14.05.1926
Neðri deild: 79. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2075 í B-deild Alþingistíðinda. (1739)

125. mál, seðlaútgáfa

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg ætla aðeins að undirstrika frekar það, sem hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) hefir sagt út af brtt. á þskj. 594. Þegar gengismálið var afgreitt hjer með rökstuddri dagskrá, var það skýrt tekið fram, að ekki mætti eyða neinu fje úr ríkissjóði til þess að halda genginu uppi. Nú er aftur með þessu frv. gerð tilraun til að verja allmiklu fje úr ríkissjóði til þess að halda við núverandi gengi.

Það er ekki Landsbankinn, sem á að leggja fram þetta fje, heldur ríkissjóður. Hann á að afhenda bankanum þessa peninga til þess að halda við núverandi gengi. Það er verið að stofna til þess að fá samþ. till. þvert ofan í þann vilja, sem áður hefir komið fram hjer í deildinni. Brtt. minni hl. fjhn. samþykki jeg með glöðu geði. Jeg vil leyfa mjer að biðja hæstv. forseta að bera upp 2. gr. frv. sjerstaklega. Mun jeg þá greiða atkvæði á móti henni og vænti þess, að deildin haldi fast við þá skoðun sína, sem áður hefir komið fram í þessu máli.