir komið fram brtt. frá þeim hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) og hv. 2. þm. S.-M. (IP) um styrktil framhaldsnáms við Akureyrarskólann. Jeg minnist þess, að á sínum tíma, þegar þetta mál um framhaldsnám við Akureyrarskólann var á ferðinni, ljet jeg þess getið, að jeg væri hræddur um, að það yrði ekki kostnaðarlaust fyrir ríkissjóð. Mjer var tekið þetta illa upp og það var fullyrt, að sá grunur minn væri algerlega ástæðulaus. En jeg tel það ástæðulaust að veita sjerstakan styrk til þessa framhaldsnáms. Það raskar föstu skipulagi skólans.

Þá er næst brtt. frá hv. 2. þm. S.-M. um að 12 þús. kr. gangi til barnaskóla í Neshreppi. Jeg veit, að það liggur við borð, að þessi barnaskóli verði bygður, því að það þarf að byggja hann. En jeg tel ekki rjett að taka hann einan út úr, þar sem þegar hafa sagt til sín 14 skólar, sem þarf að byggja. Jeg veit að vísu, að þessir 14 skólar verða ekki byggðir allir í einu, en það verður reynt að skifta því fje, sem veita á til þessara hluta, þannig, að það komi að sem bestum notum á hverjum stað. Enda heyrði jeg það á hv. flm. (IP), að hann bjóst ekki við, að svona mikið af allri fjárveitingunni gengi til eins skóla.

Þá er aðeins ein brtt. eftir af þeim, sem jeg ætla að minnast á. Það er XIII. brtt. á þskj. 418. Hv. flm. (GunnÓ) er ekki við í deildinni. Hann mundi annars hafa mælt fyrir þessari till. Jeg vil leyfa mjer, án þess þó að hv. flm. hafi farið fram á það við mig, að mæla með því, að frú Anna Gunnlaugsson fái í eftirlaun 900 kr. Þetta er að vísu há fjárhæð, eftir því sem gerist, en hjer stendur líka alveg sjerstaklega á. Hjeraðslæknirinn Halldór Gunnlaugsson, maður hennar, druknaði í embættisferð á mjög sviplegan hátt. Áður fyr var mikið tillit tekið til þess, ef embættismaður ljest eða varð fyrir slysi í embættisferð. Þeir höfðu algerða sjerstöðu, og mjer finst, að í þessu tilfelli verði ekkjan að njóta góðs af þeirri sömu reglu. Jeg býst við, að ef embættismaður yrði fyrir slysi í embættisferð, mundi þingið reynast honum vel, og vil jeg því mæla með þessari tillögu.