14.05.1926
Neðri deild: 79. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2077 í B-deild Alþingistíðinda. (1741)

125. mál, seðlaútgáfa

Fjármálaráðherra (JÞ):

Ákvæði 1. gr. um það, að framlengja skuli frestinn á skipun seðlaútgáfunnar um 1 ár, er í samræmi við það, sem hefir verið gert. Það er ekki rjett að setja tveggja ára frest. Því lengur sem líður, því erfiðara er að bjargast við það fyrirkomulag, sem nú er.

Að 3. gr. breyti samningum við Íslandsbanka, held jeg að ekki sje rjett. Þetta er aðeins tilslökun frá hendi annars samningsaðilja. Þingið getur altaf haft full tök á þessu með því að fella burt undanþáguna frá gullinnlausn seðlanna.

Það var kátlegur misskilningur hjá þeim háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) og háttv. þm. Str. (TrÞ), að hjer væri að ræða um gengismálið. Ef svo væri, þá gengur brtt. minni hl. fjhn. lengra heldur en ákvæði frv. Ákvæði frv. þýðir ekki það, að ríkissjóður eigi að sleppa þessu fje úr hendi sjer; það er aðeins heimild til að verja fjenu að seðlabankahætti, ef með þarf.

Því fer fjarri, að till. minni hl. fjhn. feli í sjer endanlegt skipulag á seðlaútgáfunni. Mjer sýnist lítið samræmi í því að vilja ekki verja neinu fje úr ríkissjóði til að varna gengisbreytingu, en vilja hinsvegar gefa bankanum eftir meiri hlutann af þessu fje.

Till. minni hl. fjhn. fer fram á að setja inn ákvæði, sem hvorki eru leyfileg nje nýtilegur grundvöllur seðlaútgáfu. Freistingin til seðlaútgáfu yrði of mikil. Jeg er að vísu ekkert hræddur um, að slíkt vald yrði misbrúkað af núverandi bankastjórn eða landsstjórn. En svona ákvæði á jafnan að miða við það, sem alment talið þykir rjett vera.