14.05.1926
Neðri deild: 79. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2076 í B-deild Alþingistíðinda. (1740)

125. mál, seðlaútgáfa

Jón Baldvinsson:

Jeg hefi borið fram tvær brtt. við þetta frv. Mjer skilst, að tímatakmarkið, sem sett er, geti orkað tvímælis, hvort það er nógu rúmt. Það hefir sýnt sig hjer, hve treglega gengur að koma bankamálunum áleiðis. Stjórnin hefir ekki sýnt þann áhuga til að hrinda því áfram, sum vænta hefði mátt um jafnmerkilegt mál. Það gæti vel farið svo, að næsta þing afgreiddi ekki heldur þetta mál. Það er ómögulegt að sjá, hvernig afstaða Ed. er. Mjer skilst, að hún hafi felt að taka Landsbankafrv. fyrir með 9 atkv. gegn 2. Mjer þykir ekki ólíklegt, að svo kunni að fara, að afgreiðsla þessa máls dragist fram á árið 1928. Jeg get hugsað mjer, að þeir, sem ekki vilja afgreiða það nú, kæri sig ekki um, að það sje afgreitt rjett fyrir kosningar. Jeg vil því setja tímatakmarkið við 1928. Þá hefi jeg gert brtt. um að fella niður 3. gr., sem raunar hefði ekki þurft, þegar gr. frv. eru bornar upp hver fyrir sig. En jeg vildi bara leggja. áherslu á, að þessi grein frv. ætti að falla niður. Mjer skilst, að sá samningur, sem gerður hefir verið við Íslandsbanka um innlausn seðla, mætti standa áfram óbreyttur, og því sje óþarfi að vera að gera þar á neina breytingu. Enda hefir Íslandsbanki ekki, mjer vitanlega, æskt neinna breytinga. Og ætti á þessu nokkur breyting að verða, þá ætti að ákveða vissa fjárupphæð, sem bankinn skyldi draga inn á árina. Jeg get skilið, að erfitt muni vera að draga inn mjög mikið, en að fella inndráttarskylduna alveg niður tel jeg ekki rjett, og því kem jeg með þessa brtt. um að fella 3. gr. frv. niður.