12.05.1926
Efri deild: 74. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2069 í B-deild Alþingistíðinda. (1723)

125. mál, seðlaútgáfa

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Jeg vil fyrir hönd meiri hl. nefndarinnar geta þess, að eins og hæstv. fjrh. gat um, var í upphafi gert ráð fyrir því, að Íslandsbanki drægi inn ½ miljón í ár, en nefndin áleit, að fyrir þennan takmarkaða tíma og með hliðsjón af þeim kringumstæðum, sem nú eru, að rjettast væri, að bankinn væri losaður við þennan inndrátt í eitt ár, og breytti því þessu ákvæði eins og það er nú í frv. Jeg sje ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta. Þessar ástæður nefndarinnar eru svo ljósar, að þær þurfa engra skýringa við. Landsbankinn hefir sjálfur stungið upp á, að slakað væri til í þessu efni, til þess að Íslandsbanki þurfi ekki að sækja eins mikið og áður til sín. Og eftir atvikum er ekki ósanngjarnt að stöðva inndráttinn um þennan takmarkaða tíma, en hinsvegar hefir það enga hættu í för með sjer. Mæli jeg því með því, að frv. verði samþykt óbreytt.